135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:33]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar við 2. umr. Flutningsmaður auk mín er hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, fulltrúi Frjálslynda flokksins í hv. fjárlaganefnd.

Ég vil fyrst fara nokkrum orðum um vinnubrögð fjárlaganefndar. Eins og hv. formaður nefndarinnar, Gunnar Svavarsson, hefur gert grein fyrir hefur hún verið með hefðbundnum hætti, frumvarpið kom frá ríkisstjórn inn til 1. umr. í þingið og síðan fór það til meðferðar í fjárlaganefnd.

Eins og ég sagði áðan er frumvarpið óvenjuilla unnið af hálfu fjármálaráðherra vegna þess að gríðarlega miklar breytingar eru ráðgerðar á Stjórnarráðinu og fleiri þáttum sem hafa áhrif á endanlega útkomu þessa frumvarps. Ég tel þó að bæði formaður, varaformaður og aðrir í nefndinni hafi lagt sig fram við að vinna þetta fjárlagafrumvarp eins vel og þeir hafa haft tök á innan þess þrönga tímaramma sem settur er. Þetta er ekkert smámál, fjárlög íslenska ríkisins, fjárlög hinna ýmsu stofnana, viðfangsefna og verkefna sem er stefnumarkandi fyrir þjóðarbúið, fyrir velferðarkerfið, alla þætti, hina mörgu stóru og smáu, sem hið opinbera kemur að. Þessi tími sem nefndin hefur til umfjöllunar um fjárlagafrumvarpið er þess vegna allt of skammur. Okkur er gert að ljúka ítarlegri yfirferð, gagnasöfnun og vega og meta saman hluti á einum mánuði auk þess að sinna öðrum þingstörfum.

Það gefur líka augaleið að starfslið nefndarinnar er störfum hlaðið við að reyna að gera það besta sem hægt er á stuttum tíma. Það verður líka að segjast eins og er að eins og undanfarin ár hefur oft reynst erfitt að fá grunngögn frá framkvæmdarvaldinu sem eru nauðsynleg fyrir fjárlaganefndina til að geta unnið vinnu sína og metið það sem fjárlagafrumvarpið fjallar um. Ég vil ekki nefna neitt einstakt ráðuneyti í þeim efnum, en það verður að koma á mun skilvirkari vinnubrögðum gagnvart fjárlagavinnunni, gagnvart framkvæmdarvaldinu, en verið hefur. Það verður líka að auka og styrkja sjálfstæði fjárlaganefndarinnar, Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu hvað fjárlagavinnuna varðar. Ég sakna þess reyndar að í vinnu við þetta fjárlagafrumvarp skuli ekki koma fram meiri grundvallarbreytingar en raun ber vitni. Ég hef starfað í fjárlaganefnd og einmitt í minni hluta með öðrum stjórnarflokknum sem nú er, Samfylkingunni, og þá minnist ég þess að fulltrúar Samfylkingarinnar, bæði almennir þingmenn og fjárlaganefndarmenn, lögðu þunga áherslu á breytt og lýðræðisleg vinnubrögð við fjárlagagerðina, það væri fjárlaganefndin sem bæri ábyrgð á málinu inn til þingsins og það væri þingið sem ætti að bera uppi þá vinnu og bera ábyrgð á henni. Þess vegna sakna ég þess að þær breytingar skuli ekki vera komnar fram. Það væri fróðlegt að lesa upp ræður margra þingmanna Samfylkingarinnar, fjárlaganefndarmanna sem bæði gagnrýndu og bentu á hvernig mætti styrkja lýðræðisleg vinnubrögð við gerð fjárlaga. Hér höfum við heyrt góð orð um það en minna hefur orðið úr breytingum.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að Samfylkingin er búin að vera í ríkisstjórn síðan í maílok og fjárlagafrumvarpið og fjárlögin marka stefnu ríkisstjórnar. Í fjárlögum og fjárlagafrumvarpi koma fram þær áherslur, þau viðfangsefni, breytingar á gjöldum og tekjum sem ríkisstjórnin vill láta gera á næsta kjörtímabili sínu, og fyrst á næsta ári. Þess vegna slær fyrsta fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar tóninn að stefnumörkun fyrir það sem viðkomandi ríkisstjórn ætlar að beita sér fyrir. Ég varð því fyrir miklum vonbrigðum með þetta, bæði hvað varðar það að hefðu verið tekin upp hér öflugri og kröftugri lýðræðislegri vinnubrögð strax í sumar — við vorum með vorþing þar sem skipað var í nefndir sem líka störfuðu í sumar. Ég hélt að vorþingið hefði verið til að koma þessari skipan á sem ný ríkisstjórn með nýjum ríkisstjórnarflokki, Samfylkingunni, vildi beita sér fyrir. En svo hefur ekki orðið, því miður, og í þessu fjárlagafrumvarpi sjást þess mjög lítil merki að nokkur ríkisstjórnarskipti hafi orðið.

Þingmenn Samfylkingar bera því við að það sé svo erfitt, þetta svo löngu unnið, erfitt að koma inn í þetta og það taki 1–2 ár að breyta stefnunni. Þá hef ég sagt við þá: Þá eigið þið bara að koma að ríkisstjórn einu ári seinna.

Þegar við lesum þetta nefndarálit og þegar við förum líka í gegnum fjárlagafrumvarpið við 2. umr. hljótum við að verða að benda mjög rækilega á að ekki hefur orðið nein stefnubreyting. Það er búið að segja mörg falleg orð og ég fagna þeim, góð orð um það að starfsháttum verði breytt. Gríðarlega miklu var lofað fyrir kosningar um áherslur í velferðarmálum. Eitt fyrsta mál nýrrar ríkisstjórnar átti að vera að taka einmitt á þeim. Ég sá í einhverri ályktun eldri borgara í haust að þeir hefðu saknað þess að ekki hefði verið minnst á kjör eldri borgara eða öryrkja í stefnuræðu forsætisráðherra sem voru þó eitt aðalkosningamálið. Ef marka má ályktanir og viðbrögð þessara hópa við fjárlagafrumvarpinu og því sem fram hefur komið eru það einmitt gríðarleg vonbrigði gagnvart þeim stefnumálum sem þeir væntu að ný ríkisstjórn mundi vinna eftir, og í þessu líka mikla góðæri. Ríkissjóður er með gríðarlegar tekjur og menn tala um þetta mikla góðæri sem sumir segja reyndar að standi á brauðfótum að einhverju leyti. Engu að síður koma miklar fjármunir í ríkissjóð og ég hélt að allir hefði verið sammála um það í vor að það væri einmitt hægt að nýta þessa góðu stöðu ríkissjóðs til að bæta hag þessa fólks strax, ekki bara kannski og ekki bara setja nefnd í málið og ekki bara skoða. Nógu margar nefndir hafa skoðað hvernig bæta eigi og styrkja aldraða og öryrkja og lágtekjufólk. Það ætti ekki að þurfa að setja eina nefndina enn, ég held að fólk vilji þar sjá aðgerðir. Þetta er nokkuð sem við getum sagt að einkenni fjárlagafrumvarpið við 2. umr., óbreytt ríkisstjórnarstefna frá tíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þrátt fyrir mikla fjármuni í ríkissjóði hvað þessa málaflokka varðar.

Hið sama er reyndar að segja um heilbrigðismálin. Hér eru tillögur um að Landspítalinn fái ekki þá fjármuni sem hann þarf til að halda óbreyttum rekstri. Uppi eru hugmyndir um að færa viðfangsefni til annarra sjúkrahúsa. Gott og vel, en það liggur ekki fyrir nein heildstæð stefna í þeim efnum. Allir vita þó að eitt meginvandamál í heilbrigðisgeiranum og umönnunargeiranum er einmitt lág laun, og þau kjör sem boðin eru því fólki sem þar þarf að fást til starfa eru ekki samkeppnishæf á vinnumarkaðnum í þeirri þenslu sem er. Það þýðir ekkert að segja einstökum stofnunum að þær verði bara að herða ólina hvað það varðar. Ég sakna þess að í heilbrigðismálum komi ekki fram alveg afdráttarlaus stefnubreyting um að þennan málaflokk eigi að efla og kjör þess fólks sem vinnur á elli- og hjúkrunarheimilunum, heilbrigðisstofnunum, í skólunum, að kjör þessa fólks eigi að bæta með þeim hætti að þau verði samkeppnishæf og hægt að manna störfin með bærilegum hætti. Þessa sér ekki stað í þessu frumvarpi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Ég held að það hljóti að valda miklum vonbrigðum.

Aðrir þættir sem líka er vert að hafa í huga þegar við skoðum hér tillögur meiri hlutans og fjárlagafrumvarpið í heild eru umræður um hinar miklu mótvægisaðgerðir sem boðaðar voru í sumar með miklum fyrirgangi, mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar á þorskkvóta og fyrirsjáanlegt aukið erfiði og erfiðleikar margra sjávarbyggða vítt og breitt um landið.

Það var reyndar alltaf mjög erfitt að handfesta þessar mótvægisaðgerðir, það var meira talað. Nú þegar þær birtast endanlega í fjárlagafrumvarpinu sjálfu renna þær inn í hinn almenna þátt fjárlagafrumvarpsins þannig að hafi vilyrði fengist fyrir fjármagni til mótvægisaðgerða var náttúrlega ástæðulaust að viðkomandi verkefni fengi fjármagn á fjárlögum utan þess. Ég get nefnt mörg dæmi um það. Þegar við förum því í gegnum frumvarpið er ekki svo ljóst hvar þessar mótvægisaðgerðir liggja, þær hafa bara runnið inn og menn hafa skorið niður sums staðar á móti þar sem tilgreindar upphæðir eru. Mér sýnast þessar mótvægisaðgerðir vera meira eða minna skollaleikur með fjármuni.

Hið sama er reyndar líka að segja um málefni svokallaðrar Vestfjarðanefndar, nefndar sem var skipuð hér síðasta vor til þess að taka á og gera tillögur um skyndiúrbætur fyrir byggðir á Vestfjörðum sem hefðu búið við það að þar hefur íbúafjöldi dregist saman og býr við mjög skert og erfið kjör. Ríkisstjórnin ákvað að setja niður starfshóp og svokallaða Vestfjarðanefnd til að gera tillögur. Tillögur hennar áttu að vera algjörlega óháðar mótvægisaðgerðum eða almennum fjárlagaaðgerðum. Þær áttu fyrst og fremst að vera til þess að hirða upp vanrækslusyndir fyrri ríkisstjórna fyrri ára gagnvart þessum byggðarlögum. Reyndar þurfti ekki að setja neina sérstaka nefnd eða starfshóp um það, það lá alveg fyrir hvað þyrfti að gera.

Tillögur þessarar svokölluðu Vestfjarðanefndar renna líka að því er virðist beint inn í hinn almenna hluta þannig að þegar maður fer í gegnum fjárlagafrumvarpið verður þetta ekkert aðgreint frá almennum fjárlagaaðgerðum í mörgum tilvikum. Þessar sértæku aðgerðir sem boðaðar voru og var gumað af, þ.e. sértækar aðgerðir til stuðnings Vestfjörðum samkvæmt Vestfjarðanefnd og einnig svokallaðar mótvægisaðgerðir, virðast hafa runnið inn í hinn almenna hluta hér. Í mörgum tilvikum er þar greinilega ekki skilið á milli og ég tel þetta gagnrýnisvert. Ég býst við að margir þeir aðilar sem treystu á loforð um mótvægisaðgerðir sem væri aðeins grunnur og síðan yrði þeim fylgt eftir með auknu framlagi á fjárlögum verði fyrir vonbrigðum, því miður, og ég skil það. Það var búið að búa til miklu meiri væntingar vegna allra þeirra loforða sem hafa gengið yfir.

Þá er annar flokkur sem ég einnig vil nefna sem er keyrður hérna inn gjörsamlega óunninn og ég kem betur að seinna í ræðu minni, tilflutningurinn á ráðuneytunum, breytingar á Stjórnarráðinu, breytingar sem voru keyrðar inn á vorþingi með valdbeitingu. Fyrstu spor þessarar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar voru ofbeldi gagnvart þinginu þegar keyrðar voru í gegn hér bæði breytingar á Stjórnarráðinu í fullkomnu ósætti, skyndiákvörðun, og einnig breytingar á þingsköpum sem þá voru keyrðar hér í gegn. Fyrstu sporin voru valdbeiting og henni er fylgt eftir. Þetta eru gríðarlega miklar breytingar sem eru fyrirhugaðar. Svo kom fram frumvarp um þetta mál fyrr í haust sem enn er til meðferðar í þinginu, en er órætt í þingsal að meginþorra, 2. umr. er eftir um þau meginmál, breytingar þar sem á að flytja heilu málaflokkana á milli ráðuneyta — órætt. Það hefur verið harðlega gagnrýnt af mörgum aðilum, bæði fyrir flausturslega vinnu og einnig það að ætla sér að láta þetta koma til framkvæmda nú strax. Hvers vegna vilja menn ekki gefa því aðlögunartíma til 1. janúar 2009? Nei, þetta á að koma núna.

Svo eru keyrðar inn tillögur um breytingar á fjárlagafrumvarpinu sem byggja á lögum sem ekki er búið að samþykkja, byggja á frumvörpum sem eru nánast órædd í þinginu, byggja jafnvel á lagafrumvörpum sem ekki eru komin fram í þinginu.

Frumvörp til fjárlaga og fjárlög eiga að byggja á gildandi lögum. Komi síðan upp breytingar, lögum breytt eða ný viðfangsefni koma inn sem Alþingi samþykkir, er fjárlögunum breytt með sérstökum lögum, fjáraukalögum, þannig að það er ekkert til fyrirstöðu — og meira að segja mælt svo fyrir í lögum um fjárreiður ríkisins — að þær breytingar geti komið inn og þá tekur Alþingi þær fyrir. Það er hægt að afgreiða fjáraukalög eins oft og þurfa þykir. Þessar breytingar hér flytja heilu málaflokkana, rústa landbúnaðarráðuneytið, flytja málaflokka landbúnaðarráðuneytisins undir önnur ráðuneyti, skipta þeim upp, flytja stóran hluta tryggingakerfisins á milli ráðuneyta, færa til stofnanir, endurskilgreina þær, flytja til málefni sveitarfélaganna. Svona má áfram telja, stórir málaflokkar. Hvort sem menn deila um það hvort þetta sé rétt ráðstöfun eða ekki verður hún að fara fram á þingræðislegan hátt. Það er ekki gert hér, heldur er málið keyrt fram. Ef svo fer fram sem horfir á að láta Alþingi greiða atkvæði um fjárlagaliði sem ekki eru til. Fjárlögin sjálf byggja á gildandi lögum og það er farið að keyra hér fram breytingar á fjárlögum á grundvelli laga sem ekki eru fyrir hendi.

Þetta finnst mér dæmi um afar óvönduð, ólýðræðisleg og óþingræðisleg vinnubrögð. Í ljósi orða sem hv. formaður fjárlaganefndar viðhafði, hv. þm. Gunnar Svavarsson, sem ég reyndar tel að vilji breyta hér um vinnulag, er ekki trúverðugt að fyrstu verk hans hér séu að keyra tillögur eins og um breytingar á Stjórnarráðinu í gegnum fjárlaganefnd áður en Alþingi er búið að ákveða það. Það er ekki dæmi um vönduð, lýðræðisleg eða þingræðisleg vinnubrögð. Mér verður svona tíðrætt um þingmenn Samfylkingarinnar af því að við störfuðum saman í stjórnarandstöðu árum saman og áttum samleið í gagnrýni á þau vinnubrögð sem svo birtast hér, gagnrýni á framkvæmdarvaldið fyrir að beita þingið ofbeldi eins og það að fara að keyra hér inn breytingar á fjárlögum sem ekki styðjast við lög.

Þess vegna finnst mér mjög dapurlegt að verða vitni að því að einnig í svona málum skuli vera svo langt á milli orða og athafna hjá þingmönnum Samfylkingarinnar. Það er allt óbreytt hvað varðar starfshætti þingsins, menn keyra á meiri hlutann og láta þingræðið ekki njóta vafans í þeim efnum. Ég kem nánar inn á þetta á eftir, frú forseti.

Það síðasta sem var svo sett inn og líka hefur verið deilt um hér í morgun er fjárveiting til þingsins á grundvelli breyttra starfshátta, vinnulags þingsins o.s.frv., tæpar 100 millj. kr. Enn liggur ekki í sjálfu sér fyrir lagalegur grunnur fyrir þeim breytingum öllum, ekki a.m.k. eins og forseti þingsins hefur lagt það fram. Þessar fjárveitingar eru háðar einhverri hugmynd sem hann hefur keyrt fram og var keyrð fram sem þingskjal í gær. Einnig þarna eru settar fram þessar tæpu 100 millj. á grundvelli áformaðra laga sem ekki eru fyrir hendi.

Ég er ekki að gagnrýna það hvort þessi upphæð fer inn eða ekki, þessar tæpu 100 millj., ég er að benda á að þessi vinnubrögð eru ekki samkvæmt eðlilegum þingsköpum og þingræðislegum reglum og að mínu viti fara þau á svig við lög um fjárreiður ríkisins. Þar stendur að ef upp koma skyndileg atvik eða breytingar á lögum, kjarasamningar eða náttúruhamfarir, fari maður inn í þingið með það í formi fjáraukalaga. Þó að þetta frumvarp um þingsköp yrði samþykkt væri hægt að koma með þá upphæð í gegnum fjáraukalög, það er það sem lögin um fjárreiður ríkisins gera ráð fyrir en ekki að koma með hvert málið á fætur öðru á grundvelli þess að ríkisstjórnin ætli að keyra í gegn lagafrumvarp seinna á þinginu sem staðfesti það.

Þetta eru ekki þingræðisleg vinnubrögð, og aftur verður mér hugsað til margra góðra þingmanna Samfylkingarinnar sem hafa starfað hér saman í stjórnarandstöðu á liðnum árum. Þá voru einmitt þessi vinnubrögð, þessi valdbeitingarvinnubrögð ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarmeirihlutans, gagnrýnd mjög harðlega. Ég minnist þess að þáverandi þingmenn Samfylkingarinnar létu hreint ekki sitt eftir liggja í gagnrýni á hliðstæð vinnubrögð og núverandi þingmenn Samfylkingarinnar leggja núna blessun sína yfir. Það hlýtur að valda miklum vonbrigðum, frú forseti, hvernig Samfylkingin virðist hafa gengið inn í þessa ríkisstjórn, alveg hreint hvað vinnubrögðin varðar eins og ekki hafi einu sinni verið skipt um ver á sænginni áður en Framsókn fór undan.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill spyrja hv. þingmann hvort hann eigi langt eftir af ræðu sinni því að forseti hyggst gera hér matarhlé.)

Já, frú forseti, það er drjúgur kafli eftir af ræðunni þannig að það hentar ágætlega að gera matarhlé ef forseta sýnist svo.