135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[11:36]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég geld varhuga við því að þó að við höfum þá skoðun að það megi styrkja og efla þingið tölum við það kannski einum of oft niður. Virðing þingsins tekur mið af því sem við sjálf segjum um þingið og starfsemi þess. Þess vegna er afar mikilvægt að við umgöngumst umræðu um þingið af virðingu og alvöru og reynum að byggja virðinguna upp í stað þess að rífa hana niður. Við þurfum að efla þingið, það er lykilatriði, og það verður ekki gert í einu skrefi. Það verður gert í nokkrum skrefum og það sem við erum að reyna að fara af stað með núna er fyrsta skrefið í vonandi langri og merkilegri vegferð.

Mig langaði, virðulegi forseti, í ljósi þess að við erum búin að tala hér um störf þingsins og fundarstjórn forseta í nokkuð langan tíma minna á að í málfrelsinu felst ekki endilega það að tala lengi og mikið, heldur fyrst og fremst að skoðanir manna fái að koma fram, menn fái að tala fyrir þeim og koma þeim á framfæri. Það er lykilatriði í tjáningarfrelsinu og málfrelsinu. Það er hér haft í heiðri og það er virt. Það hefur m.a. sýnt sig undanfarinn rúman klukkutíma eða svo.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við förum að taka á dagskrá stærsta mál þingsins, fjárlögin, og umræðuna um það. Ég held að það sé mikilvægt að þingið haldi dagskránni eins og hún hefur verið lögð upp í starfsáætlun. Þar er gert ráð fyrir að 2. umr. fjárlaga fari fram í dag. Ég tel mikilvægt að sú umræða fái að fara af stað. Það var farið að þingsköpum með framlagningu málsins. Hins vegar er deilt á að þetta hafi komið fram fullseint. Ég held að þau sjónarmið eigi vissulega við ákveðin rök að styðjast. Hins vegar er þetta innan þingskapa og ég held að meginatriðið sé að við förum að taka til við umræðu um fjárlög og hleypa að þeim sjónarmiðum sem menn hafa um stærsta málið sem þingið afgreiðir á hverjum vetri.