135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

.

1. mál
[15:53]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að biðja hv. þm. Bjarna Harðarson afsökunar á því að ég skyldi í andsvari mínu við hv. þm. Jón Bjarnason kalla hann talsmann stjórnarandstöðunnar allrar í ríkisfjármálum. Ég skil mjög vel að hv. þm. Bjarni Harðarson vilji ekki gangast við því að hv. þm. Jón Bjarnason sé talsmaður Framsóknarflokksins í ríkisfjármálum, enda var nokkuð annar tónn í ræðu hv. þm. Bjarna Harðarsonar en í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar í umræðu um fjárlagafrumvarpið. Ég verð að segja eins og er, án þess að ég ætli að gefa hv. þingmönnum einkunnir fyrir ræður sínar, að ræða hv. þm. Bjarna Harðarsonar var að mínu viti mun málefnalegri og innihaldsríkari en ræða hv. þm. Jóns Bjarnasonar, talsmanns Vinstri grænna í ríkisfjármálum, og ég vil þakka fyrir það. Ég var ekki efnislega sammála því sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni en þar gætti þó viðleitni til að ræða málefnalega um hlutina.

Munurinn á málflutningi þessara tveggja flokka er sá að Vinstri grænir vilji gera allt fyrir alla þó að þeir hafi engar tillögur þar að lútandi en málflutningur fulltrúa Framsóknarflokksins lýtur að aðhaldi og sparnaði. Það vakti því athygli mína að hv. þingmaður gerði ekki grein fyrir neinum aðhaldstillögum og taldi raunar, og það kom mér á óvart, að það væri ekki hlutverk stjórnarandstöðunnar að setja fram tillögur um aðhald í fjárlagafrumvarpinu. Ég verð að segja að það vakti athygli mína að hv. þingmaður skyldi ekki líta á það sem hlutverk sitt að leggja fram tillögur við gerð fjárlagafrumvarpsins.