135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[10:36]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þótti ræða hv. þingmanns heldur úr hófi gengin því að það sem verið er að leggja til varðandi breytingar á þingsköpum er í fyrsta lagi að bæta lagastarfið, gera það vandaðra og betra. Í annan stað að efla aðhald með ríkisstjórninni, gefa stjórnarandstöðunni betra tækifæri til að veita aðhald. Og í þriðja lagi að Alþingi sem málstofa virki enn betur því að á hverjum degi verður hægt að taka upp mál í allt að hálftíma í senn og þingið virkar því mun betur en verið hefur hingað til. (Gripið fram í.)

Það er líka hálfsorglegt að hlusta á það að málfrelsið skuli lagt upp á þann hátt af hv. þingmanni að tvær langar ræður séu meira málfrelsi en margar stuttar ræður. Uppleggið á þennan hátt er algerlega (Gripið fram í.) fráleitt, virðulegi forseti, því að hér er ekki verið að skerða málfrelsi á nokkurn hátt. Áfram verður ótakmarkaður ræðutími. Munurinn er aðeins sá að í stað þess að tala tvisvar í langan tíma má tala oft í skemmri tíma. Hv. þingmenn leggja þetta upp þannig að hér sé verið að skerða málfrelsi þegar verið er að auka möguleika þingsins á aðhaldi, bæta vinnubrögð þingsins varðandi lagasetningu og gera þingið að enn betri málstofu þar sem hægt er að taka málefni dagsins upp á hverjum einasta degi. Og í stað þess til að mynda að ráðherrar sitji fyrir svörum tvisvar í mánuði, sitja ráðherrar verður samkvæmt þessum breytingum fyrir svörum átta sinnum í mánuði og þingnefndir geta kallað ráðherra fyrir á sinn fund. (Forseti hringir.) Svo koma menn hér upp og halda því fram að verið sé að stöðva málfrelsið. Þetta er dónaskapur af versta tagi. (Gripið fram í: … verslun og viðskipti.)