135. löggjafarþing — 33. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[00:47]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson hvatti mig til að koma í andsvar og svara og skýra út fyrir honum ýmislegt af því sem hann missti af á meðan hann sinnti öðrum störfum.

Varðandi jöfnun á flutningskostnaði eða niðurgreiðslu flutninga þá er búið að breyta því og á bls. 29 segir í áliti meiri hlutans að jöfnun kostnaðar við vöruflutninga eigi ekki lengur við Vestfirði sérstaklega. Það er svo sem ekki búið að útfæra það nánar eins og hv. þingmaður nefndi.

Það sem vakti athygli mína hjá hv. þingmanni var sérfræðiþekking hans á vindhönum. Í sjálfu sér kom það kannski ekki mikið á óvart. Það hefur vakið athygli mína hvernig Framsóknarflokkurinn hefur skipt um prógramm, kemur inn og lætur sig vaða í utandagskrárumræðu um Grímseyjarferju og talar eins og hann hafi hvergi komið að málum. Hv. þingmaður ber fyrir sig að hann geti ekki lesið allt fjárlagafrumvarpið og var hann þó formaður fjárlaganefndar. Síðan er hann alveg hissa á því að ég skuli hafa orð á því að það sé töluvert verkefni að komast inn í fjárlagafrumvarpið á fyrstu mánuðunum.

Það vekur líka athygli mína að hann kemur með fyrirspurnir, m.a. um málefni fatlaðra. Sjálfur situr hann í félagsmála- og trygginganefnd en hefur þar lítið mætt og hefði betur gert það til að fá svör við þeim spurningum.

Ég vildi helst eiga orðastað við hv. þm. Birki Jón Jónsson um niðurskurðartillögurnar. Þenslan er allt í einu ekki lengur fyrrverandi ríkisstjórn að kenna eða ákvörðunum sem áður voru teknar. Nú er hún bönkunum að kenna og nýju ríkisstjórninni. En ég bíð (Forseti hringir.) spenntur eftir að heyra allar niðurskurðartillögurnar sem eiga að slá á þensluna.