135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[11:43]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Varðandi 2. umr. fjárlaga verður auðvitað að hafa í huga hvort öll gögn málsins hafi ekki verið komin tímanlega fram. Það er upplýst að þingskjöl og álit meiri hluta fjárlaganefndar voru afgreidd á mánudaginn var þannig að þingmenn hafa haft nægan tíma til að kynna sér efni þeirra. (JBjarn: Það er ekki rétt.) Hafi ekkert nýtt komið inn í þær tillögur eftir að það mál var afgreitt sé ég engar forsendur fyrir því að gera kröfur til þess að fresta fyrirtöku fjárlagaumræðunnar vegna þess að þá er ekkert nýtt efnisatriði í málinu sem menn ekki hafa haft tíma til að kynna sér fram að þessu.

Meðan farið er að þingsköpum, sem eru þær reglur sem við höfum sett okkur um það hvernig mál eigi að ganga fyrir sig, finnst mér vafasamar fullyrðingar um að það sé ófullnægjandi fyrirkomulag. Þingsköpin eru lög sem við höfum sett okkur og það er farið að þingsköpum í þessu tilviki þannig að mér finnst að þeim sé nokkur vandi að gera kröfur á grundvelli þess að það sé ófullnægjandi sem í þingsköpunum er kveðið á um að gert skuli. Þeir verða þá að færa fram rök fyrir máli sínu. Ég skal ekkert útiloka að þau kunni að vera fyrir hendi, en þau verða þá að koma fram. Þau hafa ekki komið fram í þessari umræðu þannig að ég tek ekki undir þær kröfur að þessu sinni, virðulegi forseti, varðandi fjárlagafrumvarpið.

Þessi umræða hefur fyrst og fremst verið framhald á umræðum um störf þingsins um fyrirhugaða breytingu á þingsköpum sem mér finnst að menn hefðu átt að bíða með að ræða þar til málið verður tekið fyrir á morgun. Þar gefst tími til að fara yfir það mál, gera grein fyrir viðhorfum sínum til þess sem í frumvarpinu er, eða þess sem ekki er í frumvarpinu. Þessi umræða nú hefur einhvern annan tilgang sem þeir ættu að skýra sem hafa staðið fyrir henni.

Ég minnist þess að af hálfu þingflokks Vinstri grænna var fyrst og fremst gerð krafa um að þinghaldið væri skipulagt, stæði frá 9 til 5, þannig að þingmenn gætu treyst því að vera búnir klukkan 5. Hins vegar var líka sú krafa að ræðutími yrði ótakmarkaður. Við sjáum bara á þessum morgni að þetta tvennt er ósamrýmanlegt. Það verður ekki hægt að skipuleggja þinghald með neinu móti ef þetta er algerlega opið eins og verið hefur. Vilji menn takmarka og skipuleggja þinghaldið, (ÖJ: Hvaða útúrsnúningar eru þetta?) vilji menn takmarka og skipuleggja þinghaldið, virðulegi forseti, ef ég fengi að beita málfrelsi mínu (Gripið fram í: … mál?) fyrir ofbeldi hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem ævinlega telur sig hafa meira málfrelsi en aðrir menn … (Gripið fram í.) Fyrir hönd hans þingflokks er sú krafa lögð fram að hægt verði að skipuleggja þinghaldið milli 9 og 5. Til þess að það megi verða verður að gera miklu meiri kröfur og breytingar en lagt er til í frumvarpinu (Forseti hringir.) sem fyrir liggur. (Gripið fram í.)