135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:01]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að víkja aðeins að þeirri umræðu sem var hér áðan og gera alvarlega athugasemd við þau orð hv. þm. Steinunnar Óskarsdóttur þar sem hún taldi hv. þm. Jón Bjarnason vera talsmann minni hluta fjárlaganefndar. Minni hluti fjárlaganefndar er tvískiptur svo að það sé alveg á hreinu og við framsóknarmenn höfum lagt hér fram, eða ég legg hér fram í mínu nafni og með hjálp margra félaga minna í Framsóknarflokki, sérstakt álit sem ég mun nú gera grein fyrir.

Úr því að ég vík aðeins að þeim orðahnippingum sem hér urðu áðan milli hv. þm. Jóns Bjarnasonar og hv. þingkonu Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur langar mig aðeins að koma inn í þá umræðu. Meðal annars var vikið að því að talsmaður 1. minni hluta fjárlaganefndar sæi ekkert bjart í efnahagsmálum, sæi í rauninni bara svartnætti fram undan, en ég get ekki alveg tekið undir þá túlkun að Hólajarlinn háttvirtur sé svo svartsýnn. Ég hef í rauninni séð svartsýnni útlistanir á efnahagsástandinu á Íslandi og kemur mér þá m.a. í hug þessi rauða bók hér sem vera kann að hv. þm. Jón Bjarnason hafi komist í. Þessi bók er þó ættuð úr húsum Samfylkingarinnar, sett þar saman í anda frjálslyndrar jafnaðarstefnu og komu að því margir þingmenn Samfylkingarinnar á þeim tíma en ritstjóri bókar þessarar er Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra Alþýðuflokksins og mikill hugmyndafræðingur í þeim góða flokki, Samfylkingunni.

Hér eru varnaðarorð og hér er mun svartari mynd dregin upp en stjórnarandstaðan hefur dregið upp í umræðum um fjárlagafrumvarpið. Mun ég víkja betur að þessu í framhaldinu.

Fjárlagafrumvarpið sem hér liggur frammi ber þess mjög vott að í landinu eru nú tvær ríkisstjórnir, ríkisstjórn Samfylkingar og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks. Saman eiga þessar tvær stjórnir afskaplega sterkan meiri hluta á þinginu og því stenst ekkert fyrir því sem þær sameinast um að vilja, en samkomulagið eins og ég sé það nær yfir það eitt að „ég styð allt sem þú stingur upp á og þú styður allt sem ég sting upp á“. Þannig einhvern veginn er andinn í stjórnarsamstarfinu núna og hann er afskaplega háskalegur. Undir slíkum formerkjum mundi ég ekki vilja reka fyrirtæki, að tveir eigendur væru þar að og einhvern veginn í kappi hvor við annan um að eyða og engin samstaða um nauðsynlega ráðdeild.

Nú getur vel verið að einhver hugsi þannig í alvöru að ekki þurfi ráðdeild í ríkisfjármálunum sem stendur. Þeir hafa þá ekki lesið það plagg sem ég minntist á hér fyrr þar sem tekin eru af öll tvímæli um að aðhald í ríkisfjármálum þurfi að vera aðaláherslan í fjármálastjórninni næstu missirin þar sem hagkerfið ber öll merki ofþenslu. Ég leyfi mér hér beina tilvitnun, með leyfi forseta, í þann mæta hagfræðing Jón Sigurðsson, fyrrum iðnaðarráðherra Alþýðuflokks, sem sagði að hagkerfið bæri „enn öll merki ofþenslu sem birtist í verðbólgu, miklum viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun“.

Í sama riti segir einnig, með leyfi forseta, og við skulum athuga að þetta er skrifað síðasta vor:

„Hættan er sú að Ísland missi trúverðugleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, en þá væri voðinn vís með hækkandi vaxtaálagi, gengisfalli og verðbólgugusu.“

Hættan er einmitt sú að svona fari, það er alveg rétt í þessum góða kosningabæklingi Samfylkingarinnar þó að ekki ætli ég að skrifa undir allt sem þar stendur og allra síst lýsinguna á hagstjórninni eins og hún var þá næst á undan. Það er vissulega mikið til í því að hagstjórn síðustu ára, með allri þeirri velgengni sem þá var, kallaði á að næstu skref yrðu stigin mjög varlega. Það er einfaldlega í hagkerfinu eins og í lífinu að það þarf sterk bein til að þola góða daga og ég er hræddur um að risi sá sem núverandi ríkisstjórn er hafi ekki þau sterku bein.

Það er ekki rétt sem hér kom fram í umræðu hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að kenna rangri hagstjórn undanfarandi ára um núverandi vandræði. Það var einfaldlega pólitísk ákvörðun, og hún var rétt, að fara út í þær stóriðjuframkvæmdir sem síðan hafa gerbreytt landakortinu á Íslandi, á Austurlandi, en það var líka vitað að því fylgdi ákveðinn fórnarkostnaður og það var vitað að það með öðru, með annarri velgengni í hagkerfinu, gæti haft töluverð áhrif og það yrði auðvitað að taka tillit til þeirra áhrifa um nokkurt skeið á eftir. Það hefur enginn leyfi til að koma að stjórn þessa lands og ætla að láta sem honum komi fortíðin ekki við og geti farið að láta alla sína drauma rætast, burt séð frá því hvað hagstjórnin kallar á.

Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir minntist hér á að hún saknaði þess að stjórnarandstaðan kæmi ekki með í málflutningi sínum — og vék þá sérstaklega að hv. þm. Jóni Bjarnasyni en ég reikna með að það sama verði um mína ræðu sagt — sérstakar tillögur eða nýjar hugmyndir um það hvað gera megi, að við komum ekki með tillögur um það hverju megi eyða og hvað megi gera. Það er ekki það sem við ætlum að gera á þessum tíma. Nú er einfaldlega aðhalds þörf, eins og stendur í þessum rauða bæklingi og í plöggum þeim sem gefin eru út hér við Kalkofnsveg. Ég get játað að ég sofnaði í gærkvöldi út frá miklu stjórnarandstöðuriti sem gefið er út við þá góðu götu, heitir Peningamál og fjallar um það hvernig eigi að stjórna landinu. Er ekki að sjá mikinn samhljóm með stjórnarflokkunum og því sem hagfræðingar í Seðlabankanum telja rétt.

Það sem við framsóknarmenn gagnrýnum einkanlega við það fjárlagafrumvarp sem hér liggur frammi er að einfaldlega er verið að eyða allt of miklum peningum, það er gengið allt of freklega ofan í kosningaloforðin um að efna hitt og þetta. Stjórnarflokkarnir tveir, sterkir hvor um sig, keppast við að fara með lúkurnar ofan í vasa skattgreiðenda og ofan í ríkissjóð. Það er ekki þannig að einfaldlega vegna þess að svolítill afgangur sé til geti menn leyft sér þetta. (Gripið fram í: Eru þetta ekki kreppufjárlög? Hvernig er það?) Já, það er kallað hér fram í að þetta séu kölluð kreppufjárlög og það er nokkuð til í því. Í fyrri umræðu um fjárlögin sagði hæstv. fjármálaráðherra um fjárlögin sjálf að þau væru hækkun frá síðustu fjárlögum um 48 milljarða. Þessi tala hefur svolítið verið á reiki og í töflu sem ég fékk unna hér í nefndaráliti okkar framsóknarmanna teljum við þetta aðeins lægri tölu, en það er vegna þess að síðan hafa komið fram endurskoðaðar tölur um fjármál þessa árs.

Þar næst segir hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Í ljósi þessara markmiða kann ýmsum að þykja vöxtur útgjalda heldur mikill. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs aukist tímabundið sem hlutfall af vergri landsframleiðslu árin 2007–2009, en fari síðan lækkandi þegar ráðstöfun á söluandvirði Landssímans er lokið og dregur úr mótvægisaðgerðum. Rúmlega 86% af hækkun útgjalda af landsframleiðslu frá árinu 2007 til 2008 má rekja til framkvæmda og mótvægisaðgerða og afganginn að mestu til aukinna tilfærsluútgjalda, meðal annars vegna spár um aukið atvinnuleysi.“

Það er sem sagt verið að gefa á garðann af því að eitthvað gæti gerst á næsta ári. Hvaða hagspeki er þetta? Reyndar geri ég athugasemdir við greiningu af þessu tagi: „Rúmlega 86% af hækkun útgjalda af landsframleiðslu frá árinu 2007 til 2008 má rekja til framkvæmda og mótvægisaðgerða og afganginn …“ — hvaða afgang? Af hverju er tekin fram talan 86% en ekki 100%? Þarna er eiginlega allt saman talið upp og greiningin á milli liða er að þetta sé að mestu leyti í þetta og svo restin í þetta. Það er nú öll hagspekin við stjórnun landsins.

Alvarlegast í þessu er sú hugsun að það megi gefa skart á garðann núna fyrir næsta ár vegna þess að kannski verði atvinnuleysi. Þessi hagstjórnaraðferð er í rauninni — (Gripið fram í: … á Suðurnesjum.) Nú vil ég benda hv. þingmönnum á það sem ég hef áður minnst á hér í ræðupúlti að vilji þeir kalla fram í meðan ég flyt ræður, sem þeim er velkomið, verða þeir að gera það hátt og skýrt því að mér hættir til að heyra ekki annars í þeim, og alltaf hefur mér leiðst þegar fólk talar ofan í bringuna á sér. (JBjarn: … tala saman.)

(Forseti (MS): Forseti biður hv. þingmenn að gefa ræðumanni tóm til að tala.)

Við framsóknarmenn teljum með öðrum orðum að það sé háskalegt að bregðast með þessum hætti við minnkandi þenslu í samfélaginu, minnkandi þenslu sem er í rauninni mjög lítið vitað hvernig stendur. Það er rétt sem hér hefur komið fram í máli fleiri ræðumanna og raunar viðurkennt af fjármálaráðherra líka í ræðu hér fyrr í haust að það er mikil óvissa í íslenska hagkerfinu um hvernig fer. Einmitt vegna hennar er fjárlagafrumvarp eins og það sem hér er lagt fram enn verra.

Ef við skoðum aðeins hagspár fyrir næsta ár er mismunurinn alveg gríðarlega mikill. Fjármálaráðuneytið gerir vissulega ráð fyrir tæplega 3% atvinnuleysi en það gera ekki aðrir. Meira að segja Seðlabankinn, sem hefur verið heldur svartsýnn í öllum sínum spátölum, hefur verið þar með lægri tölu, en enn lægri tölur hafa komið frá aðilum eins og Alþýðusambandinu og bönkunum, frá tæplega 1,5% og upp í 3% hjá Kaupþingi. Það að bregðast við ástandi sem gæti kannski komið með þenslu í hagkerfinu með þessum hætti er mjög alvarlegt vegna þess að það mun aftur hafa keðjuverkandi áhrif í þá átt að skapa einfaldlega þá kreppu sem á að koma í veg fyrir.

Það er ekki bara það, þetta verður fólkinu í landinu líka mjög dýrkeypt. Þau montfjárlög sem hér eru lögð fram kosta venjulega íslenska vísitölufjölskyldu 20 þús. kr. á mánuði í aukin útgjöld og það eru miklir peningar fyrir venjulegt fólk. Húsnæðislán hækka beinlínis á þessu ári um 10–20 þús. kr., afborgunin á mánuði af venjulegri 20 millj. kr. íbúð, og þær hækkanir eru vegna stýrivaxtahækkana Seðlabankans sem verða beint raktar til þess að sú ríkisstjórn sem tók við hér fyrir missiri síðan hefur einfaldlega staðið staffírug á því að taka alls ekki á efnahagsvandanum, taka alls ekki á þeim þensluvanda sem er í samfélaginu. Það er meira að segja þannig að þegar greiningar koma frá aðilum eins og Standard & Poor's sem gaf út nýja spá um lánshæfismat, ekki nýtt lánshæfismat en spá um það, fyrir skemmstu svara ráðherrar ríkisstjórnarinnar fullum hálsi. Þeir eru þar mjög inni í ákveðinni Albaníuhagfræði, Albaníustjórnmálum þar sem þeir senda svarið á þessa alþjóðlegu stofnun sem heitir þessu skrýtna nafni. Jónas Hallgrímsson hefði nú aldrei sagt Standard & Poor's, hann hefði þýtt þetta og sjálfsagt kallað þetta Stöndugir og fátækir. Þessi stofnun fær sem sagt svohljóðandi einkunn frá hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Stundum áttar maður sig hreint ekki á álitum sem koma frá þessum aðilum. Það er sífellt talað um sömu hlutina, alveg sama hverjar aðstæðurnar eru. Það er sama hvort við erum búin að skera framkvæmdir ríkissjóðs niður í 1% af landsframleiðslu eða hvort þær eru 2% af landsframleiðslu. Það eru sömu athugasemdirnar sem koma frá þeim, við aðstæður sem eru allt aðrar. Það hlýtur að segja manni að þeir eru ekkert að skoða aðstæðurnar hérna hjá okkur.“

Þetta er hreint Albaníukomment. Svo að ég útskýri það aðeins ef … (ÁKÓ: Moody's.) Álit Moody's hefur verið með svipuðu lagi en ég kýs að klára hér að útskýra fyrir þingheimi hvað átt er við með Albaníukommenti. Það voru þeir dagar í heimsmálum að Rússar höfðu mjög mikla þörf fyrir að ala á ófriði við Kínverja en gátu þó ekki leyft sér að segja neitt ljótt við Kínverjana sjálfa af því að þeir voru stórir og voldugir. Því sendu þeir skammirnar iðulega á smáríkið Albaníu á Balkanskaga sem var vinaríki Kínverja. Með því að deila hugmyndafræðilega við Albaníu stóðu þeir í raun og veru í blóðugum skömmum við formanninn mikla, Maó Zedong.

Hið nákvæmlega sama er að gerast í íslenskum stjórnmálum. Þegar við fáum alþjóðlega álitsgerð frá Standard & Poor's, Stöndugum og fátækum, úti í heimi rjúka ráðherrar ríkisstjórnarinnar upp og skamma þessa stofnun blóðugum skömmum en þegja þunnu hljóði þegar Seðlabankinn segir það sama. Stríðið í íslenskum stjórnmálum stendur milli ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans og í rauninni er hægt að sækja sér — nú veit ég að sumir hafa undrast að stjórnarandstöðumenn ætli að tala lengi um fjárlagafrumvarp þetta hér í dag en ef við ætluðum bara að gera grein fyrir öllum þeim ávirðingum sem finna má um hagstjórnina í landinu í pappírum Seðlabankans tæki það ekki bara þennan dag heldur alla helgina og jafnvel alla næstu viku. Þar er birt hvert álitið á fætur öðru sem ríkisstjórnin kýs að láta með eins og ekkert sé og ráðherrar beggja flokka svara í hálfkæringi. Kannski væri þetta allt í lagi ef þetta kæmi ekki með beinum hætti niður á fjárhag heimilanna, ef herkostnaður fyrir þetta ósamræmi í hagstjórninni — það eru tveir hagstjórnaraðilar í landinu, Seðlabankinn og ríkisstjórnin. Ef ríkisstjórninni, sem hefur vissulega völd til að fara með efnahagsstjórnina, er alvara með að hunsa algjörlega stjórnun Seðlabankans væri rétt að hún sýndi eitthvert samræmi í verkum sínum og gerði eins og fyrri ríkisstjórn var sökuð um að gera á sínum tíma þegar henni mislíkuðu störf stofnunar. Þarf svo sem ekki að fara út í þá sögu mjög nákvæmlega en á sínum tíma þegar þáverandi forsætisráðherra mislíkuðu störf Þjóðhagsstofnunar var Þjóðhagsstofnun einfaldlega lögð niður og þar með sparað heilmikið fé hjá ríkissjóði. Það er kannski það sem núverandi ríkisstjórn ætti að gera miðað við viðbrögð sín. Eins og staðan er núna er Seðlabankinn með sjálfstætt vald en hann þiggur það frá ríkisstjórninni. Ef ríkisstjórninni er alvara með að taka ekkert mark á þessu og fara í engu eftir ráðgjöf er komin upp mjög háskaleg staða í hagstjórninni og reikningurinn fyrir þá stöðu er stöðugt sendur á heimilin með hærri vaxtabyrði af húsnæðislánunum. Síðan munum við standa frammi fyrir því í beinu framhaldi að afleiðingin af þessu stríði verður hörð og erfið lending hagkerfisins.

Ég ætla ekki að fara út í að greina alveg hvor hefur nákvæmlega rétt fyrir sér í öllum atriðum. Ég hef gagnrýnt ýmislegt í því sem Seðlabankinn hefur verið að gera og raunar talið að hann gangi á köflum of langt í stýrivaxtahækkunum sínum, en engu að síður er honum nokkur vorkunn því að þenslan í hagkerfinu er mikil, yfirspennan er mjög mikil og ríkisvaldið ætlar þar ekkert að hjálpa til.

Það má auðvitað spyrja: Hvernig stendur á því að þetta er svona og við erum búin að sitja dögum saman í fjárlaganefnd og ég hef ekki komið með þessar tillögur þar, ég hef ekki sagt þetta þar? Út frá þeim orðum hv. þm. Guðbjarts Hannessonar hérna áðan um það að við stjórnarandstöðumenn höfum ekki komið með raunhæfar tillögur til þess að breyta þessu er því til að svara að allar meginlínur fjárlaganna eru auðvitað ákveðnar af fjármálaráðuneyti og stjórnarflokkunum. Það er eins og hver annar skrípaleikur að ætla okkur þremur stjórnarandstöðuþingmönnum í fjárlaganefnd að móta einhverja allt aðra stefnu, það er ekki svo einfalt. Það væri ekki til annars en að skemmta meiri hlutanum og í mesta lagi þá að tefja fundina.

Það eru ekki bara framsóknarmenn sem hafa haldið því fram að þessi hástemmdu fjárlög séu háskaleg, það er hægt að vitna til orða eins helsta hagfræðings Samfylkingarinnar, Jóns Sigurðssonar, það er hægt að vitna til orða eins helsta leiðtoga sjálfstæðismanna á okkar tímum, Davíðs Oddssonar, orða hans í fjölda fréttaviðtala og í álitsgerðum Seðlabankans, og það er hægt að vitna til álitsgerða sem koma frá erlendum eftirlitsfyrirtækjum.

Mig langar að víkja aðeins að því nákvæmlega hvaða leiðir eigi að fara út úr vandanum. Við ákváðum það við gerð nefndarálits okkar framsóknarmanna að það væri ekki okkar hlutverk að leggja fram nákvæmar tillögur. Ég held að samt sé alveg ljóst að það er tvennt sem við hefðum þurft að sjá hér á liðnu sumri, og annað var fyrirheit um aðhaldssöm fjárlög. Fyrirheit stjórnvalda skipta mjög miklu máli, ekki bara hvað er gert heldur að peningakerfið í landinu, hagkerfið, hafi einhverja vissu um hvað er að fara að gerast, þar með fyrirheit um ákveðna ábyrgð, stöðugleika, ákveðna tilhneigingu til stöðugleika. Í dag eru fyrirheitin bara um hringlanda og hagstjórn eins og þegar greint er frá því að 86% af einhverju fari í hækkun útgjalda og afgangurinn í eitthvað annað. Það er ekki mjög markviss fjármálastjórn.

Við höfum líka talið, framsóknarmenn, og höfum bent á það í ályktunum okkar að e.t.v. hefði verið lag einmitt á þeim tímum í sumar — það getur vel verið að við séum að komast fram yfir þann tíma núna, ég vil ekki fullyrða um það — að fara út í útgáfu ríkisskuldabréfa og hvetja til sparnaðar með beinum aðgerðum, jafnvel með framlagi á móti íbúðarsparnaði. Eitt af stærstu vandamálum næstu ára er einmitt erfiðleikar ungs fólks við að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Þar þurfa stjórnvöld að koma inn í, geta ósköp vel gert það, hefðu getað hér og geta það kannski enn. Þetta málefni er ekkert auðvelt viðureignar, ég veit að vissir hagfræðilegir hlutir standa líka í veginum en geta engu að síður komið inn í það að stuðla að bæði minna peningamagni í umferð á þeim ofþenslutímum sem enn ríkja og leggja þar pening á móti úr ofurfullum ríkiskassa. Það er í raun ekki nema sanngirnissjónarmið þegar það er þannig að eini skuldlausi aðilinn í þessu landi, sá eini sem virkilega safnar peningum, fyrir utan örfáa auðmenn er sjálfur ríkissjóður sem fyrir nokkrum árum glamraði tómur. Þökk sé farsælli stjórn framsóknarmanna að hann er yfirfullur nú. Það má aftur á móti ekki verða til þess að menn missi sig með þeim hætti sem hér hefur gerst.

Það er annað atriði sem er afar mikilvægt að stjórnvöld geti gripið til ef harðnar á dalnum, ef í raun verður sú kreppa sem fjármálaráðuneytið og ríkisstjórnin spá og sem Seðlabankinn spáir en sem bankarnir spá ekki og sem er ekki alveg í kortunum — ég ætla ekkert að gera algjörlega upp á milli þessara talna, ég get alveg tekið undir að sumt af þeim sólarmerkjum sem haldið er fram í annars súldarlegum pappírum Seðlabankans séu nokkuð sannfærandi — þarf ríkissjóður að geta gripið til aðgerða. Það að leggja núna fram hástemmd fjárlög sem heldur stuðla að þessari kreppu með því að kýla upp vextina gerir það ekki að verkum að hér verði nokkurt borð fyrir báru hjá ríkissjóði til að gera slíkt. Eða ætlar hann bæði að spýta peningum inn í gegnum framkvæmdir og svo í gegnum t.d. skattaívilnanir í tengslum við kjarasamninga? Þá er ofmetnaðurinn orðinn mikill og þá spái ég því að sú stjórn sem nú situr verði fljótari en nokkurn gat grunað að klára hér upp allt það sem safnað var í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Vinur minn, hv. þm. Gunnar Svavarsson og formaður fjárlaganefndar, vék aðeins að verkaskiptingu Stjórnarráðsins með þeim orðum — þó að ég muni þau ekki alveg orðrétt — að þar léki mikill vafi á hvort kæmi á undan, hænan eða eggið. Nú veit ég ekki (GMJ: Nokkuð ljóst í sveitum.) hvort hv. formanni fjárlaganefndar er kunnugt um hversu vafasamt það er talið að vitna í hænsnabú í stjórnmálaræðum. Þetta gerði góður Árnesingur, Kristinn Bjarnason frá Þorkelsgerði, afar greindur og snjall maður sem bjó lengi í Hveragerði, var bóndi þar, og tók það dæmi á stjórnmálafundi af Ólafi heitnum Thors að það yrði að reka hvert bú eins og hænsnabúið hjá honum og aldrei mætti þar taka meira út en sett væri inn því að þá færi allt í óefni. Kristinn bjó við það alla ævi eftir þessa ræðu að vera kallaður Kristinn þjóðarhæna og löngu seinna þegar gert var merki sveitarfélagsins var meira að segja þessi sami fugl settur í merkið og er þar enn þá.

Því segi ég þetta að þessi líking er að mörgu leyti umhugsunarverð, að tala um hænsnabú í þessu sambandi, því að nú gildir, eins og í tíð Kristins, að hænsnasamlíkingin er hárrétt. Yfirleitt er gert grín að mönnum fyrir það sem er hárrétt. Það gildir nefnilega í búskap og í rekstri ríkissjóðs að það að gefa um of á garðann, það að offylla búpeninginn, er háskalegt. Það að ausa út á báðar hendur og láta eins og fyrningar séu einskis virði, það að falla í þá freistni að ofala, er afleit hagfræði.

Í frumvarpi því sem hér liggur frammi er gert ráð fyrir að gjöld ríkissjóðs hækki um 41 milljarð frá því sem var á síðasta ári samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum á þeim tíma. Það er reynsla fyrir því að þá á eftir að taka inn u.þ.b. 20 milljarða í viðbót vegna þess sem bætist við milli fjárlagafrumvarps og ríkisreiknings. Þá er aukningin um 60 milljarðar. Á síðasta ári var vissulega farið freklega fram og kannski allt of mikið en þá var aukningin þó ekki nema 50 milljarðar á kosningaári sem allir vita og er ekkert einsdæmi við eitt stjórnarmynstur fremur en annað að eru dýr ár.

Árin þar á undan varð raunveruleg krónutöluaukning milli ára — við erum ekki að tala um raunaukningu, það þyrfti að reikna það upp — á bilinu 15–20 og svo upp í 30 milljarða árið 2006. Hún er núna 60 milljarðar, núna milli ára stefnir í 60 milljarða á fyrsta ári þessa kjörtímabils án þess að nokkuð kalli á það og þrátt fyrir fyrirheit beggja stjórnarflokkanna um það — þau fyrirheit voru vissulega ekki bara hjá Samfylkingu fyrir kosningar sem betur fer, þau voru líka hjá Sjálfstæðisflokki — að nú þyrfti að gæta aðhalds í ríkisrekstri. Ekki veit ég hvernig það verður þegar ekki þarf að gæta aðhalds fyrst aðhaldsárin kosta okkur 60 milljarða aukningu í umsvifum.

Vissulega eru kaflar í þessari aukningu óhjákvæmilegir og lúta sérstaklega að framlögum til byggðarlaga þar sem skerðing á þorskkvóta hefur komið mjög illa niður. Við framsóknarmenn höfum þar lagt fram okkar tillögur um hvernig við teljum að eigi að bregðast við. Það skal fúslega viðurkennt að þær tillögur kosta nokkrum milljörðum meira en þær tillögur sem ríkisstjórnin lagði fram, en það munar þó ekki nema um 2–3 milljörðum. Það sem vekur furðu við tillögu ríkisstjórnarinnar er öll sú froða sem í henni er. Fyrir utan að öll útgjöld allra venjulegra málaflokka eru hækkuð verulega og mótvægisaðgerðir koma þar ekki inn í — mótvægisaðgerðir vegna þorskveiðiskerðingar eru eins og lítill dropi í því hafi öllu — vekja mesta furðu hugmyndir um tvöföldun fjár til vegamála í landinu.

Í viðbótartillögum fjármálaráðuneytisins sem komu fram núna milli 1. og 2. umr. var reyndar strax farið aðeins að renna af mönnum mesti móðurinn því að það var búið að skera þessa aukningu úr 20 milljörðum niður í um 18 milljarða, einfaldlega vegna þess að það voru einkum verkefni sem þegar var sjáanlegt að væri útilokað að framkvæma á þessu tímabili. Það er í raun og veru útilokað í okkar hagkerfi við þá þenslu sem hér ríkir að framkvæma þau reiðinnar býsn sem hér er lofað. Þegar talað er um þetta sem byggðaaðgerðir — það er vissulega mikið hagsmunamál að bæta samgöngur úti um landið og margar þessara aðgerða eru á landsbyggðinni en það er ekki hagsmunamál fyrir byggðirnar í landinu að fá falsloforð á borðið. Það eru ekki hagsmunir neinna að láta skrökva að sér, en þarna er að stórum hluta um að ræða froðu sem aldrei verður hægt að standa við á svo skömmum tíma. Það hefur ekki verið sýnt fram á að þau verkefni séu til sem eru komin það langt í gegnum matsferli, umhverfismat og skipulagsmál, að það sé hægt að framkvæma fyrir þessa upphæð af þeirri ástæðu einni. Þess utan ef þetta ætti að fara í framkvæmd þyrfti að kalla hér inn erlenda verktaka, ef það tækist með afbrigðum að ná skipulagsmálunum í gegn en við sem fylgst höfum með á undanförnum árum vitum að það tekur alltaf lengri og lengri tíma og kæruviljinn gagnvart vegaframkvæmdum, jafnvel hinum ómerkilegustu, er alltaf meiri og meiri. Núna síðast voru menn meira að segja kærðir fyrir að vilja setja upp ljósastaura af því að þá muni einhver annar ekki sjá stjörnurnar fyrir ljósinu, svona er nú vitleysan orðin mikil.

Mig langar til að gera aðeins betri grein fyrir þeim mikla mun sem er í hagspám sem ég vék að hérna fyrr og hvaða þýðingu það hefur fyrir þá sem fara með fjárveitingavaldið í landinu. Það er hrópandi ósamræmi milli spástofnana. Ég er ekki sá fræðimaður að geta úrskurðað hver hafi nákvæmlega rétt fyrir sér og ég heyri alveg á þeim fræðimönnum sem ég hef talað við að þeir eru fæstir tilbúnir til þess heldur. Það er einfaldlega mikil óvissa í þessu en munurinn þarna á, hvort einkaneyslan er að dragast saman um upp undir 2% eins og Seðlabankinn gerir ráð fyrir eða hvort hún er að vaxa um 2%, er himinn og haf. Hið sama er að segja um hagvöxtinn, þjóðarútgjöldin, fjármunamyndunina og samneysluna, allt þetta skiptir mjög miklu máli og þess vegna er lykilatriði að við stjórnum landinu með það í huga að þetta geti farið á hvorn veginn sem er.

Það erum við ekki að gera með þessum fjárlögum sem gera ráð fyrir því að afgangurinn af framkvæmdunum sem enginn skilgreinir hvað er mikill sé vegna spár um aukið atvinnuleysi. Það eru engar samhljóða spár um aukið atvinnuleysi. Bæði fjármálaráðuneytið og Seðlabanki spá vissulega talsvert auknu atvinnuleysi en það gera ekki aðrir, ekki einu sinni Alþýðusambandið sem þó hefur það hlutverk öðru fremur að gæta að hagsmunum launafólks. Þar á bæ gera menn sér vel grein fyrir því að hagsmunum launafólks er ekki best borgið með því að ausa peningum út úr ríkissjóði við þessar aðstæður. Það er ekki það sem við þurfum á að halda. Það er auðvelt að vera við stjórnvölinn með því fororði að menn megi bara gefa á garðann hvar sem þeim sýnist og megi veita hvaða fjárveitingar sem er til hvers sem maður vill.

Þegar haft er í huga að með því móti eru menn að gera heimilunum í landinu, atvinnulífinu og hagkerfinu öllu stóran ógreiða, með því að stuðla hér að ójafnvægi, ættu menn að hugsa sig tvisvar um. Það er vissulega enn tími, herra forseti, bæði fyrir hv. formann fjárlaganefndar, sem ég veit að hlustar á ræðu mína af sjónvarpsskjá, hann lofaði mér því persónulega, og hv. varaformann fjárlaganefndar til að sjá að sér milli 2. og 3. umr. ef það er svo, sem við skulum vona, að þeir hafi nokkur völd um meginlínur fjárlagafrumvarpsins. Það er óskandi að svo sé því að báðir eru mætir menn og ég treysti þeim til að skilja alvöru þessa máls ef þeir fá nógu langan tíma. Það er mikið alvörumál að koma með fjárlagafrumvarp sem veldur því kannski að hagkerfið kemur hér hart niður.

Hvað þýðir það þegar Seðlabanki, hagfræðingar jafnt stéttarsamtaka sem atvinnulífs og fleiri tala um harða lendingu? Okkur sem ekki erum flughrædd er nokkurn veginn alveg sama hvort lending er hörð eða mjúk ef við lendum á flugvelli og komumst út úr vélinni. Meðan hjólin ekki brotna er þetta yfirleitt allt í lagi. Hörð lending í hagkerfinu mun hins vegar þýða mikinn sársauka margra fjölskyldna, hún mun þýða gjaldþrot margra einstaklinga. Við erum raunar þegar farin að sjá töluverða erfiðleika í hagkerfi okkar sem ríkisstjórnin hefur ekki gert neitt í nema hella olíu á eldinn með því að spenna upp vaxtastigið. Ríkisstjórnin hefur ekki hjálpað því fólki sem hefur að undanförnu verið í vandræðum með að borga af húsnæðislánunum sínum. Það fjárlagafrumvarp sem við erum að ræða í dag er bara til að auka á vandræðin. Þess vegna skora ég á formann og varaformann fjárlaganefndar og aðra fjárlaganefndarmenn í meiri hluta að endurskoða markmið fjárlaganna og endurskoða þær meginlínur sem þar liggja. Þeir geta þar lesið sér til um stefnuna, m.a. í ágætu riti Samfylkingarinnar frá síðasta vori, í ágætum ritum Seðlabankans og raunar á fleiri stöðum.

Af því að ég vék aðeins að því að menn hefðu nógan tíma til að átta sig á þessum grundvallaratriðum — eins og þingheimur veit er ég nýliði á þessum vinnustað og mér var sagt að það væri frekar létt verk að vera í stjórnarandstöðu miðað við að vera í stjórnarmeirihluta, vinnustundirnar væru til muna færri og ég trúi að það sé rétt. Engu að síður hefur vinnuálagið við fjárlaganefndarvinnuna verið mjög mikið og sannast sagna verið þannig að tíminn til þess að setja sig inn í hina raunverulegu hagfræði bak við þetta hefur verið grátlega lítill. Tími minn á þessu hausti hefur farið í ýmislegt sem við höfum unnið að í miklu bróðerni í fjárlaganefndinni. — Nú sé ég að hlátur setur að varaformanni fjárlaganefndar, sjálfsagt vegna þeirrar nafngiftar sem þau verkefni fá stundum hjá okkur þar þegar kominn er svefngalsi í okkur, en þetta eru þau verkefni sem lúta að öllum þeim smáverkefnum sem fjárlaganefnd fær inn á sitt borð og þar hef ég notið þess að fullrar sanngirni er gætt milli minni hluta og meiri hluta. Fyrir það ber að þakka.

Það eru þó ekki þau meginatriði sem skipta máli. Ég tel aftur á móti að þau atriði sem þar eru og sem við höfum unnið að eins og ég segi í bróðerni skipti mörg hver mjög miklu máli upp á byggðaþróun í landinu. Öll þessi litlu styrktarverkefni sem við vinnum að í fjárlaganefnd og telja samanlagt eitthvað um 1 milljarð kr., sem er ansi lítill hluti af heildarútgjöldum fjárlaga, eitthvað um fjórðungur úr prósenti, skipta miklu máli varðandi sérstaklega stöðu hinna minnstu og fámennustu byggða. Það getur vissulega breytt miklu að fá að koma að starfi eins og þessu. Ég veit að ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur mikinn metnað til þess. Það má alls ekki skilja orð mín svo að ég sé að hæðast að neinu. Ég hef sannfæringu fyrir því að ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur metnað í störfum sínum til að láta gott af sér leiða og hefur m.a. metnað til að koma til móts við þá erfiðleika sem víða eru í byggðum landsins út af niðurskurði þorskveiðiheimilda og út af þeirri öfugþróun sem hefur verið í byggðamálum.

Ég held að það sé hægt að bregðast við þessum aðstæðum með tiltölulega miklu minni peningum og meiri árangri en gert er í dag. Það er stór og hröð innspýting í samgöngumálum sem er bara loforð á pappírum, sem er ekki loforð sem nokkurn tíma verður staðið við, en loforð engu að síður sem hefur áhrif í hagkerfinu vegna þess að hagkerfið telur heildarvöxt ríkisútgjalda. Hann er mældur út frá fjárlögunum og síðan verður stórum hluta af þessum fjárveitingum frestað og þar með verða þær ekki til gagns fyrir byggðirnar. Ef þetta verður raunveruleiki, ef svo ólíklega vildi til að stór hluti af þessu færi í gang, verða framkvæmdirnar unnar af erlendum verktakafyrirtækjum eða verktakafyrirtækjum á suðvesturhorninu og munu alls ekki koma að sama gagni eins og ef unnið væri að samgöngubótum í meira jafnvægi og án þess að það væru svona gassalegar innspýtingar.

Ég sagði áðan að ég tryði að ríkisstjórnin hefði metnað til góðra verka en það breytir þó ekki þeirri sannfæringu minni að innan ríkisstjórnarinnar er mjög lítil samstaða um hagstjórnina, mjög lítil samstaða um það hvernig eigi að bregðast við. Það er vissulega víðar en innan ríkisstjórnar sem ríkir samstöðuleysi, það er líka mjög lítil samstaða í samfélaginu um það hvað er að gerast. Ég vék áðan að greiningum um það hvað muni gerast á næsta ári. Tilfellið er að greining hagfræðinga á ástandinu eins og það er í dag er ekki einu sinni samhljóma. Það er mjög alvarlegur hlutur og kallar á ákveðnar aðgerðir en það kallar líka á að ráðstafanir ríkisvaldsins séu með þeim hætti að þær geti mætt hvoru sem er. Ég útiloka ekki að spá ríkisstjórnarinnar og fjármálaráðuneytisins sé rétt en það verður líka að taka hitt með í reikninginn að það getur verið, eins og Landsbankinn hefur spáð og kannski verið með einna bjartsýnustu spána af öllum greiningaraðilum, að hér verði áfram gegndarlaus þensla á næsta ári. Hvar stöndum við þá með fjárlagafrumvarp sem þetta?

Þá kunna menn að segja: Hvað gerir þetta þá til ef áfram verður þensla? Hvað gerir þá til að eyða öllum þessum peningum? En þetta er ekki svo einfalt. Ef þessi hástemmdu fjárlög koma ofan á mikla þenslu þýðir það að stjórnleysið í efnahagsmálum getur orðið svo að segja algert. Að öllu óbreyttu eru fjögur ár til næstu kosninga og það ættu ráðherrar ríkisstjórnarinnar — það þýðir ekki fyrir mig að ávarpa þá hér í fleirtölu en ég þakka þeim sem þó situr í þingsalnum með okkur fyrir að vera hér, hæstv. samgönguráðherra Kristjáni L. Möller en það er vissulega athyglisvert hve fáir ráðherrar sitja þessa umræðu um fjárlagafrumvarpið. Það hvarflar að manni í þessu mikla samstöðuleysi innan ríkisstjórnarinnar að það er eins og að ekki sé gert ráð fyrir að þessi stjórn lifi nema eitt, tvö, þrjú ár, þrjú ár í mesta lagi, og þar af leiðandi megi allt vera komið í kaldakol undir lok kjörtímabilsins. Auðvitað mun það fresta skipbrotinu, það mun fresta hinni hörðu lendingu, ef hér verður áfram mjög mikil eftirspurn eftir fólki. Það þarf ekki mikið að gerast í okkar mikla hagkerfi sem er orðið mjög opið fyrir því sem er að gerast á alþjóðamarkaði. Nú er rætt um að álver á suðvesturhorninu hafi kannski að miklu leyti verið slegið út af borðinu og við erum margir sem fögnum því og margt gott við það. Það þarf svo sem ekkert að þakka það ríkisstjórninni sérstaklega, heldur er það skeleggri forustu framsóknarmanna í stjórn Landsvirkjunar mest að þakka.

Ef áform ganga eftir um netþjónabú þarf ekkert mjög mörg þeirra í uppbyggingu til að hafa hagkerfið áfram á mjög hraðri siglingu. Ef ríkisvaldið ætlar að keppast við einkaframtakið í þenslunni kemur auðvitað að brotlendingu og hún verður því miður því verri sem hagstjórnin er verri. Því endurtek ég þau orð mín að ég skora á meiri hluta fjárlaganefndar að endurskoða þau markmið sem eru í fjárlagafrumvarpinu og breytingartillögunum eins og þær liggja frammi núna.