135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:44]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki er langur tími til andsvara þannig að ég veð í spurningarnar. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargóða ræðu og yfirlit. Mig langar fyrst að spyrja um hækkunina á liði menntamálaráðuneytisins. Fram kom í máli hv. þm. Gunnars Svavarssonar, þegar hann flutti framsöguræðu sína, að um væri að ræða 1 milljarð 558 millj. kr. sem kæmu til hækkunar á þessa liði. Ég vil fá að vita hvernig þeir skiptast annars vegar á menningarmál og hins vegar á skólamál.

Mig langar líka að spyrja um hækkunina til Myndlistaskólans í Reykjavík og Myndlistaskólans á Akureyri. Um er að ræða skóla sem bera gríðarlegan kostnað af námi við listnámsbrautir á framhaldsskólastigi. Mig langar til að vita rökstuðninginn á bak við þær 5 millj. kr. sem þessir skólar tveir fá í hækkun. Er verið að bæta þeim upp það sem upp á hefur vantað árum saman til að komið sé til móts við þann kostnað sem þeir leggja út í vegna nemenda við listnámsbrautir framhaldsskólanna?