135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:53]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og varaformanni fjárlaganefndar fyrir yfirgripsmikla og ítarlega ræðu og þau sjónarmið sem komu fram í ræðu hans um kjör landsmanna óháð búsetu.

Ég vil líka nota tækifærið til að fagna því að verið sé að hleypa af stokkunum fjárveitingu til að stofna framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Það var eitt af fyrstu þingmálum sem ég flutti fyrir einum átta árum. Ég fagna einnig byrjunarfjárveitingu til framhaldsskóla í Mosfellsbæ. Með virðulegan forseta hér á bak við, sem áður var bæjarstjóri í Mosfellsbæ, er það fagnaðarefni að sú fjárveiting skuli komin. Ég hef flutt ítarlegar tillögur um það.

Ég spyr þá um háskóla á Vestfjörðum. Vill hv. þingmaður styðja háskóla á Ísafirði?