135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

.

1. mál
[15:55]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka góða palladóma. En það er ekki alls kostar rétt að hér vanti tillögur. Í nefndaráliti því sem ég gerði grein fyrir, en las ekki orð fyrir orð, er á það bent, og ég benti reyndar margoft á það í ræðu minni, að framlög til samgöngumála eru mun hærri en raunhæft er. Ef lögð yrði fram raunhæf tillaga, sem væri í takt við það sem getur gengið eftir, væri hægt að rétta myndina af. Þess utan er almenn hækkun liða nú meiri milli ára á öðrum sviðum en var almennt á þeim 12 árum sem framsóknarmenn höfðu hönd í bagga, þegar þeir leiddu hinn stóra Sjálfstæðisflokk í ríkisfjármálunum gegnum forustu sína í fjárlaganefnd. Hvernig nákvæmlega eigi að ná þeim árangri, hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, verð ég að vísa til fjárlagatillagnanna sjálfra. Gagnlegt væri að skoða mismun milli ára undanfarin 12 ár undir forustu hv. þingmanna Birkis Jóns Jónssonar og Magnúsar Stefánssonar sem nú situr í forsetastóli.

Það er mikil list að halda aftur af útgjaldaþenslu á ríkissviðinu og það verður ekki útskýrt í fáum orðum. Það byggist á þeirri grundvallarreglu að nurla með hverja krónu. Ég varð ekki var við að í fjárlaganefndarstarfinu væri beinlínis það andrúmsloft nurlsins sem ég hefði viljað sjá.