135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[11:50]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í þessum umræðum hefur ákveðnum spurningum verið varpað fram til forseta. Ég óska enn svara við því hvort við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs förum með fleipur eða hvort við förum með rétt mál þegar við segjum að það sé afbrigðilegt í hæsta máta að þingskjölum vegna 2. umr. fjárlaga sé dreift með 12 eða 13 klukkustunda fyrirvara áður en umræða hefst.

Ég tel ekki forsvaranlegt, í ljósi orða hæstv. forseta um þörfina á því að bæta þingstörf, að hann svari ekki þeirri spurningu áður en lengra er haldið. Fleiri fyrirspurnir hafa komið fram til hæstv. forseta um þetta mál í þessari umræðu um fundarstjórn forseta, m.a. spurningin um bandorminn, um Stjórnarráðið. Ég tel að við eigum heimtingu á að fá að vita hvort forsvaranlegt er að fara með breytinguna á fjárlögunum þannig í gegn að fjárlögin verði samþykkt með fyrirvara um einhverjar breytingar sem Alþingi eigi mögulega eftir að samþykkja á lögum um Stjórnarráð Íslands.

Ég held að hæstv. forseti Alþingis þurfi að tryggja að það sé forsvaranlegt og standist lagareglur að gera þetta með þeim hætti sem hér er lagt til. Um þetta hafa borist fyrirspurnir til hæstv. forseta sem ég held að hann ætti að svara áður en við höldum lengra.

Þá vil ég líka leggja eina spurningu enn í púkkið til hæstv. forseta. Hún varðar það, sem hæstv. forseti hefur verið að tala um, að gera Alþingi að fjölskylduvænni vinnustað: Hversu lengi telur hæstv. forseti að þessi fundur komi til með að standa?