135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[21:43]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er erfitt að bregðast við öllu í stuttu andsvari þannig að ég ætla að nota tækifærið og þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir fróðlegt erindi þó að ég sé kannski ekki sammála öllu sem í því var. Hv. þingmaður fór vítt og breitt um völlinn með söguskoðun og sagði sögur sjálfur og þær hafa farið héðan út um allan heim og jafnvel norður í hérað.

Eftir stendur í mínum huga að þingflokkur Vinstri grænna leggur fram tillögur sem ég hefði frekar viljað sjá lagðar fram í fjárlaganefnd og teknar þar til umfjöllunar. Því miður náðu menn því aldrei að koma þeim þar til umræðu. En hér eru lagðar fram tillögur um aukningu á ríkisútgjöldum upp á 12,5 milljarða (KolH: Þú getur samþykkt þær í atkvæðagreiðslu.) á móti aukningu á tekjusköttum í formi fjármagnstekjuskatts upp á 11 milljarða og niðurskurði á nokkrum fjárlagaliðum, m.a. niðurskurð á Ríkislögreglustjóra um 20%.

Þetta eru þær tillögur sem þingflokkurinn kemur fram með í stórum dráttum og þær verða væntanlega bornar upp hér á morgun en ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég hefði viljað sjá þessar tillögur koma fram við vinnu fjárlaganefndar sem hóf sín störf 12. september sl.