135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:52]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að ég vildi gjarnan að ég væri í ríkisstjórn og gæti fylgt eftir þeirri stefnu sem ég og flokkur minn stöndum fyrir, ekki síst í byggðamálum. (EMS: Þú hefur engan áhuga á því.) Ég held einmitt að það sem við munum upplifa nú á næstu vikum og mánuðum og höfum upplifað síðustu daga og vikur séu vonbrigði fólksins í hinum dreifðu byggðum með stefnu og aðgerðir eða aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar. Ég tel að staða sveitarfélaganna — voru ekki sveitarfélög á þeim svæðum þar sem afkoman er hvað erfiðust að tala um nýverið að stofna eigin samtök til þess að standa vörð um hagsmuni sína innan geira Sambands sveitarfélaga? Jú.

Ég er alveg viss um, herra forseti, að íbúar, hvort sem þeir búa á Skagaströnd, Ísafirði, Patreksfirði, Vestmannaeyjum eða á Höfn í Hornafirði, (Forseti hringir.) munu verða fyrir vonbrigðum, því miður, því að þeir (Forseti hringir.) þurfa stuðning og ég væri reiðubúinn að veita hann ef ég væri í ríkisstjórn.