135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

2. umr. fjárlaga.

[11:27]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að það hafi verið rökstutt nokkuð rækilega hér að ekki hefur tekist að skapa þær kringumstæður, þá umgjörð um 2. umr. fjárlaga sem æskilegt væri. Þar kemur margt til, ýmislegt fleira en bara það að nefndarálit og breytingartillögur meiri hlutans litu ekki dagsins ljós fyrr en á tíunda tímanum í gærkvöldi og þingmönnum, a.m.k. öllum öðrum en þeim sem höfðu einhverja nasasjón af málinu í gegnum veru í fjárlaganefnd, er afar þröngur stakkur skorinn til að undirbúa sig undir þá umræðu. Breytingartillögur þingmanna og stjórnarandstöðunnar sérstaklega koma væntanlega ekki til með að líta dagsins ljós og ná dreifingu fyrr en líður á daginn af augljósum ástæðum vegna þess að menn geta ekki gengið frá þeim fyrr en þeir hafa fyrir sér skjalið frá meiri hlutanum.

Við þetta bætist að það á að fara að breyta Stjórnarráðinu og færa til verkefni milli ráðuneyta og þegar liggur fyrir að þvert ofan í fullyrðingar um að það muni ekki kosta neitt mun því verða samfara kostnaður mældur í hundruðum milljóna ef ekki milljörðum. Það eitt og sér væri ærin ástæða til að skoða sinn gang ef færa á til verkefni innan Stjórnarráðsins án undangenginnar lagasetningar, ef breyta á uppsetningu fjárlaga með breytingartillögum, samanber þær sem fyrir liggja nú við 2. umr., sem færa eiga verkefni frá ráðuneytum sem fara með þau samkvæmt gildandi lögum. Það er ekki einu sinni komið fram frumvarp um tilfærslu málefna frá utanríkisráðuneyti til samgönguráðuneytis. Engu að síður er lagt til að færa fjárveitingar til eins og þetta væri þegar orðið að lögum. Óvissan sem þessu er samfara ein og sér væri næg ástæða til að skoða hvort ekki væri rétt að seinka afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins og reyna að vinna þessi mál eitthvað áfram.

Ég tek fram að hér er ekki við fjárlaganefnd að sakast og henni er mikil vorkunn hvað varðar þær aðstæður sem henni eru skapaðar í þessum efnum og Alþingi öllu vegna þess að aðstaða Alþingis til að taka á móti frumvörpunum er óviðunandi, þar á meðal hvað varðar fjárlagafrumvarpið og möguleika á sjálfstæðri skoðun og rannsókn mála á eigin forsendum. Það á þingið að gera, að sinna rannsóknarskyldu sinni í þingnefndum ekki síst. Þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður, helsta tæki Alþingis í formi óháðrar stofnunar hvað varðaði ráðgjöf um efnahagsmál, hvarf af yfirborði jarðar, gufaði upp, var lögð niður í mótmælaskyni, í reiðikasti, þá var rætt um að hér yrði stofnuð hagdeild í staðinn sem ekki síst fjárlaganefnd hefði til að styðjast við varðandi afgreiðslu fjárlagafrumvarps. Ekkert hefur orðið úr slíku. Það væri raunveruleg aðgerð til að styrkja Alþingi í glímu sinni við framkvæmdarvaldið en ekki ýmislegt annað ónefnt sem hér er á dagskrá.