135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:43]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að gert ráð fyrir að taka á halla nokkurra af þessum heilbrigðisstofnunum á fjáraukalögum og nú þegar er verið að gera það. Þó eru nokkrar stofnanir sem bera halla og munu gera það til næsta árs. Alvarlegast í því er þó að stofnanirnar fá ekki aukið fjármagn á næsta ári til þess að standa undir rekstrinum. Ég nefni t.d. Heilbrigðisstofnunina í Ísafjarðarbæ þar sem eru ný myndtæki sem ekki fæst viðurkenndur rekstrarstyrkur til. Heilbrigðisstofnunin á Hólmavík og fleiri litlar, mikilvægar heilbrigðisstofnanir eiga líka í rekstrarvanda. Ég held að stærsta byggðamálið sé að efla og standa vörð um bæði elli- og hjúkrunarheimilin, ekki síst úti um land, og einnig um heilbrigðisstofnanirnar.

Ég hef litið svo á að málefni stofnananna (Forseti hringir.) ætti að skoða milli 2. og 3. umr. en ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum þegar ég heyrði hjá [Ljós dofnar í þingsal.] hv. varaformanni fjárlaganefndar að það yrði ekki gert. Ég spyr hv. þingmann: Er ekki (Forseti hringir.) ætlunin að við tökum mál heilbrigðisstofnana og elli- og hjúkrunarheimila upp á milli (Forseti hringir.) 2. og 3. umræðu, stofnana sem standa út af hvað varðar rekstrarfjármagn fyrir næsta ár?