135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:11]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég spyr: Hvar var haninn í þessari umræðu allri? Hins vegar hjó ég eftir því í ræðu hv. þm. Bjarna Harðarsonar að hann talaði um að tekjuspáin væri vanáætluð, þar væru um 20 milljarðar aukalega og ég verð þá bara að fylgjast með því þegar líður á árið hvort Bjarni mun reynast sannspár. Það skyldi þó aldrei vera að hann sé spáglaðari en efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins.

Ég vil víkja örlítið að nefndaráliti hv. þingmanns, með leyfi forseta. Hann segir:

„Ef þenslan verður áfram mikil, þarf að fara í aðgerðir til að draga úr peningamagni í umferð með sparnaðarhvetjandi aðgerðum …“

En síðan minnist hann að sama skapi á tillögur Framsóknarflokksins á bls. 15 í nefndarálitinu sem sýna á þriggja ára tímabili á sjöunda milljarðs kr. útgjaldaaukningu. Ég spyr þingmanninn: Hvernig fer þetta saman, það sem stendur á fyrstu síðu og hinni síðustu?