135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[21:57]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eitthvað hefur andsvar mitt komið við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. Ekki var svar hans við andsvari mínu mjög málefnalegt. En mig langar, vegna umræðu þingmannsins um kosningaloforð Samfylkingarinnar, og köll hans eftir skýringum á því hvers vegna þau eru ekki öll komin til framkvæmda, að benda honum á — og ég held að hann hafi kallað fram í ræðu þegar á það var bent — að ríkisstjórnin hefur verið örfáa mánuði við völd og ekki eðlilegt að allt sé komið til framkvæmda. Ég held að hv. þingmaður hafi þá kallað fram í að ekkert væri komið til framkvæmda.

Ég vil þá nefna það sem bæði hæstv. fjármálaráðherra og hv. formaður fjárlaganefndar nefndu varðandi það sem væntanlegt er að komi inn á milli 2. og 3. umr. sem er ákveðinn pakki sem lýtur að ellilífeyrisþegum og öryrkjum. Ég vil einnig benda hv. þingmanni á það mál sem var samþykkt á fyrstu dögum nýs ríkisstjórnarmeirihluta og lýtur að aðgerðaáætlun í málefnum barna og unglinga.

Frú forseti. Ég get ekki stillt mig um að gera athugasemd við það — ekki síst vegna þess að í salnum situr samstarfsmaður minn til margra ára, Árni Þór Sigurðsson, hv. þingmaður Vinstri grænna, sem starfaði með mér í meiri hluta í Reykjavík í 12 ár, og veit vel á eigin skinni hvað það tekur langan tíma að snúa stóru skipi — að jafnreyndur þingmaður og hv. Steingrímur J. Sigfússon skuli koma í ræðustól og beinlínis biðja um að öll stefnumál Samfylkingarinnar séu komin inn á fyrstu mánuðum nýrrar ríkisstjórnar. Það er, verð ég að segja, frú forseti, pínulítið barnalegt í ljósi þess að ég hygg að þingmaðurinn hafi setið á Alþingi í 25 ár.