135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:46]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni málefnalega ræðu. Hann lét í ljósi í ræðu sinni nokkrar efasemdir um að mínar hugmyndir varðandi útdeilingu fjár til einstakra menningarverkefna væru skynsamlegar.

Mig langar þess vegna að benda hv. þingmanni á leið sem ég tel að sé mjög skynsamleg í þessum efnum og ég vona að á endanum náum við saman í þessu. Hátíðirnar sem hv. þingmaður nefnir eru t.d. Reykholtshátíð og Skálholtshátíð og aðrar fastar tónlistarhátíðir. Þessar hátíðir gætu mjög vel átt heima undir tónlistarsjóði með því að tónlistarsjóður yrði stækkaður um það bil helming, úr 54 millj. í 100 millj. kr. getum við sagt. Við settum það inn í lögin að sjóðnum væri ætlað að styrkja þær tónlistarhátíðir á landsbyggðinni sem væru reknar á föstum grunni og honum væri heimilt að gera samninga við hátíðirnar til þriggja ára eða til fimm ára. Það er því mjög einföld lausn í þessum efnum.

Ég hef margar aðrar skynsamlegar hugmyndir, af því að hv. þingmaður auglýsti eftir því að þetta yrði útfært með skynsamlegum hætti og talaði um hina misvitru fjárlaganefndarmenn sem ég ræddi um í gær. Ég er alveg sannfærð um að við getum náð saman í þessum efnum á endanum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um þau verkefni sem verið er að veita í, þessi menningarverkefni sem rúmur milljarður króna fer í og jafnvel meira. Ég var nú frekar naum þegar ég var að leggja þetta saman fyrir ræðu mína í gærkvöldi. Hv. formaður fjárlaganefndar hefur látið þau orð falla hér að nú eigi að hefja vinnubrögð sem leiði til þess að Alþingi skoði vel þessi verkefni, fylgist með þeim og fylgi því eftir að fjármununum sé vel varið. Í ljósi þess spyr ég: Hvaða athugun gerði fjárlaganefndin á stöðu þeirra verkefna sem veitt var í á safnliðum í breytingartillögum nefndarinnar?