135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

2. umr. fjárlaga og afgreiðsla fjárlaganefndar.

[21:32]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil rétt nefna í sambandi við þá umræðu sem hér er rakin að reynsluboltar í þessum sal segja mér að það sé í sjálfu sér ekkert einsdæmi að þetta gerist … (JBjarn: Jú, jú. Þetta hefur aldrei …) fyrirgefðu, hv. þingmaður og félagi úr fjárlaganefnd, þetta sé ekki að gerast í fyrsta skipti og sé ekkert nýtt. Í sjálfu sér er það ekki endilega bót á vinnulagi og það vil ég undirstrika. Eins og margoft hefur komið fram í umræðum þeirra sem eru í forsvari fyrir ríkisstjórnarmeirihlutann í fjárlaganefndinni hefur verið lögð áhersla á mjög ríkan vilja til að breyta um verklag og ég undirstrika það enn og aftur. Fyrr í umræðunni ræddi hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hvort ný vinnubrögð væru að skapast í þá veru að virða sjónarmið stjórnarandstöðunnar að vettugi og ég mótmæli því að sá háttur sé hafður á. Ég hef aldrei og mun vonandi aldrei taka þátt í að vinna með þeim hætti.

Einnig kallaði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon eftir því að unnið yrði líkt og áður tíðkaðist, að reyna að skapa sem breiðasta sátt um þær breytingartillögur sem lagðar höfðu verið fram. Ég fullyrði að þannig höfum við líka reynt að vinna að gerð þessa fjárlagafrumvarps í nefndinni og minni á ágæta vinnu og gagnlega við gerð fjáraukalaga sem við tókum til atkvæðagreiðslu í síðustu viku við 2. umr. þar. Ég minni á hvernig sú atkvæðagreiðsla fór, þar voru hv. þingmenn í salnum, m.a. þeir sem hér hafa talað í kvöld, þannig upplýstir og viljugir til verka að þeir greiddu atkvæði með fjölmörgum af þeim góðu og gagnlegu tillögum sem þar voru lagðar fram til afgreiðslu. Ég hef ekki nokkra trú á öðru en að hv. þingmenn muni sameinast með okkur á þingfundi við það að afgreiða með jákvæðum hætti fjölmargar af þeim gagnlegu tillögum sem koma fram og verða kynntar við 2. umr. fjárlaga á morgun.