135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:37]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að deila mikið um af hverju verið er að skera niður þorsk. Til þess hef ég ekki næga þekkingu en aftur á móti höfum við til þess stofnanir sem gefið hafa ráð og ástandið sem við búum við í sjávarútvegsmálum er ekki sérstaklega Samfylkingunni að kenna. (Gripið fram í.) Hv. þm. Guðni Ágústsson getur reynt að velta því upp annars staðar hvernig stendur á því að við erum í þeirri stöðu að við höfum ekki möguleika á að veiða þorsk með frjálsum og eðlilegum hætti við landið, ég ætla ekki að fara út í þá umræðu hér.

Varðandi veiðileyfagjaldið er rétt að Samfylkingin hefur lagt mikla áherslu á það einfaldlega vegna þess að við teljum mikilvægt að réttur okkar til auðlindanna sé staðfestur með gjaldtöku. Aftur á móti er ekkert útilokað þegar gripið er til sérstakra úrræða til að bjarga byggðunum, (Forseti hringir.) ég hef ekki á móti því að það verði skoðað. Það verður þó að koma til réttra aðila.