135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:55]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Á sínum tíma var tekist á um Háskólann á Akureyri. Mjög sterk öfl vildu halda honum sem útibúi frá Háskóla Íslands, en forsenda fyrir vexti hans var að hann væri sjálfstæður. Nákvæmlega sömu rök eiga við um háskóla á Vestfjörðum. Fyrir þinginu liggur tillaga um að skrefið sé stigið um ákvörðun sem ekki liggur fyrir af hálfu stjórnvalda. Ég þakka hv. þingmanni góð orð hvað það varðar.

Ég vil líka fagna 700 millj. kr. sem lagðar eru til tengivega. Um það hef ég flutt tillögu á hverju þingi í nokkur ár, aukið framlag til safn- og tengivega, og það er ánægjulegt að sjá það hér. Mér finnst aftur á móti sorglegra að sjá hvernig staðið er að heilbrigðisstofnunum víða um land. Ég nefni Blönduós, Austurland, Suður-Þingeyjarsýslu og fleiri heilbrigðisstofnanir sem fá ekki viðbót, og starfsemin á Blönduósi er meira að segja skert.

Mig minnir að það hafi verið samkomulag hjá okkur að málefni heilbrigðisstofnana ætti að (Forseti hringir.) taka fyrir milli 2. og 3. umr. í heild sinni. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér.