135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:28]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil árétta það sem ég sagði áðan, að grunnforsendur sem unnið er með við gerð fjárlaga hafa reynst mjög illa, þ.e. þær nýtast illa við það verkefni. Það hefur verið gagnrýnt. Til þess að fjárlögin endurspegli raunveruleikann og séu hluti af stýritæki í efnahagsmálum þjóðarinnar þurfa þau að byggja á rauntölum og því sem best er vitað.

Ég tek sem dæmi að fjárlög innan þessa árs breytast kannski um eina 90 milljarða kr. innan ársins. Þess vegna legg ég áherslu á að vinnubrögðin við fjárlagagerðina, sérstaklega hvað varðar tekjuáætlunina og grunnforsendurnar, verði bætt. Vinnubrögðin hafa verið harðlega gagnrýnd, vinnubrögðin og þessar lélegu forsendur, af efnahags- og fjármálalífinu.

Ég tel að leggja eigi fyrir endurskoðaða þjóðhagsspá, endurskoðaðar grunnforsendur fyrir þjóðarbúskapinn, á næsta ári áður en við afgreiðum fjárlög hér við 3. umr. Þannig var farið að áður, þegar við höfðum Þjóðhagsstofnun. Hún kom með endurskoðaðar tölur fyrir 3. umr. Nú, við höfum Seðlabankann og ég legg áherslu á að ef það á að vera óbreytt að við afgreiðum fjárlög í þeirri miklu efnahagslegu óvissu og óöryggi sem nú er, sem hefur ekki farið fram hjá neinum, þá er það mjög óábyrgt. Við þurfum að endurskoða grunnforsendur þeirra efnahagsstærða sem fjárlagafrumvarpið og fjárlögin byggja á.

Ég skora á (Forseti hringir.) hv. þingmann að beita sér fyrir því að slík endurskoðun komi inn fyrir 3. umr.