135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:51]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna afstöðu hv. þingmanns. Þá liggur fyrir að þungavigtarmenn úr báðum stjórnarflokkunum eru sammála um að setja á fót nefnd til að koma saman tillögum til eflingar atvinnulífi á hinu gamla Norðurlandi vestra. Ég vænti þess að þess verði ekki langt að bíða að nefndin verði skipuð og taki til starfa.

Nú er lokið þeim leiðangri sem lagt var af stað í fyrir fjórum árum, aðför að fjárhag Landspítalans, en þá var ákveðið að skerða fjárframlög til spítalans um 700 millj. kr. á ári og áformað að gera annað eins til viðbótar. Sem betur fer kom það aldrei að fullu til framkvæmda. Með tillögunum sem nú liggja fyrir hafa þau áform sem þá voru uppi, um aðhald í rekstri spítalans, verið lögð á hilluna. Þó það sé gott í sjálfu sér er ég hræddur um að sá leiðangur hafi haft ýmislegt slæmt í för með sér en ekki nokkurn ávinning.