135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:56]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi tillöguflutninginn í fjárlaganefnd minni ég nú á á bókanir mínar um mál aldraðra og öryrkja, hjúkrunarheimila og fleiri mál.

Ég vil leggja áherslu á að ekki þarf lagabreytingar til að auka barnabætur eða húsaleigubætur eða til að styrkja kjör aldraðra og öryrkja. Hægt er að gera það í gegnum fjárlögin. Það eru einmitt þessir hópar sem ég legg áherslu á að fái nú raunverulegar kjarabætur og styrkingu á fjárhagslegum grunni. Ég hefði viljað sjá mun fastar tekið á málefnum þessara hópa og til þess þarf engar lagabreytingar.

Hinu vil ég mótmæla að ég hafi talað miður vel um samstarfið í fjárlaganefnd, alls ekki. Ég hef einmitt getið þess að það hafi verið ágætt og innan þess tímaramma sem fjárlaganefnd var skammtaður til að vinna frumvarpið til 2. umr., sem var allt of skammur því að þetta er ekkert smámál. Menn tala eins og fjárlagafrumvarpið sé eitthvert lítið mál sem afgreiða eigi. Því fer fjarri og ég hugsa að mæla megi í allmörgum kílóum, ef menn vilja nota slíkan mælikvarða, það efni og þau gögn sem fjárlaganefnd hefur fengið, safnað eða verið sent vegna fjárlagavinnunnar. Það snertir jú allt samfélagið — velferðarsamfélagið, tekjuöflun ríkissjóðs, rekstur allra stofnana, skóla o.s.frv., þannig að það er ekkert smámál sem við ræðum, herra forseti, (Forseti hringir.) og ber að sýna því fulla virðingu.