135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:45]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nú hissa á hv. þm. Jóni Bjarnasyni ef hann hefur ekki þekkt það að þegar ljósin eru slökkt þá þýðir það að ballið er að verða búið. En ég ætla svo sem ekki að eyða miklum tíma í að svara fyrir einstakar heilbrigðisstofnanir. Ég held að það sé sameiginlegt áhugamál okkar að efla heilsugæslu og heilbrigðisstofnanir úti á landsbyggðinni og við munum að sjálfsögðu fylgja því eftir.

Það verður spennandi sjá, einmitt núna í uppstokkuninni þar sem öldrunarstofnanir skiptast annars vegar í það að vera almenn þjónusta og búsetuskilyrði, með þjónustu sem býðst öllum óháð því hvar menn búa og svo hins vegar heilbrigðisþjónustu, hvernig okkur tekst að vinna það þannig að það gagnist einmitt þessum heimilum og að fjárveitingarnar komi í raun eftir þjónustuþörf út á landsbyggðina.

Það verður verkefni okkar á nýju ári og ég hlakka til samstarfsins í fjárlaganefnd um að rétta upp fyrir þær stofnanir sem ekki fá nægt fjármagn til að sinna þeirri þjónustu sem þörf er á þar.