135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:58]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Líkt og hv. þm. Jón Bjarnason fagna ég þeim tillögum sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur gert grein fyrir. Ég þakka honum fyrir yfirgripsmikla ræðu.

Sérstök ástæða er til að fagna framlagi til Mannréttindaskrifstofu Íslands, 10 millj. kr. Það hefur verið umfjöllunarefni ár eftir ár og við mörg barist fyrir því framlagi enda mjög mikilvægt fyrir þingið að hafa aðgang að Mannréttindaskrifstofunni og fá hana til að veita umsagnir um þau lagafrumvörp sem hér eru til umfjöllunar. Það er mikilvægt að þingið veiti Mannréttindaskrifstofunni beint framlag án milligöngu framkvæmdarvaldsins.

En ég vildi spyrja hv. þingmann hvort þau framlög sem hér eru til þjónustu við blinda og sjónskerta séu ekki þannig hugsuð af hálfu fjárlaganefndar að þau nægi til að uppfylla samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því fyrr á árinu um að stórefla þjónustu við blinda og sjónskerta, ekki síst blind og sjónskert grunnskólabörn, og tvöfalda fjölda stöðugilda í þeirri starfsemi úr 13 í 26. Ég vildi biðja hv. þingmann um að staðfesta það ef svo er.