135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:32]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir hluta álits meiri hluta fjárlaganefndar. Eins og kom fram í máli hv. formanns við upphaf þessarar umræðu kemur í minn hlut að gera ítarlega grein fyrir nefndaráliti meiri hluta um breytingartillögur hans á frumvarpinu. Það eru liðnar u.þ.b. sex klukkustundir frá því að þessi umræða hófst og miðað við umræður á þingfundi í gærkvöldi hefði maður haldið að þessi atriði málsins hefðu átt að koma örlítið fyrr inn í umræðuna, en félagar mínir í fjárlaganefnd sem hafa talað fyrr á þessum fundi hafa haft mikið og margt til málanna að leggja, og hefur raunar verið afskaplega ánægjulegt að hlýða á þá leggja inn sín mál hér.

Ég vil við þessa umræðu fyrst af öllu nefna tvö meginatriði sem hafa ber í huga við fjárlagagerð ríkissjóðs. Í fyrsta lagi er verið að ákveða tekjur hins sameiginlega sjóðs landsmanna og það gerir hið háa Alþingi með þeim hætti að ákveða hvaða skattar allir íbúar og lögaðilar landsins skulu greiða í hinn sameiginlega sjóð. Í öðru lagi er verið að ráðstafa þessum sömu fjárhæðum til ýmissa verkefna, stórra og smárra, til þess að stuðla að viðgangi samfélagsins og það gerum við best að mínu áliti með því að standa vörð um þjóðararfinn og sækja fram á sem flestum sviðum. Eðli máls samkvæmt eru skiptar skoðanir um þessi atriði tvö sem ég hef nefnt og í grunninn snúa stjórnmálin um mismunandi áherslur einstaklinga varðandi það hversu mikill hlutur ríkisvaldsins skuli vera á þessum tveimur sviðum og í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það. Því geri ég þetta að umtalsefni við fjárlagagerð ríkisins að Alþingi Íslendinga setur fram með ákvörðunum sínum í fjárlögum hvers árs áherslur sínar í þeim efnum hvernig við viljum byggja þetta land og sjá það vaxa og dafna í samfélagi þjóðanna.

Vegna smæðar okkar verðum við öðrum þjóðum fremur að byggja vonir okkar um vöxt samfélagsins á því að búsetuskilyrði séu góð og að við getum notið hæfileika og þekkingar íbúanna til að nýta þær auðlindir sem landið býr yfir með sem arðbærustum hætti hverju sinni. Búseta í landinu byggir á því að við nýtum gæði landsins alls, og líkt og sérhver einstaklingur skiptir máli í hverri fjölskyldu er sérhvert byggðarlag í landinu líkt og einn lítill hlekkur í þeirri keðju sem hægt er að kalla búsetu á Íslandi. Ef við viljum styrkja og efla fjölskylduna verðum við að rækta fjölskylduböndin og með sama hætti verðum við að leitast við að skjóta sem styrkustum stoðum undir byggðina í landinu. Að öðrum kosti kippum við stoðum undan eigin styrk og veikjum keðjuna.

Ég álít fjárlagafrumvarp næsta árs ásamt þeim breytingartillögum sem hér eru lagðar fram við 2. umr. undirstrika þann vilja stjórnarmeirihlutans að styrkja búsetu í landinu. Þar er að finna margvísleg og metnaðarfull áform um að styrkja samkeppnishæfni Íslands gagnvart öðrum löndum.

Hæstv. forseti. Í umræðum í gærkvöldi kom fram, eins og ég gat um áðan, hjá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að þeim þætti knappur sá fyrirvari sem þeir hefðu til að kynna sér breytingartillögur fjárlaganefndar við 2. umr. um fjárlög næsta árs. Á margan hátt má taka undir þau sjónarmið og vissulega væri oft æskilegt við meðferð mála að hafa rýmri tíma til undirbúnings og ákvarðana. Meðal annars til að mæta þessum athugasemdum var því heitið af fulltrúum stjórnarmeirihlutans í umræðunum í gærkvöldi að á þeim þingfundi sem nú er hafinn yrði ítarleg grein gerð fyrir þeim tillögum sem fjárlaganefndin leggur til. Kemur það í hlut þess sem hér talar og stendur og hefst þá lesturinn úr þskj. 338. Þar er að finna skýringar við einstakar breytingartillögur sem stjórnarmeirihlutinn í fjárlaganefnd leggur fram.

Undir æðstu stjórn ríkisins er lögð til 32 millj. kr. hækkun á almennan rekstur sem í meginatriðum skiptist í þrjá þætti, í fyrsta lagi til lagfæringar á launagrunni á skrifstofu Alþingis, svo til að bæta starfsaðstöðu þingmanna og loks er tímabundin fjárhæð til að vinna að viðhaldi og endurbótum á húsinu Skjaldbreið. 16 millj. kr. hækkun er gerð til leiðréttingar á launagrunni umboðsmanns Alþingis. Sömuleiðis eru fjárveitingar til Ríkisendurskoðunar, alls að upphæð um 40 millj. kr. Bróðurparturinn af því fer til nýrra verkefna á sviði fjárhagsendurskoðunar þar sem ný eftirlitsverkefni hafa verið sett inn til stofnunarinnar og henni falið að annast þau og í öðru lagi er gerð tillaga um 9,5 millj. kr. framlag til að auka vinnuframlag við stjórnsýsluendurskoðun hjá Ríkisendurskoðun. Loks vil ég nefna 11,5 millj. til endurbóta á húsnæði stofnunarinnar.

Undir forsætisráðuneytinu eru færðar ýmsar tillögur. Fyrst vil ég nefna varðandi þann þátt að gerð er hagræðingarkrafa upp á 1,5% á aðalskrifstofu forsætisráðuneytisins. Sömuleiðis er slík krafa gerð á allar aðalskrifstofur ráðuneyta Stjórnarráðsins. Áætlað er í tillögu meiri hlutans að sú hagræðingarkrafa skili 74,5 millj. kr. til lækkunar útgjalda.

Undir forsætisráðuneytinu eru færðar 30 millj. til ráðgjafar vegna fyrirhugaðra breytinga á heilbrigðis- og tryggingamálum. Það eru færðar rétt tæpar 200 millj. kr. til fasteigna Stjórnarráðsins vegna endurbóta á byggingum þess sem tengist kostnaði vegna breytinga á húsnæði ráðuneyta við sameiningu ráðuneyta og tilfærslu verkefna. Heildarkostnaðurinn við þetta verkefni er áætlaður 235 millj. kr. og skiptist með þeim hætti að 195 millj. falla til á árinu 2008 og 40 millj. árið 2007, og kemur þá inn í fjáraukann. Jafnframt er lagt til 15 millj. tímabundið framlag til að hefja undirbúning að nýbyggingu á lóð forsætisráðuneytisins á Stjórnarráðsreitnum.

Í tillögu meiri hluta er gert ráð fyrir að fjárheimildir menntamálaráðuneytisins hækki frá frumvarpinu um rúma 1,5 milljarða. Þar eru inni ótal tillögur og ég vil byrja fyrst á tillögu undir Háskóla Íslands sem er í rauninni fyrsta tillagan sem beinlínis er tengd byggðamálum og tengist því sem menn hafa nefnt hér mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Það eru 35,5 millj. til hækkunar á liðnum Háskóli Íslands vegna þriggja verkefna, í fyrsta lagi 20 millj. kr. tímabundið framlag til háskólasetursins í Vestmannaeyjum vegna hafrannsókna og í öðru lagi eru 14 millj. veittar til að styrkja háskóla- og frumkvöðlasetrið á Hornafirði, m.a. með ráðningu tveggja nýrra starfsmanna til setursins með áherslu og styrkingu á starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs. Jafnframt er í fjáraukalagafrumvarpinu gert ráð fyrir 4 millj. kr. framlagi í sama verkefni. Loks er veitt 1,4 millj. kr. til Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands vegna fjarkennslu í meistaranámi.

Undir liðnum um Háskólann á Akureyri er lagt til 75 millj. kr. framlag til styrktar núverandi stöðu og styrkingar á rekstrargrunni Háskólans á Akureyri sem allir hljóta að geta fagnað í ljósi þeirrar styrkingar sem sú stofnun hefur gefið út um landsbyggð vítt í formi þess að það fólk sem sækir þangað menntun er til muna líklegra til að setjast að í heimabyggð sinni en þeir einstaklingar sem sækja sér menntun lengra að.

Undir háskóla- og rannsóknastarfsemi er gerð tillaga um 3 millj. kr. tímabundið framlag til evrópsks samstarfsverkefnis á vegum Reykjavíkurakademíunnar í Svartárkoti. 90 millj. kr. eru ætlaðar undir óskipta fjárveitingu til háskóla til að mæta hugsanlegum frávikum í forsendum um áætlaðan fjölda nemendaígilda.

Undir Framhaldsskólum, stofnkostnaði, er óskipt tillaga um 5 millj. kr. tímabundið framlag til Iðnskólans í Hafnarfirði. Sömuleiðis er 5 millj. kr. tímabundin fjárveiting ætluð til tækja- og búnaðarkaupa við framhaldsskóladeildina á Patreksfirði.

Á almennum lið undir framhaldsskólum eru 5 millj. kr. hækkanir á framlögum til Myndlistaskólans á Akureyri og sömuleiðis í Reykjavík, 215 millj. kr. hækkun á liðnum Framhaldsskólar, óskipt, er hér lögð til sem skiptist þannig:

140 millj. kr. tímabundið framlag í tvö ár til frumgreinadeilda á Suðurnesjum og Vestfjörðum vegna nemendaígilda. Gert er ráð fyrir því að framlagið hækki um 10 millj. á árinu 2009 og verði þá 150 millj. kr. Alls er gert ráð fyrir að varið verði 302 millj. kr. í þessu skyni á árunum 2007–2009 og í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir 12 millj. kr. framlagi til þessa verkefnis. Jafnframt er undir þessum lið gert ráð fyrir fyrstu fjárveitingum vegna breytinga á lögum um framhaldsskóla sem munu væntanlega leiða af nýju frumvarpi sem komið hefur fram og hér eru ætlaðar 60 millj. til þess verkefnis.

Í þriðja lagi vil ég nefna undir þessum lið 15 millj. kr. tímabundið framlag til að flýta uppbyggingu nýs framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Sömuleiðis er undir liðnum Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum lagt til 10 millj. kr. tímabundið framlag þangað inn vegna íþróttabrautar. Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra er ætlað 15 millj. kr. tímabundið framlag til eflingar námsframboðs við þann framhaldsskóla. Við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu er 5 millj. kr. tímabundið framlag lagt til vegna fjarnáms.

Allar eru þær tillögur sem lúta að þessum framhaldsskólum liður í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Ætlað er að verja umtalsvert meiru fé og hærri fjármunum til námsframboðs og starfsþjálfunar í framhaldsskólum og símenntunarmiðstöðvum miðað við þetta frumvarp. Hér er gert ráð fyrir 100 millj. kr. framlagi, og alls er áætlað að verja til þessa verkefnis um 200 millj. kr. á árinu. Þetta er sömuleiðis liður í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar og ég vil geta þess í þessu sambandi að gert er ráð fyrir því að framlag til símenntunarmiðstöðva á landsbyggðinni hækki á þær allar og hækki samtals þau nýju fjárlaganúmer sem þær hafa um 3,7 millj. hver.

Hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða er einnegin gert ráð fyrir 3,7 millj. kr. hækkun og jafnframt er lagt til að veitt verði 5 millj. kr. tímabundið framlag í tvö ár til Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða vegna suðurfjarða. Undir viðfangi 1.31 undir þessum lið er Fræða- og þekkingarsetur. Þar er um að ræða fjögur verkefni, alls að upphæð 14 millj. Þar má nefna Rannsóknarsetur Háskóla Íslands í landnýtingu sem starfrækt er á Selfossi, Fornleifaskóla Vestfjarða í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, framlag til rannsókna- og fræðaseturs á Austurlandi ásamt Þekkingarsetursins á Egilsstöðum.

Námsflokkar Hafnarfjarðar eru styrktir í starfi með 8 millj. kr. framlagi til að efla kennslu í leikskólafræðum í samstarfi við Háskólann á Akureyri. 2 millj. kr. tímabundið framlag er til að styrkja rekstur Hússtjórnarskólans Hallormsstað.

Um Lánasjóð íslenskra námsmanna er gerð tillaga um 50 millj. kr. lækkun á liðnum vegna endurskoðunar á forsendum um gengi og útlán. Ekki er verið að gera breytingar á reglum sjóðsins. Umtalsverðar fjárveitingar eru lagðar til Fornleifaverndar ríkisins og sömuleiðis til Þjóðminjasafns Íslands. Þar vil ég sérstaklega nefna tímabundið framlag til Þjóðminjasafnsins vegna fjarvinnsluverkefna, annars vegar til Landvistar á Húsavík og hins vegar einnig 6 millj. kr. framlag til Forsvars á Hvammstanga.

Varðandi byggða- og minjasöfnin er gerð hækkun á fyrirliggjandi frumvarpi upp á 52 millj. vegna eftirfarandi verkefna: 10 millj. kr. eru ætlaðar í tímabundið framlag til Hins þingeyska fornleifafélags til fornleifarannsókna í Suður-Þingeyjarsýslu. 7 millj. eru ætlaðar til frágangs á fornminjum í Skálholti og einnig eru ætlaðar 5 millj. kr. til fornleifarannsókna og nýsköpunar í menningartengdri ferðaþjónustu í Dala- og Barðastrandarsýslu. Einnig eru veittar 5 millj. kr. til úrvinnslu fornleifarannsókna í Skálholti á vegum Fornleifastofnunar Íslands. Það er veitt fé til fornleifarannsókna á Hólum í Hjaltadal og einnig endurbyggingar Kolkuóss. Fornleifastofnun er gert kleift að halda áfram uppgreftri á eyðibýlinu Bæ við Salthöfða í Öræfasveit. Menningarsetur að Útskálum fær 3 millj. kr. framlag, sömuleiðis Arnfirðingafélagið til rannsókna á menningarsögulegum minjum í Hringsdal o.s.frv.

Loks vil ég nefna hér tvær litlar fjárveitingar sem skipta verulega miklu máli í því samfélagi þar sem þær koma til. Annars vegar er um að ræða 2 millj. kr. tímabundið framlag til Byggðasafns Skagfirðinga til fornleifarannsókna í Skagafirði og hins vegar 1 millj. kr. í tímabundið framlag til minjasafnsins á Burstarfelli til ákveðins verkefnis.

Undir liðnum um Þjóðskjalasafn Íslands er gerð tillaga um verulega háa fjárveitingu upp á 100 millj. kr. tímabundið framlag í tvö ár til grunnskráningar og endurskráningar á lítt skráðum eða óskráðum skjalasöfnum og til að vinna að stafrænni gerð manntala. Þetta er hið þarfasta verkefni og með því er ætlunin að bæta aðgengi almennings, fræðimanna og opinberra stofnana að mikilvægum og sögulegum heimildum með hjálp upplýsingatækni. Reiknað er með að þarna skapist um 20 störf á ári og gert er ráð fyrir því að þau verði m.a. unnin í samstarfi við héraðsskjalasöfnin á Ísafirði, Sauðárkróki og Húsavík.

Varðandi listir og menningu staldra ég fyrst hér við söfn, lið 919, Söfn ýmis framlög. Þar eru tiltekin framlög, eins og áður hafa verið, til Listasafns ASÍ, Nýlistasafnsins og Listasafns Sigurjóns Ólafssonar. Ýmis framlög til safna eru hækkuð um 15,6 millj. kr. og nema þá alls á þessum lið um 40 millj. kr. Innan ráðuneytisins er vistaður liður sem hefur sömuleiðis töluverðar fjárhæðir, alls 86 millj. kr. Allt í allt er verið að veita til þessara liða undir viðfangi 919-1.90 og 919-6.90 um 120–130 millj. kr. til ýmissa verkefna. Sundurliðun er að finna í sérstökum yfirlitum á þskj. 339, ég gef mér ekki tíma til að fara ofan í þann lista en hvet þingmenn til að kynna sér þær upplýsingar sem þar eru lagðar fram.

Varðandi menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnað er þar stærst inni ráðstefnu- og tónlistarhús í Reykjavík. Þar er um að ræða 75 millj. kr. tímabundið framlag vegna eftirlits með hönnun og framkvæmdum í tengslum við byggingu þessa húss. Tillaga sú er í samræmi við samkomulag milli ríkisins og Reykjavíkurborgar frá því í desember 2004. Þetta 75 millj. kr. framlag er áætlað á árinu 2008 en jafnframt er sama fjárhæð inni í fjáraukalögum fyrir árið 2007. Undir þessum lið er líka um að ræða 10 millj. kr. tímabundið framlag til endurbóta á félagsheimilinu Tjarnarborg í Ólafsfirði sem yrði einhvers konar menningarhús fyrir byggðarlögin á Siglufirði og í Ólafsfirði. Undir þessum lið er líka Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þar er gert ráð fyrir 15 millj. kr. hækkun á framlagi sem ætlað er að bæta við tveimur nýjum stöðugildum og mæta hækkun húsaleigu sem Sinfónían hefur orðið fyrir.

Stór liður er hér undir húsafriðunarnefnd. Þar er um að ræða ótal verkefni sem sótt var um fyrir. Eins og kom fram í framsögu hv. formanns fjárlaganefndar fyrr á fundinum er gríðarleg aukning í umsóknum eftir styrkjum út úr fjárlaganefndinni, u.þ.b. 40%, þannig að úr mörgu er að velja og menn reyna að mæta því eftir bestu getu. Hér er um að ræða u.þ.b. 60 viðfangsefni sem fá úthlutun, mismunandi háa, allt frá 1 upp í 8 millj. kr. Ég vil geta þess sérstaklega að fjárlaganefnd átti mjög gott samstarf við starfsmenn húsafriðunarnefndar ríkisins áður en til þeirrar tillögugerðar kom sem hér liggur fyrir í þingskjali.

Listir, framlög, þar eru gerðar tillögur um fjárveitingu til starfsemi áhugaleikfélaga, Bandalags íslenskra leikfélaga, starfsemi atvinnuleikhópa og sömuleiðis Íslenskrar tónverkamiðstöðvar. Hér er líka gerð tillaga um fjárveitingar til ýmissa listtengdra viðburða og er hana sömuleiðis að finna á þskj. 339.

Undir liðnum 983, Ýmis fræðistörf eru styrkir til útgáfumála hækkaðir um 18,8 millj. kr. Alls nema þeir um 53 millj. Þarna er líka tímabundin hækkun á Launasjóði höfunda fræðirita upp á 7 millj. og sömuleiðis tímabundið framlag til Skriðuklausturs til fornleifarannsókna á klaustrinu.

Í æskulýðsmálum eru umtalsverðar breytingar. Ég vil geta þess hér að undir þennan lið falla ýmsir málaflokkar og ýmiss konar starfsemi. Ungmennafélag Íslands fær að tillögu meiri hluta stjórnar 25 millj. kr. tímabundið framlag til að reka ungmenna- og tómstundabúðir að Laugum í Sælingsdal sem reknar eru í samvinnu við Dalabyggð og Saurbæjarhrepp. Sömuleiðis er inni í tillögu meiri hluta fjárlaganefndar tillaga um 10 millj. kr. framlag til Dalahrepps til að lagfæra umhverfi sumarbúðanna.

Lagt er til að framlög til Bandalags íslenskra skáta hækki alls um 12 millj. kr. Í fyrsta lagi vil ég nefna 7 millj. kr. framlag til að gera bandalaginu kleift að hafa þjónustumiðstöðvar á landsbyggðinni. Í öðru lagi er gerð tillaga um 3 millj. kr. tímabundið framlag vegna landsmóts skáta á árinu 2008 og loks er 2 millj. kr. tillaga um hækkun á rekstrarstyrk til bandalagsins. Um Landssamband KFUM og KFUK er gerð tillaga um 8 millj. kr. hækkun á styrk til þeirrar starfsemi.

ÍSÍ fær að tillögu meiri hluta 5 millj. kr. hækkun, Íþróttasamband fatlaðra 1 millj. kr., Skáksambandið hækkar að tillögu meiri hlutans um 2 millj. kr. Bridgesambandið hækkar um 200 þús. og svo er upphæð ráðstafað á liðnum 02-989-1.90 Ýmis íþróttamál. Þar er um að ræða sundurliðun sem sést á þskj. 339.

Undir þessum lið er líka framlag til skíðasvæðisins í Tungudal við Skutulsfjörð. Þar er gerð tillaga um tímabundið framlag að upphæð 10 millj. kr. sem er 5 millj. kr. meira en aðrar tillögur til skíðasvæða mæla fyrir um. Við þessa tillögu varðandi skíðasvæðið í Tungudal er gert ráð fyrir að gerður verði samningur milli menntamálaráðuneytisins og heimaaðila um framkvæmd og heildarfjármögnun á þessu verkefni.

Undir liðnum 999 Ýmislegt, ýmis stofnkostnaðarframlög, er um að ræða verulegar upphæðir þar sem gerðar eru tillögur um ráðstöfun á. Alls nema þær á þessum tveimur liðum samtals um 612 millj. kr. og eins og á við um svo margar aðrar eru þær sundurliðaðar á því þingskjali sem ég hef margnefnt og geri ráð fyrir að fróðleiksfúsir þingmenn séu þegar búnir að kynna sér því að það var lagt fram á fundinum í gærkvöldi.

Varðandi utanríkisráðuneytið sem er með málanúmerið 03 eru nokkrar breytingar þar. Fyrst vil ég nefna að þar er gerð tillaga um 15 millj. kr. framlag til styrkingar á alþjóða- og öryggissviði utanríkisráðuneytisins. Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundið framlag til tveggja ára vegna kennslu í heimskautarétti við Háskólann á Akureyri. Það er gerð tillaga um 50 millj. kr. lækkun á framlagi til Þróunarsjóðs EFTA og gert ráð fyrir að sjóðurinn gangi á inneignir sem áætlað er að nemi um 1.500 millj. í árslok.

Gert er ráð fyrir 58 millj. kr. framlagi til alþjóðlegrar friðargæslu. Stærstur hluti þeirra útgjalda fer til friðargæslu í Darfúr-héraði í Súdan. Loks vil ég nefna að gerð er tillaga um 50 millj. kr. tímabundna lækkun á liðnum 03-401-1.87 sem ber yfirskriftina Íslensk friðargæsla og þar er gert ráð fyrir að gengið verði á inneignir sem nema u.þ.b. 210 millj. kr. í árslok.

Töluverðar breytingar eru að sjálfsögðu innan landbúnaðarráðuneytisins. Þar tökum við upp tillögur frá Landgræðslunni varðandi landþurrkun þar sem stærstu einstöku verkefnin eru til aðgerða í landþurrkun og landgræðslu við Skjálfandafljót og við Jökulsá á Fjöllum ásamt Hornafirði. Undir þessum lið vil ég líka nefna Hólaskóla, á Hólum í Hjaltadal. Þar er gert ráð fyrir 5 millj. kr. framlagi til að starfrækja vettvangsskóla í fornleifafræði. 5 millj. kr. tímabundið framlag er gerð tillaga um varðandi landgræðslu ríkisins til að mæta útgjöldum á 100 ára afmæli þeirrar stofnunar. 12 millj. eru ætlaðar í fyrirhleðslur sem ég kom að hér áðan.

Ég vil sérstaklega nefna hér liðinn 04-321-1.01 sem er Skógrækt ríkisins. Þar er gerð tillaga um 30 millj. kr. hækkun á framlagi til reksturs og styrkingar á rekstrargrunni Skógræktar ríkisins. Eins og þingmenn hafa orðið varir við hefur Skógræktin talið sig þurfa þessa styrkingu á rekstrargrunni sínum og örugglega meira til, en hér liggur tillaga fyrir í því efni. Það er gert ráð fyrir því að Jarðasjóður og Jarðeignir ríkisins gangi á inneign sína um áramótin með því að lækka þennan lið um 100 millj. kr. Jafnframt liggja hér fyrir tillögur meiri hluta um stuðning við fiskeldi sem eru áætlaðar um 170 millj. kr. og er tímabundið framlag á árinu 2008 til að efla rannsóknir og markaðsstarf í fiskeldi. Það er gert ráð fyrir því að fiskeldishópur AVS, rannsóknarsjóður í sjávarútvegi, ákvarði árleg framlög í þessu efni.

Ég vil nefna undir sjávarútvegsráðuneytinu tímabundið framlag upp á 6 millj. kr. til að halda úti skólaskipinu Dröfn. Sömuleiðis er undir ýmsum framlögum sjávarútvegsráðuneytisins lagt til 80 millj. kr. tímabundið framlag vegna fjögurra verkefna sem er þá hluti af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar

(Forseti (RR): Forseti vill biðja hv. ræðumann að gera hlé á ræðu sinni um sinn.)

Það er sjálfsagt að verða við þeirri ósk forseta. (Gripið fram í.) Þetta er rétt að byrja.