135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[10:45]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forseta fyrir mjög vönduð vinnubrögð varðandi þær tillögur sem hér liggja frammi. (SJS: Lagni.) Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon getur kallað hér fram í að það sé sérstök lagni. Það má auðvitað segja það, hún er hluti af því að ná samstöðu um ákveðið mál og eins og hér kom fram í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar hefur forseti lagt sig mjög fram um að ná samstöðu. Hér eru þá sjónarmið 54 þingmanna á móti sjónarmiðum níu þingmanna sem við erum að fara að ræða á lýðræðislegan hátt í þingsölum. Við höfum það markmið með þessu frumvarpi að koma einhverju skipulagi á þingstörfin og efla eftirlitshlutverkið. Það hlýtur að vera eitt af meginmarkmiðum okkar.

Umræða um hitamál, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi hér, hefur ekki byggst á því að menn væru með lýðræðisleg skoðanaskipti. Það er einfaldlega þannig. Það að telja það lýðræðislega umræðu þegar stjórnarandstöðuþingmenn tala hér og stjórnarþingmenn, sem eru þó í meiri hluta, fá ekki að koma að sjónarmiðum sínum er algjörlega fáheyrt og getur ekki talist til lýðræðislegra samskipta þingmanna eða skoðanaskipta.

Ég held því fram að VG geti ekki með nokkrum rökum sagt að þeir hafi ekki verið hafðir með í ráðum. Hér er búið að funda með formönnum þingflokka og í forsætisnefnd, bæði á síðasta kjörtímabili þar sem hæstv. fyrrverandi forseti Sólveig Pétursdóttir lagði sig mjög fram (Forseti hringir.) og núverandi hæstv. forseti Sturla Böðvarsson hefur lagt sig mjög fram og það sést á því (Forseti hringir.) frumvarpi sem hér er að VG hefur náð fram ýmsum málum sem þeir hafa lagt áherslu á.