135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

2. umr. fjárlaga.

[11:11]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Við höfum í morgun rætt um vinnubrögð Alþingis og virðingu þess hjá þjóðinni. Mikið hefur verið rætt um að bæta þurfi vinnubrögðin á hinu háa Alþingi, m.a. hafa margir talið að samasemmerki sé milli þess annars vegar að stytta og takmarka ræðutíma þingmanna og hins vegar að bæta vinnubrögðin.

Nú gæti hæstv. forseti, sem hefur mælt fyrir frumvarpi með þeim rökum að það eigi að verða til þess að bæta vinnubrögð sérstaklega, sýnt í verki að hann meini eitthvað með óskum sínum um bætt vinnubrögð. Að mínu mati eru það ekki góð vinnubrögð að dreifa breytingartillögum við fjárlagafrumvarp, sem er eitt stærsta mál sem þingið tekur til umfjöllunar hverju sinni, á kvöldfundi í gærkvöldi og ætlast til að það verði tekið til efnislegrar meðferðar í dag. Þingmenn hafa almennt ekki fengið ráðrúm til að kynna sér þær breytingartillögur sem þar eru á ferðinni enda þótt fjárlaganefndarmenn hafi fengið um það upplýsingar á fyrri stigum eða með einhverra daga fyrirvara.

Þegar við höfum í höndum, eins og hér hefur þegar verið vikið að, athugasemdir frá umboðsmanni Alþingis um að lagasetningu sé ábótavant og að menn vandi sig ekki nógu mikið við lagasetningu, ættu menn sérstaklega, þegar þetta mál er til umfjöllunar, og hæstv. forseti einkum og sér í lagi, að beita sér fyrir því að tryggt sé að þingmenn geti farið í saumana á þeim breytingartillögum sem liggja fyrir, fengið ráðrúm og nægilegan tíma til þess að gera sínar eigin breytingartillögur, því að eftir þeim er kallað nánast um leið og breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar liggja fyrir.

Hvenær eiga þingmenn að gefa sér tíma til þess? Jú, væntanlega áttu menn að liggja yfir því í nótt. Er ekki hæstv. forseti að tala um að bæta eigi vinnubrögð Alþingis, draga úr og jafnvel koma í veg fyrir næturfundi o.s.frv.? Hér er ekki neitt samræmi í málflutningi þeirra sem stýra störfum á hinu háa Alþingi.

Ég tel afar þýðingarmikið að breið og fullkomin samstaða náist um vinnubrögð meðal þeirra sem starfa á Alþingi. Hv. þm. Helgi Hjörvar vitnaði sérstaklega í minn þátt varðandi borgarstjórn Reykjavíkur og vil ég upplýsa að sem forseti borgarstjórnar beitti ég mér einmitt fyrir fullkominni samstöðu um bætt vinnubrögð þar, m.a. meðal stjórnarandstöðuflokkanna sem þá voru. Ekki hvarflaði að mér að beita mér fyrir öðru en að samstaðan yrði fullkomin. Enda hlaut ég síðan, fyrstur manna í sögunni, einróma kosningu sem forseti borgarstjórnar. Það hefði forseti Alþingis getað tekið sér til eftirbreytni en væntanlega verður bið á því.