135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

fundarstjórn.

[21:25]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég treysti því að hæstv. forseti standi undir þeirri ábyrgð að sjá til þess að forsætisnefnd verði kölluð saman í kvöld, og þessum fundi verði frestað áður en honum verður slitið. Það er hvort eð er búið að tefja hann síðan í dag út af þessu máli án þess að hafa samráð við aðra forseta eða við þingflokksformenn. Þetta er að verða eins konar einræði í forsetastóli þingsins, eitthvað sem hefur verið að stefna í og virðist núna ætla að verða algjört, þ.e. að forseti telji sig ekki þurfa að ræða við aðra forseta eða þingflokksformenn um skipan mála og dagskrá á þinginu. (Gripið fram í: Samræðustjórnmál.) Þessi samræðustjórnmál þar sem forseti virðist tala bara einn við sjálfan sig, það eru mikil samræðustjórnmál. Ég krefst þess að forseti geri hlé á fundinum, kalli saman forsætisnefnd og þingflokksformenn, a.m.k. þingflokksformenn, og fari yfir dagskrána, skýri hvers vegna þessi háttur er hafður á í dag, að beita svona valdi og einræði í þingstjórninni. Ég legg áherslu á að við erum hér með eitt stærsta mál þingsins, fjárlagafrumvarpið, og hér er hnoðast á þingsköpunum hvað varðar það.

Má ég benda á að í 51. gr. þingskapanna stendur, með leyfi forseta:

„Breytingartillögur við lagafrumvörp og þingsályktunartillögur skulu vera prentaðar og þeim útbýtt ekki síðar en einni nóttu áður en þær koma til umræðu.“

Það fer að verða svolítið skilgreiningaratriði hvort við séum ekki komin út í nóttina. Það verður að segjast að það er illmögulegt fyrir aðra þingmenn að vinna nefndarálit og breytingartillögur við frumvarpið fyrr en tillögur meiri hlutans eru komnar fram. Hvers eiga þeir þá að gjalda? Jú, þá eru þeir samkvæmt þingsköpunum nánast búnir að missa rétt sinn til að koma með breytingartillögur. Þeir verða annars að sækja um afbrigði á morgun fyrir þeim. Þetta vinnulag, svona ofbeldi, svona einræði gengur ekki að mínu mati og ég krefst þess að forseti geri hlé á fundinum og ræði við þingflokksformenn, skýri það hvers vegna þessu ofbeldi er beitt þannig að hægt sé þá að taka sameiginlega ákvörðun um að fresta því að fjárlögin skuli tekin til 2. umr. þannig að þingmenn geti rætt þau og tekið þau fyrir með eðlilegum og þingræðislegum hætti þegar þingmenn hafa haft tækifæri til að skoða fjárlagafrumvarpið eins og það kemur til 2. umr. inn í þingið. (Forseti hringir.) Ef á að halda þessu óbreyttu eins og nú er keyrt á (Forseti hringir.) er það mikil vanvirða við eitt stærsta mál þingsins, frú forseti, og ég treysti forseta til að koma í veg fyrir að svo verði.