135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:42]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir hefur þá ekki tekið vel eftir í ræðu minni því að ég gat þess einmitt mjög ítarlega og rækilega að ég merkti mjög ákveðinn vilja hjá formanni, varaformanni og öðrum fjárlaganefndarmönnum til að taka upp breytt vinnubrögð, bæði varðandi fjárlagagerðina og eftirlit og eftirfylgni með fjárlögum, og sagðist vonast til að svo yrði. Ég lýsti hins vegar vonbrigðum mínum með að það frumvarp sem við nú erum að fjalla um ber þess ekki merki þó svo að við höfum unnið þetta með þeim hætti sem mögulegt var í nefndinni. Ég skal fyrstur manna viðurkenna það. En aðkoma fjárlaganefndar að frumvarpinu áður en það kom í nefnd var náttúrlega engin og ég vissi að tíminn var allt of skammur til að fjalla um svona stóran málaflokk og ég sagði einmitt að nefndin og starfslið þingsins hefðu sýnt mikinn dugnað hvað það varðaði. Mér finnst hv. þingmaður því ekki alveg sanngjarn í þeim efnum.

Hins vegar er alveg rétt að ég saknaði þess að áherslur og kosningaloforð Samfylkingarinnar í stærstu málaflokkunum væru ekki komin inn í frumvarpið og nefndi hækkun persónuafsláttar hjá eldri borgurum og öryrkjum sem var eitt af stærstu málunum fyrir kosningar. Hv. þingmaður kallar eftir stefnu Vinstri grænna. Eldri borgarar, öryrkjar og ellilífeyrisþegar áttu að njóta forgangs og kjör þeirra eru það fyrsta sem við mundum hafa lagt áherslu á að yrði bætt og lögðum áherslu á fyrir kosningar og gerum enn. Í þeim málaflokki (Forseti hringir.) er stefna Vinstri grænna alveg skýr, eldri borgarar, öryrkjar og börn í forgang.