135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

.

1. mál
[15:58]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni fyrir þetta innlegg. Það vakti athygli mína að hann talaði um að áætlanir í samgöngumálum væru ekki raunhæfar. Ég held hann hafi tekið vega- og samgöngumálin sérstaklega út.

Herra forseti. Ef þingmaðurinn er þeirrar skoðunar að það sem sett er fram í samgöngu- og vegáætlun sé ekki raunhæft ætti honum að vera í lófa lagið að flytja breytingartillögur um einfaldan niðurskurð í þessum málaflokki. Hv. þingmaður kýs ekki að gera það. Hann kemur ekki með útfærðar niðurskurðartillögur í samgöngumálum heldur notar það almenna orðalag að hann hafi efasemdir um að áætlanirnar séu raunhæfar. Það er það sem ég gagnrýni, að menn komi þá ekki með beinharðar breytingartillögur til lækkunar á fjárlagafrumvarpinu.