135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:40]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að það séu tæplega tveir tímar síðan ég bað um orðið undir ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar sem fór mikinn í umræðu sinni sem talsmaður minni hlutans í ríkisfjármálum. Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að ég varð fyrir töluvert miklum vonbrigðum með ræðu hv. þingmanns. Ég sat í salnum og hlustaði á ræðuna frá upphafi til enda vegna þess að ég bjóst við að þar kæmi fram einhver sýn, þar kæmu fram einhverjar hugmyndir, einhverjar tillögur um það hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér að gera hlutina öðruvísi en núverandi ríkisstjórn og núverandi stjórnarmeirihluti. En ég varð fyrir miklum vonbrigðum vegna þess að ef ég vissi ekki betur þá hljómaði ræða hv. þingmanns þannig að allt væri bókstaflega að fara fjandans til. Hér væri allt á vonarvöl. Neikvæðnin var slík í ræðu hv. þingmanns að mér brá þar sem ég sat í sæti mínu. Það er ekkert gott, ekki nokkur skapaður hlutur sem þessi ríkisstjórn er að gera.

En ástæðan fyrir því, hæstv. forseti, að ég bað um orðið undir ræðu hv. þingmanns var að mér fannst hv. þingmaður nánast sýna hv. formanni fjárlaganefndar og starfsfólki fjárlaganefndar dónaskap í ummælum sínum og ræðu, það var þess vegna sem ég bað um orðið. Hann talar um breytt vinnubrögð, gagnrýnir það og segir að það tal út í loftið að menn séu að boða breytt vinnubrögð. Má ég minna hv. þingmann á að hv. formaður fjárlaganefndar hefur lagt sig fram um að hafa gott samstarf við minni hlutann í fjárlagavinnunni og teygt sig að ég hygg mun lengra en gert hefur verið á undanförnum árum. Og ég verð að segja það, hæstv. forseti, að mér finnst lágmark að menn þakki það sem vel er gert en gleymi sér ekki í hverri ræðunni á fætur annarri í svartagallsrausinu.