135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

2. umr. fjárlaga.

[11:25]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mér finnst full ástæða til að leggja nokkur orð í belg um vinnubrögð því að við höfum verið að ræða vinnubrögð og ég er einmitt áhugamanneskja um að hér sé vandað betur til vinnubragða. Ég vissi af þessum útbýtingarfundi þar sem ég sat hér til klukkan sjö í gær. Ég vissi þó ekki sérstaklega hverju ætti að útbýta. Ég velti því fyrir mér þar sem ég fór heim og þurfti að sinna barni og gat því ekki farið og náð mér í þessi skjöl og þessi gögn til að undirbúa mig fyrir umræðuna hér hvort stjórnarmeirihlutinn hafi skilning á því að á Alþingi starfi fjölskyldufólk sem þarf ákveðinn tíma til undirbúnings.

Ég velti því líka fyrir mér — því að ég fylgdist með útbýtingarfundinum á rás Alþingis þar sem formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnar Svavarsson, sagði að honum þættu þessi vinnubrögð ekki til eftirbreytni og sagði að mig minnir að hann væri í raun algerlega ósofinn eftir þá vinnu sem undangengin var — þá velti ég því fyrir mér: Viljum við ekki öll breyta svona vinnulagi? Er æskilegt að fólk sé ósofið á kvöldfundum að ræða stærsta mál þingsins? Tíðkast svona vinnubrögð annars staðar í þjóðfélaginu? (Gripið fram í: Þess vegna erum við breyta núna.) Já, og þess vegna spyr ég því að mér sýnist að þetta þyki í rauninni fullboðleg vinnubrögð. Ég bendi t.d. á ný frumvörp um skólamál, mjög áhugaverð frumvörp um skólamál, þau voru kynnt fjölmiðlum áður en þau voru kynnt stjórnarandstöðunni, áður en þeim var dreift á þinginu á mánudaginn. Mér finnst það heldur ekki boðleg vinnubrögð. Ég hélt auðvitað að Alþingi snerist um að ræða málin og að vanda vinnubrögðin. Arnaldur Indriðason mætir ekki með handskrifað handrit á Þorláksmessu og segir: Ég ætla að fá bók í búðir á aðfangadag. Það þarf aðeins meiri tíma til þess, enda er hann metsöluhöfundur úti í löndum. Ég veit ekki hvort þau vinnubrögð sem hér eru iðkuð eru til útflutnings, ég leyfi mér að efast um það.

Úr því að hér hefur verið viðurkennt að þetta séu ekki vinnubrögð til eftirbreytni, af hverju er hreinlega ekki hægt að gera eitthvað í því strax?