135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:11]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnari Svavarssyni og hv. þm. og jafnframt varaformanni fjárlaganefndar, Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir góða yfirferð í 2. umræðu um fjárlögin. Um leið vil ég að sjálfsögðu þakka því ágæta fólki samstarfið sem er með mér í fjárlaganefnd og tek undir með öðrum sem hér hafa talað að það samstarf hefur verið að nánast öllu leyti mjög gott.

Mig langar aðeins að koma inn á vinnubrögð fjárlaganefndar. Ýmsir hv. þingmenn hafa fjallað um vinnubrögð hennar og rétt er sem komið hefur fram að auðvitað er ýmislegt sem betur má fara í þeim vinnubrögðum að mínu mati. Að fjárlaganefnd skuli eyða lunganum af tíma sínum á meðan fjárlagavinnan fer fram í að taka viðtöl um leið og einstaka nefndir gera það líka, oft og tíðum við sama fólkið, þá finnst mér stundum að tímanum væri betur varið og menn gætu skipt verkum betur á milli sín.

Einnig hefur verið bent á að fjárlaganefnd hafi ekki nógu öfluga hagdeild á bak við sig og geti þar af leiðandi ekki legið nógu mikið yfir því hvaða áhrif það sem fram kemur í fjárlögunum hafi á efnahagslífið. Ýmsir hafa nefnt, og ég tek undir með þeim, að gott væri að efla og koma upp einhvers konar hagdeild sem væri stoðdeild við skrifstofu fjárlaganefndar. Ég held að nauðsynlegt sé að fjárlaganefnd átti sig betur á samspili efnahagslífsins við fjárlagagerðina. Bankarnir og fleiri hafa t.d. bent á það, bæði Seðlabanki og viðskiptabankarnir. Þeir sem bent hafa á þetta mættu þó stundum hugsa um hvaða áhrif aðgerðir þeirra hafa á efnahagslífið. Sú þensla sem verið hefur á Íslandi að undanförnu er ekki einkaverk núverandi og fyrri ríkisstjórna heldur er klárlega um að ræða þá stefnu sem rekin hefur verið af bankakerfinu þar sem ótakmarkað lánsfé hefur farið í umferð nánast án þess að nokkurra spurninga sé spurt. Það hefur myndað mikið skrið á fasteignamarkaði og augljóslega valdið þenslu, ekki bara á þeim markaði heldur einnig þenslu í neyslu sem skilar sér síðan í hærri verðbólgutölum en viljum sjá. Við höfum reyndar oft og margsinnis séð hærri verðbólgutölur en nú, en blikur eru á lofti, eins og menn hafa bent á varðandi húsnæðismarkaðinn sem hefur verið meginskýringin á verðbólgunni. Hann virðist vera að gefa eftir og það skyldi þó ekki vera að við sæjum verðbólgutölur lækka mjög hratt nú á næstu mánuðum.

Ég tek undir með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur þegar hún segir að mikil svartsýni ríki í málflutningi vinstri grænna. Það vakti athygli mína að þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hélt ræðu sína í gær þá sagði hann orðrétt, held ég að megi segja, að menn ættu að vera hugsi í stað þess að vera hamingjusamir í gleðinni. Ég held kannski að hv. þingmaður mætti einmitt taka sér til fyrirmyndar að vera hamingjusamur í gleðinni, því að klárlega vantar alla gleði í hans málflutning, svo mikið er víst.

Hv. þingmaður rakti hugsanlega þróun á olíuverði, hugsanlega þróun á álverði og hugsanlega þróun markaða í ræðu sinni. Alltaf benti hann á hvað hugsanlega gæti gerst ef illa færi, hann tók alltaf verstu nálgun í hverju máli fyrir sig. Hann sá fyrir sér að olíuverðið mundi tvöfaldast, álverðið mundi snarlækka og markaðirnir yrðu rjúkandi rústir. Maður veltir stundum fyrir sér hvernig þeir sem svona hugsa treysta sér til að fara fram úr á morgnana. Það er svo sem allt í lagi að koma með ákveðin varnaðarorð en að allt sé að fara á versta veg held ég að sé orðum aukið, svo ekki sé meira sagt.

Þá hafa framsóknarmenn talað úr ræðustól á þá leið að fjárlögin séu allt of þanin en lítið hefur þó farið fyrir sparnaðartillögum af þeirra hálfu. Ég verð hins vegar taka undir það sem fram kom í ræðu hv. þm. Bjarna Harðarsonar í gær að þetta eru engin sparnaðarfjárlög, það er alveg hárrétt hjá þingmanninum. Við þurfum klárlega að hugsa um samhengi fjárlaganna á efnahagslífið en það er kannski hugsunin í fjárlögunum, þ.e. við sjáum fyrir okkur að efnahagslífið gefi nú eftir, að þenslan sé að minnka, og þess vegna sé komið inn með ýmsar framkvæmdir í fjárlagafrumvarpinu. Menn geta síðan dregið úr framkvæmdum eins og gert hefur verið, m.a. í ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ég held að það sé mun vænlegri aðferð en að bæta inn framkvæmdum, eins konar fjárauka, á miðju þingi. Það er miklu betra að hafa þá framkvæmdaþætti inni og draga úr þeim ef mönnum sýnast málin vera að þróast í átt til of mikillar þenslu.

Ég átta mig ekki alveg á hvernig saman fer að tala annars vegar um þanin fjárlög og óttast um leið harða lendingu. Ég held að harða lendingin kæmi ef við værum á niðurleið. Hv. þm. Bjarni Harðarson tók ágætissamlíkingu með flugvélinni í gær og sagði að ef við værum á niðurleið, mundum við skella til jarðar vegna þess að botninn dytti úr efnahagslífinu, ef ég skildi hv. þingmann rétt. Þá er einmitt nauðsynlegt að koma með upphæðir og fjármagn af hliðarlínunni, setja fjármagnið inn á réttu augnabliki til þess að ná mjúkri lendingu og fara í flugtak strax aftur. Mér finnst því vera ákveðin mótsögn í þessu hjá hv. þingmanni en hins vegar er margt í málflutningi hans sem ég get vel tekið undir. Að sjálfsögðu tek ég varnaðarorð hans alvarlega varðandi eyðsluna því að allt gengur út á að kunna sér hóf í þeim efnum.

Ég vil koma örstutt inn á ágæta ræðu sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hélt í gær en hann talaði um auknar tekjur á milli 1. og 2. umr. sem koma inn í fjárlögin þar sem hann benti á að skattar væru kvikir. Þar talaði hann sérstaklega um fjármagnstekjuskattinn og tek ég heils hugar undir það. Í ljósi þess að við horfum á allt aðra markaði, hlutabréfamarkaðurinn hagar sér þannig að það er margt sem bendir til þess að tekjur af fjármagnstekjuskatti verði miklu minni á næsta ári heldur en á þessu ári. Tölurnar sem bætast inn í frumvarpið eru tölur sem koma inn vegna þess að horft er á tölur sem þegar eru komnar inn á þessu ári vegna síðasta árs í gegnum fjármagnstekjuskattinn. Þess vegna óskaði fjárlaganefnd sérstaklega eftir því að efnahags- og skattanefnd mundi skoða hvort það væri rétt nálgun. Ef ég skildi hv. þingmann rétt þá taldi hann líka að virðisaukaskatturinn væri vantalinn en ég held að þarna sé líka kvikur skattur á ferðinni og ekkert sem segir, burt séð frá uppgjöri ársins í ár, að virðisaukaskatturinn á næsta ári verði jafnmikill og fyrstu níu mánuðir þessa árs gefa til kynna. Vilji menn að neysla minnki verður innkoma vegna virðisaukaskatts að sjálfsögðu minni. Varðandi skatta lögaðila sem bætast inn í frumvarpið, einn og hálfur milljarður ef ég man rétt, byggir það á uppgjöri bankanna þar sem við sjáum hver afkoma þeirra er fyrstu níu mánuðina. Þess vegna er hægt að taka þá tölu inn með nokkurri vissu sem sýnir okkur í rauninni að þegar bankarnir eru búnir að gera níu mánaða uppgjör sitt getum við séð tekjuskatt á lögaðila. Það sýnir okkur hvað bankarnir eru orðnir þýðingarmiklir fyrir afkomu ríkissjóðs og undirstrikar hvað hagkerfi okkar er bankadrifið.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á lífsgæðaskýrslu Sameinuðu þjóðanna og rétt eins og honum tókst að tala um olíuverðið í 200 dollurum á tunnuna og markaðir væru allir að fara niður á við og álverðið væri sígandi þá er það alltaf spurning um hvað spámenn lesa. Ég las aðra spá þar sem spáð er 5% hækkun á álverði næstu árin. Svo veifar hann annarri skýrslu þar sem hið gagnstæða kemur fram og ég treysti mér ekki til að gera upp á milli spámannanna sem þar eru á ferð.

Undirstrikað var sérstaklega að þótt við værum í efsta sæti í lífsgæðaskýrslu Sameinuðu þjóðanna þá munaði ákaflega litlu á okkur og hinum þjóðunum þannig að það var ákveðinn svekkelsistónn í því að við skyldum ekki taka hina í nefið. Ég held að við höfum öll gert okkur grein fyrir að Ísland og hin Norðurlöndin raða sér í efstu sætin og ekki munar miklu á milli, enda fylgja þessar þjóðir býsna svipuðu efnahagsmódeli þótt eitthvað kunni að skilja á milli, sérstaklega þegar kemur að skattlagningu þar sem skattar á Íslandi eru mun lægri heldur en á hinum Norðurlöndunum.

Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það þarf að koma á einhvers konar þjóðarsáttarandrúmslofti. Að þeirri þjóðarsátt þurfa fleiri að koma en voru í síðustu þjóðarsáttarsamningum í ljósi þess sem ég sagði áðan, að efnahagslífið væri orðið gríðarlega bankadrifið. Afkoma þjóðarinnar er í mjög miklum tengslum við bankana og við höfum séð á síðustu dögum að þegar álagið á bönkunum hækkar þá falla markaðir og bankarnir setja allt í lás, menn fá ekki lán og vextir hækka o.s.frv. Þess vegna held ég að í því andrúmslofti sem þarf að koma á sé nauðsynlegt að draga fleiri að borðinu og ég held að fjármálafyrirtækin og bankarnir hljóti að vera þeir sem bætast við þann hóp sem kom að gömlu þjóðarsáttarsamningunum. Markmiðið er alveg skýrt. Það er fyrst og fremst að bæta kjör þeirra sem eru með lökustu kjörin í dag. Það er verkefnið og þarf að vera þannig, eins og í gömlu þjóðarsáttarsamningunum, að það skili sér ekki upp allan stigann með tilheyrandi víxlverkunum og rugli sem kemur síðan langverst niður á þeim sem hafa lökust kjörin í dag.

Í lokin vil ég segja að fjárlagafrumvarpið er að mörgu leyti mjög gott. Það er reyndar svolítið merkilegt sem fram kemur varðandi túlkanir á tölum þegar talað er um tekjuafkomuna. Ef landsframleiðsla eykst og fjárlögin og eyðsla í fjárlögum eru lægra hlutfall af landsframleiðslunni, jafnvel þótt fjárlögin fari langt fram úr áætlunum, bara ef hlutfallið lækkar, tala menn um aðhaldsstefnu. Það er dálítið merkilegt. Ég held að menn ættu að horfa meira til þess hve miklu er eytt frá einu ári til annars. Auðvitað gera fjárlögin það. Þau horfa sérstaklega hversu miklu er eytt frá einu ári til annars í heildina og einnig hversu miklu er eytt í rekstur. Þá eru framkvæmdir og annað slíkt einangrað frá og í frumvarpinu er um 2% aukningu að ræða í rekstrinum en það ruglar fólk svolítið í ríminu. Maður getur barið sér á brjóst og sagt: Hér er mikið aðhald ef landsframleiðslan eykst því að hlutfallið lækkar jafnvel þótt eytt sé langt fram úr því sem áætlað var. Mér skilst að þarna sé á ferðinni alþjóðleg nálgun og í samanburði er hún alltaf notuð. Ég held að það væri meira aðhald fyrir okkur sjálf ef við hugsuðum um málið á öðrum nótum, þ.e. hvernig við breytum eyðslunni frá einum tíma til annars, burt séð frá þessum blessuðu hlutföllum sem geta ruglað mann í ríminu.