135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

2. umr. fjárlaga og afgreiðsla fjárlaganefndar.

[21:34]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Frú forseti. Umræðan snýst í sjálfu sér um það hvort fresta beri umræðu um þær breytingartillögur sem nú hafa verið lagðar fram og dreift um fjárlög fyrir árið 2008 svo að þingmenn geti undirbúið sig fyrir þátttöku í þeirri umræðu. Ég horfi til þeirrar reynslu sem ég hef úr hinu háa Alþingi frá því að ég settist hér inn. Ég hef tekið þátt í umræðu um fjárlög, 1. umr., og ég sat hér daglangt, í eina átta klukkutíma. Mér varð á að bregða mér einu sinni úr salnum og hv. þm. Ögmundur Jónasson kallaði mig þá upp. Varð ég þar af leiðandi að hlaupa á milli húsa og sat þá hér sem fastast allan þann tíma sem fjárlögin voru til umræðu. Það kom mér hins vegar á óvart hve fáir tóku þátt í umræðunni eða virtust spenntir að fylgjast með.

Það sama var upp á teningnum við 2. fjáraukalagaumræðuna, þegar það frumvarp var lagt fram. Ég hef kynnt mér örlítið þessi mál, farið í söguskoðun og skoðað virkni þingmanna í umræðum, bæði við 1. umr. og 2. umr., hvort sem er í fjárauka- eða fjárlögum, og mér sýnist sem virknin sé alla jafna ekki mjög mikil, heldur lendi umræðan yfirleitt á ákveðnum einstaklingum. Ég ætla hins vegar ekki að taka af mönnum réttinn til að tjá sig um hlutina eða taka þátt. Auðvitað er kannski ekki til eftirbreytni að menn hafi ekki mikinn tíma til undirbúnings. Það á þó ekki bara við í þessu máli, heldur í svo fjölmörgum öðrum og ég vísa til þess sem ég hef sagt áður, að það hefur verið keppikefli mitt að reyna að breyta vinnulagi í fjárlaganefndinni. Þegar við förum að tala um samræðustjórnmál heyrist mér á þeim hv. þingmönnum sem hafa verið í nefndinni lengur en ég, m.a. úr stjórnarandstöðunni, að þeir hafa aldrei fengið jafnmikið og -ríkt tækifæri til að taka þátt í störfum nefndarinnar og á þessu hausti. Ég þakka þau orð frá þeim hv. þingmönnum, hvort sem það er hv. þm. Jón Bjarnason eða hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson.

Niðurstaðan er í sjálfu sér í höndum forseta. Ég mun halda áfram að vaka hér fram á nætur eins og ég hef gert undanfarnar nætur og undanfarnar vikur og vakna snemma, ósofinn, og væntanlega mæta til umræðu í fyrramálið eins og ég gerði ráð fyrir.