135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[10:32]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram 2. umr. um frumvarp til fjárlaga þar sem frá var horfið í nótt. Mig langar að byrja á því að þakka hv. formanni fjárlaganefndar, Gunnari Svavarssyni, varaformanni fjárlaganefndar, hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni, og öðrum hv. þingmönnum sem með mér starfa í fjárlaganefnd fyrir skemmtilega og gefandi vinnu þetta haustið við gerð fjárlaganna. Ég verð að segja það sem kem að þessu verki í fyrsta sinn, eins og reyndar flestir aðrir hv. þingmenn í fjárlaganefnd, að þessi vinna hefur verið afar gagnleg og mjög fróðleg, ekki síst fyrir nýja þingmenn. Ég hygg að við það að sitja í fjárlaganefnd fái menn nokkuð góða yfirsýn yfir ekki bara ríkisreksturinn, þjóðhagsbúið, efnahagsmálin o.s.frv. heldur ekki síður hina ýmsu málaflokka sem heyra undir ríkiskassann. Það hefur verið þannig í haust eins og formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnar Svavarsson, gerði grein fyrir í ræðu sinni að nefndin hefur haldið ótal fundi og hitt margt fólk, einstaklinga, fulltrúa félagssamtaka, fulltrúa sveitarfélaga o.s.frv. og þetta hefur gefið mér sem nýjum þingmanni býsna góða innsýn í og yfirsýn yfir hin ýmsu mál.

Það kom fram í gærkvöldi í umræðum af hálfu stjórnarandstöðunnar — reyndar skiptist hún í tvö horn í þessari umræðu, annars vegar fulltrúa Vinstri grænna sem vilja gera allt fyrir alla í þessu (GÁ: Og ábyrga framsóknarmenn.) og svo ábyrga framsóknarmenn, hv. þm. Guðni Ágústsson. Vinstri grænir sem vilja gera allt fyrir alla leggja fram útgjaldatillögur upp á um 10 milljarða kr. og hv. þm. Jón Bjarnason, sem er talsmaður flokksins í ríkisfjármálum, fór hér mikinn sem og formaður flokksins, Steingrímur J. Sigfússon, sem ég reyndar lenti í andsvörum við í gærkvöldi. Hann sá ekkert nema svartnætti fram undan. Ég held að það hljóti að vera erfitt fyrir heilan stjórnmálaflokk að vera í þeim sporum sem Vinstri grænir eru í þessa dagana á þinginu. Það er sama hvaða mál er rætt, það er allt ómögulegt, það er allt svart og þeir sjá bara neikvæðnina í öllum málum. (Gripið fram í: Það er myrkur ...) Það er rétt, hv. þingmaður, það er myrkur úti en það þarf ekki endilega að vera líka myrkur í hugum manna eins og birtist í umræðum í gærkvöldi.

Ég verð að segja að það olli mér vonbrigðum í umræðum að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn sem er Vinstri grænir skyldi ekki leggja neitt uppbyggilegt inn í þessa umræðu, heldur koma bara með bölmóð og svartsýni, en auðvitað verða menn að eiga við sjálfa sig hvernig þeir nálgast sína pólitísku umræðu. Menn verða að eiga það við sjálfa sig hvernig þeir nálgast umræðu um fjárlög íslenska ríkisins og ef menn telja að leiðin sé að draga upp dökka mynd og koma ekki með neitt jákvætt inn í umræðuna er það bara þeirra.

Varðandi Framsóknarflokkinn og talsmann framsóknarmanna í ríkisfjármálum, hv. þm. Bjarna Harðarson, var nokkuð annað upp á teningnum í umræðum í gær. Framsóknarflokkurinn lagði mjög mikla áherslu á aðhald og sparsemi og sú sem hér stendur og að ég hygg flestir aðrir þingmenn geta tekið undir þau varnaðarorð sem birtust í ræðum hv. þm. Bjarna Harðarsonar og fleiri framsóknarmanna í gær. Auðvitað erum við í þeirri stöðu í efnahagslífinu að það eru ýmis teikn á lofti um að menn verði að fara varlega. Það er þó ekki þar með sagt að menn geti í þessum fjárlögum dregið allt til baka og sett í bakkgír. Ég held því þvert á móti fram að þessi fjárlög séu um margt mjög ábyrg og sýni það að menn taka efnahagsstjórnina og ríkisfjármálin mjög föstum tökum.

Það eru tvö mál sem ég vil nefna hér af því að eftir þeim var kallað í umræðu og ekki tóm til að blanda sér í hana nema í stuttum tveggja mínútna andsvörum. Hér var kallað eftir fingraförum Samfylkingarinnar á þessu fjárlagafrumvarpi. Ég leyfi mér að mótmæla að þeirra sjái ekki stað. Þvert á móti nefni ég ein þrjú stór mál sem glögg merki sjást um í þessu fjárlagafrumvarpi. Í fyrsta lagi er aðgerðaáætlun í málefnum barna og unglinga sem var lögð fram af hálfu hæstv. félagsmálaráðherra á fyrstu dögum þingsins í sumar og var samþykkt og er komin í farveg. Síðan nefni ég jafnréttismálin. Eins og hv. þingmenn hafa e.t.v. tekið eftir hefur í fjölmiðum nokkuð verið fjallað um nýtt frumvarp til jafnréttislaga sem hæstv. ráðherra félagsmála, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur lagt fram. Ég held því fram að í því frumvarpi séu mörg merk ákvæði sem eiga eftir að breyta miklu í jafnréttisbaráttu og jafnrétti kynjanna hér á næstunni. Þar vil ég sérstaklega nefna tvö atriði, í fyrsta lagi ákvæði um að úrskurðir úrskurðarnefndar jafnréttismála skuli vera bindandi — sem ég tel vera afar mikilvægt réttlætismál. Við höfum í gegnum tíðina séð að þær konur sem hafa skotið málum sínum til kærunefndar jafnréttismála og oft og tíðum fengið þá niðurstöðu að á þeim hafi verið brotið hafa sjálfar þurft að fylgja málum eftir alla leið upp í Hæstarétt. Eitt ónefnt sveitarfélag í landinu hefur lent í því í tvígang að starfsmaður þess sveitarfélags hefur þurft að fara með mál sín fyrir Hæstarétt, unnið málin þar og fengið dæmdar bætur mörg ár aftur í tímann. (Gripið fram í.) Það er Akureyri, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, það er hárrétt. Með þessu ákvæði er komið í veg fyrir að konur þurfi að fara með málið dómstólaleiðina en það gerir auðvitað líka þá kröfu á kærunefnd jafnréttismála að þar verði vinnubrögð fagleg, þar verði góðir lögfræðingar við störf og að starfsemi nefndarinnar verði hafin yfir vafa. Það setur þá kröfu á kærunefnd jafnréttismála.

Annað atriði sem er afar mikilvægt líka í þessu frumvarpi snýr að launaleynd. Það hefur verið eitt helsta baráttumál kvennahreyfingarinnar um langa hríð að aflétta henni. Það er atriði í þessu frumvarp sem lýtur að því og því ber mjög að fagna. Ég nefni bara þessi tvö atriði í þessu frumvarpi. Það eru ótal margt annað sem markar spor ef þetta frumvarp verður samþykkt.

Í umræðum í gærkvöldi var líka kallað eftir áherslum Samfylkingarinnar í málefnum eldri borgara, lífeyrisþega og öryrkja. Ég ítreka það sem kom fram í umræðunum í gær af hálfu flokkssystkina minna sem þar töluðu, að milli 2. og 3. umr. verða kynntar hugmyndir sem lúta að því að bæta kjör þessara hópa. Framlagning náðist einfaldlega ekki fyrir 2. umr. hér en unnið er hörðum höndum að því að útfæra þessar tillögur og þær verða lagðar fram við 3. umr. Af því að ég nefni það að ekki hafi náðst að vinna þessar tillögur í tíma fyrir 2. umr. vil ég líka nefna það hér, af því að menn ræddu um framkvæmd fjárlagafrumvarpsins í gærkvöldi og nótt, að í þetta sinn var fjárlagavinnan komin mjög langt frá stofnunum og ráðuneytum þegar ný ríkisstjórn tók við völdum og Samfylkingin kom að þessum málum. Ég nefni það sérstaklega vegna þess að formaður Vinstri grænna sagði í umræðum í gær að fingraför Samfylkingarinnar sæjust ekki á frumvarpinu.

Nú hef ég nefnt þrjú atriði hér en ég benti líka hv. þingmanni, formanni Vinstri grænna, á að það tekur langan tíma að snúa stóru skipi. Það er ekki hægt að ætlast til þess að öll þau atriði sem ríkisstjórnarflokkarnir settu á oddinn í síðustu kosningabaráttu sjáist í fyrsta fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar. Það ættu reyndar margir hv. þingmenn Vinstri grænna í þessum sal að þekkja og vita vegna þess að samstarfsmaður minn til margra ára, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, sem sat með mér í borgarstjórn Reykjavíkur í 12 ár og vann að mörgum góðum framfaramálum með mér þar, veit að það tekur langan tíma þegar menn koma að verki í fyrsta sinn að láta sjá að nýir herrar og nýjar frúr séu komnar til valda. Ég nefni þetta hér vegna þess að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson gegndi í mörg ár formennsku í leikskólaráði borgarinnar þegar þáverandi meiri hluti tók við þeim málum algerlega í lamasessi. Það tók hins vegar um 10 ár að breyta því alveg. Ég nefni það hér til að undirstrika að það tekur allt tíma, ekki síst í ríkiskerfinu þar sem hlutirnir gerast hægt, og menn verða einfaldlega að gefa nýrri ríkisstjórn lengri tíma en sex mánuði til að hrinda öllum sínum kosningaloforðum í framkvæmd.

Fjárlagafrumvarpið endurspeglar eins og ég sagði áherslur ríkisstjórnarinnar og þessi atriði sem ég nefndi áðan. Ég mun koma sérstaklega að samgöngumálunum á eftir en gert er ráð fyrir að gera stórátak í samgöngumálum á næstu missirum. Samfylkingin lagði reyndar í síðustu kosningabaráttu mikla áherslu á uppbyggingu samgöngumála, vega og fjarskipta, vegna þess að við erum þeirrar skoðunar að góðar samgöngur og góð fjarskipti séu forsenda byggðar í landinu. Það er tómt mál að tala um að flytja störf út á land, að það sé hægt að vera með störf án staðsetningar, háskólamenntað fólk á stöðum ef það er ekkert fjarskiptasamband. Ef menn geta ekki treyst á öflugt net gagnaflutninga og að vegir séu opnir svo að hægt sé að komast til byggðanna er tómt mál að tala um slíkt. Tryggar og góðar samgöngur eru í rauninni stærsta byggðamálið, vil ég leyfa mér að segja. Þess vegna er ég afar stolt af því að verið sé að fara í þetta stóra og mikla átak í samgöngum á næstu missirum, stærstu framkvæmd sem hefur verið farið í í samgöngum þjóðarinnar frá því að hringvegurinn, þjóðvegur 1, var lagður á sínum tíma. Þótti það mikið afrek á þeim tíma. En ég kem betur að samgöngumálunum á eftir.

Ég nefndi áðan að fjárlaganefnd hefði hitt marga aðila, félagasamtök, einstaklinga, sveitarfélög og stofnanir. Mér fannst örla á því í umræðum í gær, en töluvert var rætt um safnliði, að sumir hv. þingmenn gerðu nokkuð lítið úr mikilvægi slíkra styrkveitinga. Ég held að við verðum að átta okkur á því að 1, 2, 5 eða 10 milljónir í verkefni sem verið er að vinna, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi, geta skipt sköpum um afkomu tiltekinna verkefna og um það að hlutirnir gangi upp. Ég þekki það af eigin raun, eftir að hafa á árum áður starfað hjá félagasamtökum, að styrkveitingar frá ríkinu og frá fjárlaganefnd, þó að við teljum þær kannski smáar í stóra samhenginu, þegar verið er að tala um milljarðana, geta skipt öllu máli. Því er ánægjulegt að sjá þegar rýnt er í fjárlagafrumvarpið að mörg erindi, sem einhverjir mundu kalla lítil, fá framgang og stuðning fjárlaganefndar, sem ég tel að skipti miklu máli. Vil ég sérstaklega nefna mannréttindamál en gerð er tillaga um 10 millj. kr. framlag til Mannréttindaskrifstofu Íslands. Ég tel að það skipti afar miklu máli. Ég hefði að sjálfsögðu viljað sjá hærri upphæð þar inni. Skrifstofan var einu sinni á fjárlögum en var því miður tekin út af þeim, en að þessu sinni er verið að setja þar inn upphæð. Ég fagna því og ég veit að þetta mun styrkja Mannréttindaskrifstofuna mjög mikið.

Ég vil nefna Framkvæmdasjóð fatlaðra, en tillaga er um 75 millj. kr. framlag til að mæta verkefnum í stofnframkvæmdum. Þeir peningar skipta þann sjóð afar miklu máli og er ánægjulegt að sjá þetta í frumvarpinu.

Ég vil nefna jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna. Ég talaði áðan um jafnréttisfrumvarp hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Gert er ráð fyrir, í samræmi við áherslur nýrrar ríkisstjórnar, að veittar verði 32 millj. kr. til að standa undir heildarkostnaði við fjögur stöðugildi jafnréttisfulltrúa við Stjórnarráðið. Mér finnst það skipta afar miklu máli og ríma við þær áherslur sem við sjáum t.d. í fjárveitingu til Mannréttindaskrifstofu.

Ég vil vekja athygli á einu máli úr umhverfisráðuneytinu, sem ég er mjög ánægð með að sjá hér inni, en það eru fjárveitingar í svokallaðan Vatnajökulsþjóðgarð. Gert er ráð fyrir að fara af stað með samkeppni um Vatnajökulsþjóðgarð á næstunni. Sú sem hér stendur fékk nýverið það verkefni af hálfu umhverfisráðherra að leiða þá vinnu og vera formaður dómnefndar um samkeppni Vatnajökulsþjóðgarða og þeirra gestastofa sem byggja á þar. Þar á að reisa fjórar gestastofur, eina á hverju rekstrarsvæði. Sú fyrsta á að rísa á Skriðuklaustri, önnur á Kirkjubæjarklaustri, sú þriðja í Mývatnssveit og sú fjórða á Hornafirði. Það er mjög ánægjulegt að sjá þessar áherslur á Vatnajökulsþjóðgarð í frumvarpinu. Reyndar er líka annar þjóðgarður inni í frumvarpinu. Það er þjóðgarðurinn á Snæfellsnesi með 50 millj. kr. framlag. Ég held að báðir þessir þjóðgarðar eigi eftir að verða okkur til sóma þegar fram líða stundir.

Þá vík ég, herra forseti, að samgöngumálum. Þau bárust í tal í gærkvöldi og eins og ég sagði áðan er fram undan gríðarlegt átak í þeim málaflokki. Þannig háttar til að við eigum eftir að fá, bæði í samgöngunefnd og inn á hið háa Alþingi, endurskoðun á samgönguáætlun og þá gefst tóm til að ræða einstaka vegi nánar. En allt útlit er fyrir eins og staðan er í dag, og reyndar hefur það verið kynnt af hálfu samgönguráðherra, að færa þurfi fé milli liða í samgönguáætlun. Eru það ríflega 2,5 milljarðar kr., ef ég man rétt, sem þarf að færa til. Þau verkefni sem verða færð til eru þau sem eru útgjaldafrekust. Þar stendur upp úr hin margumtalaða Sundabraut sem rætt hefur verið um fram og til baka, ekki einungis á þessum vettvangi heldur líka í borgarstjórn Reykjavíkur í mörg ár. Þannig háttar til að sú sem hér stendur hefur á öðrum vettvangi átt orðastað við þáverandi ríkisstjórn varðandi það verkefni, varðandi skipulagsþátt þess máls. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að heppilegra sé að fara svokallaða ytri leið en Vegagerðin og þáverandi samgönguyfirvöld töldu besta kostinn þann að fara svokallaða innri leið með því að móta land, búa til brýr og helgaðist sú skoðun fyrst og fremst, að ég hygg, af kostnaði, þ.e. innri leiðin var mun ódýrari en sú ytri.

Stundum þurfa hugmyndir að vera lengi í gerjun, lengi í umræðunni til þess að þær þroskist og þróist og verði að því sem maður leggur upp með í upphafi. Eftir margra ára umræðu um Sundabraut ákvað þáverandi meiri hluti í borgarstjórn Reykjavíkur, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og ég fagnaði mjög því framtaki, að skoða upp á nýtt svokallaða ytri leið, þ.e. að fara Sundabrautina í göngum. Það hefur gert það að verkum að málið hefur frestast. Menn hafa verið að skoða kostnaðarþáttinn upp á nýtt, umhverfisþætti o.s.frv. Við stöndum einfaldlega frammi fyrir því núna að öðru hvorum megin við áramót þarf að taka af skarið því að þessari vinnu varðandi ytri leiðina er nú lokið. Það þarf að taka af skarið af hálfu samgönguráðherra, samgönguyfirvalda og þingsins í samráði við borgaryfirvöld í Reykjavík um hvora leiðina verður farið. Ég hef aldrei legið á þeirri skoðun minni að ég tel mun heppilegra að fara ytri leiðina Sundabraut. Hún sé heppilegri fyrir byggðaþróun á höfuðborgarsvæðinu, hún sé umhverfislega heppilegri. Þó að hún kunni í krónum og peningum talið að vera örlítið dýrari eins og er þá muni það til lengri tíma litið jafna sig út. Ákvörðunina þarf að taka öðru hvorum megin við áramótin og eftir það geta menn einhent sér í þá vinnu sem þá er fram undan að byggja og leggja Sundabraut.

Mér hefur stundum fundist, herra forseti, í umræðum um Sundabraut að menn telji hana fyrst og fremst hagsmunamál Reykvíkinga eða höfuðborgarsvæðisins. Það er af og frá. Þetta samgöngumannvirki mun þvert á móti nýtast byggðum landsins, ekki síst Vesturlandi og Norðurlandi. Ég bendi á að nú nýverið samþykktu hagsmunasamtök á Norðurlandi vestra, að ég hygg, ályktun sem var send til mín sem formanns samgöngunefndar þar sem megináhersla var lögð á lagningu Sundabrautar í vegaframkvæmdum þjóðarinnar. Menn eru að átta sig á því út um allt land að Sundabraut er ekki einungis hagsmunamál Reykvíkinga, hún er hagsmunamál landsins alls. Því er brýnt að taka af skarið og ég treysti hæstv. samgönguráðherra til þess að standa í lappirnar og styðja þá sem hér stendur í því að fara þá leið sem við teljum heppilegasta sem er ytri leið Sundabrautar í göngum. Þá getum við vonandi þokað þessu mikla hagsmunamáli fram á við á næstunni

Á það var bent í umræðum í gær að vegna mikillar þenslu í samfélaginu stæðum við hugsanlega í þeim sporum að ekki væri hægt að koma í lóg, ef svo má að orði komast, öllum þeim fjármunum sem þó eru inni til samgöngumála á næsta ári. Það kann vel að vera að svo sé. Nú er hins vegar búið að taka út þessi stóru verkefni sem ég nefndi áðan, Sundabrautina og síðan verður væntanlega tilfærsla á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi. Ef í ljós kemur að færa þarf til verkefni eða að ekki sé til mannskapur eða tæki á landinu til að bjóða í og sinna umræddum vegaframkvæmdum verður svo að vera. En ekki er hægt að gera ráð fyrir því fyrir fram í fjárlagafrumvarpinu. Það kann vel að vera, eins og bent var á í umræðum í gær, að ef þensla verður mikil, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, geti það verkað jákvætt að þessum framkvæmdum verði frestað.

Í sjálfu sér ætla ég, herra forseti, ekki að hafa þetta lengra að sinni. Ég ítreka í lokin þakkir mínar til samnefndarmanna í fjárlaganefnd fyrir afskaplega skemmtilegt og gefandi starf, ekki eingöngu á fundunum sjálfum heldur ekki síður utan þeirra.