135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:06]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég sakna þess að hér eru ekki fréttamenn í salnum núna. Hér hafa komið fram mikil tíðindi. Háttvirtur 1. þm. Norðaust., sem nýtur mikillar virðingar innan Sjálfstæðisflokksins, hefur tilkynnt þingheimi að Davíð Oddsson sé hættur í pólitík. Það vissi ég ekki áður og held að enginn hafi vitað það.

En varðandi fjárlögin og glóruleysi þeirra þá eru þau vissulega glórulaus. Það þýðir ekki að hér verði allt í klessu. Það getur bjargast betur. En frumvarpið er algerlega glórulaust miðað við þá áhættu sem það felur í sér og miðað við varnaðarorð hagfræðinga að gefa út fjárlög eins og þessi. Þar eru ýmis svið þar sem mætti staldra við. Ég vil aðeins nefna tvö og þau snerta bæði vinnustað okkar sem erum hér inni og þeirra sem ættu vera hér, þ.e. Stjórnarráðið og Alþingi. Þar mætti hinkra við á báðum sviðum og bíða með útgjöldin um sinn, bæði varðandi þingskapabreytingarnar og stjórnarráðsbreytingarnar. (Forseti hringir.) Við vitum það að stjórnarráðsbreytingarnar eiga eftir að kosta meira en boðað er eins og ævinlega við kerfisbreytingar sem slíkar.