135. löggjafarþing — 33. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[00:45]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er fimmta árið mitt á þingi og þetta er besta andsvar sem ég hef fengið frá nokkrum Vinstri grænum fram að þessu. (Gripið fram í.) Ég fagna sérstaklega málflutningi hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar og í raun held ég að það væri ágætt að fá hv. þm. Árna Þór Sigurðsson með mér á fund hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og sjá hvort við getum ekki reynt að lægja eitthvað öldurnar. Við þekkjum það úr Norðausturkjördæmi að við höfum tekist harkalega á en ég sé merki um samvinnuvilja, að hv. þingmaður er að lesa ævisögu formanns Framsóknarflokksins, sem veit á gott.

Ég held að stjórnarliðar megi fara að vara sig þegar stjórnarandstaðan nær saman með svo kröftugum hætti (GÁ: Og verður að nýrri samfylkingu.) og verður hugsanlega að nýrri samfylkingu í öflugri stjórnarandstöðu. Ég sé að stjórnarliðum verður órótt við þau tíðindi sem eru að gerast við það að vinstri grænir og framsóknarmenn fallast í faðma í dag. En ég ítreka enn og aftur þakkir mínar til hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar og hvet hann til þess að koma á fundi með okkur hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og jafnvel hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur líka.

Það hefur gengið á ýmsu á síðustu fjórum árum. Auðvitað greinir okkur á um ýmsa hluti en við erum sammála um annað og mér líst vel á þann takt sem hv. þingmaður hefur slegið í störfum sínum í þinginu og hver veit nema ný samfylking stjórnarandstöðunnar verði til á þessari nóttu.