135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:00]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni fyrir framsögu hans fyrir hönd Framsóknarflokksins við 2. umr. fjárlaga. Hún var á margan hátt skemmtileg áheyrnar, fróðleg á að hlýða og dæmigerð stjórnarandstöðuræða. Þar hleypur Bjarni fram með miklar viðvaranir um of mikla eyðslu, talar um að gassalega sé gefið á garðann, þetta séu montfjárlög og líklega verði allt í klessu á næsta ári eða kalda koli. Hann talar um að ráðherrar stundi Albaníustjórnmál o.s.frv.

Jafnframt kom fram hjá honum að ríkiskassinn væri yfirfullur og það megi þakka Framsóknarflokknum og það að hætt sé við stjóriðjuframkvæmdir sé Framsóknarflokknum að þakka. Allt sem hv. þm. leggur upp með er framsóknarmönnum að þakka og ekki ætla ég að lasta þátt þeirra í góðri stöðu þjóðarbúsins. Það ber að þakka en mér finnst fulllangt seilst að þakka einum flokki í landstjórninni allan þann árangur sem hefur náðst í efnahagsmálum og almennri velferð í samfélaginu á síðustu árum.

Þegar hv. þingmaður segir að hér sé allt of mikil eyðsla á ferðinni þá má alveg deila um það. Við þurfum að fást við margvísleg verkefni, allt frá því að tala um húsafriðun upp í það að eltast við framlög til einstakra dýrategunda, svo sem Þingvallaurriðans. Við reynum að verða við sanngjörnum óskum af fúsum og frjálsum vilja og reynum að styrkja það góða starf sem unnið er víða um land.

Ég skora á hv. þingmann að standa með okkur í því sem ég veit að hann gerir. Ég veit jafnframt að hann á í erfiðleikum með að benda á tiltekin verkefni sem við ættum að skera niður því að flest eru þau þjóðþrifamál.