135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[21:51]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það verður ekki af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstri grænna, skafið að hann hefur gaman af að tala. Hann talar oft, hann talar mikið og stundum er hann nokkuð mælskur. Ég verð þó að segja að sú langa ræða sem hv. þingmaður flutti í umræðunni um fjárlagafrumvarpið var býsna innihaldsrýr og minnti mjög á málflutning hv. þm. Jóns Bjarnasonar, sem ég fór í andsvör við fyrr í dag.

Það vakti athygli mína í ræðu hv. þingmanns hversu mjög hann er upptekinn af Samfylkingunni, stefnu hennar og sjónarmiðum. Það er ágætt. En ég hélt satt best að segja að hv. þingmaður væri búinn að jafna sig á því sem gerðist í vor, að hann komst ekki í þá ríkisstjórn sem hann hafði óskað sér svo lengi. Hann getur ekki unnt Samfylkingunni þess að vera í þeim sporum og eyðir lunganum úr ræðutíma sínum í að agnúast út í Samfylkinguna.

Ég held að það hljóti að vera dapurlegt hlutskipti heils stjórnmálaflokks að eyða hverri ræðunni á fætur annarri í umræðunni um fjárlagafrumvarpið í bölmóð og svartsýni en enga jákvæðni og enga gleði. Það er ekkert gott sem núverandi ríkisstjórn er að gera. Ég held það hljóti að vera dapurlegt hlutskipti heils stjórnmálaflokks. Ekki vildi ég vera í sporum hv. þingmanna, að nálgast hvaða málefni sem rætt er hér á Alþingi með þeim formerkjum, með neikvæðni að leiðarljósi í öllum málum.