135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[23:11]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gott að heyra að hv. þingmaður ætlar að taka sérstaklega til skoðunar málefni Listasafns Íslands milli umræðna, ég fagna því.

Varðandi listnám í framhaldsskólum er rétt, eins og fram kom í frammíkalli, að þess væri getið í nýju frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra en engir fjármunir eru í fjárlagafrumvarpinu eða í breytingartillögum meiri hlutans. Ég vona að ef hv. meiri hluti ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér — hann leggur til talsvert af breytingum sem fylgja lagabreytingum sem e.t.v. á eftir að gera í nánustu framtíð — ætti hann líka að setja inn fjármuni sem varða frumvarp um tónlistarnám sem hæstv. menntamálaráðherra leggur fram.

Það var ekki skorið niður, segir hv. þingmaður, í þeim tillögum sem menntamálanefndin lagði til. Það er alveg rétt, ekki var skorið niður. Þegar við töluðum við fjárlaganefnd fylgdi þó sögunni að ef breytingar yrðu, svo sem hækkun, sæti menntamálanefndin áfram við borðið vegna þess að það vorum við sem vorum búin að fara í gegnum allar umsóknirnar. Það vorum við sem vorum búin að hitta alla gestina. Það vorum við sem vorum búin að móta okkur skoðun á öllu málinu þannig að við vissum alveg hvað við vildum í þeim efnum og hvað okkur hefði þótt skynsamlegast. Ég segi ekki að við hefðum ekki komist að sömu niðurstöðu og meiri hluti fjárlaganefndar gerði. Við ætluðumst til þess og við fengum vilyrði fyrir því að yrðum höfð við borðið til enda og ekki er rétt að við höfum skilað tillögum okkar svo seint að ekki hafi verið tækifæri til þess að kalla okkur að borðinu.

Varðandi það að komið hafi tvö álit frá menntamálanefnd er það auðvitað alveg rétt. Ég skilaði séráliti og mig minnir að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hafi skrifað undir það með mér. (Forseti hringir.) Ég mun koma að því í síðara andsvari mínu.