135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:48]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Við deilum þeirri skoðun að við viljum ná betur utan um safnliðina og reyna að vinna skiptingu þeirra með skipulegum hætti.

Ég skal fúslega gera þá játningu hér að ýmsar yfirlýsingar mínar varðandi sjóðina eru auðvitað með fyrirvara miðuðum við þekkingu og reynslu af þeim sjóðum sem þegar eru starfandi. Ég þekki helst menningarráðin og þær úthlutanir sem hafa átt sér stað. Það kann vel að vera að við getum með regluverki og skipun þessara sjóðstjórna og með lagasetningu tryggt að þetta dreifist um landið þannig að menn fari ekki að gera kröfur um að einungis hámenntaðir flytjendur í tónlist, leiklist eða öðru hljóti styrki úr einstökum sjóðum. Að þeir njóti sín — Jónas heitinn Árnason kallaði þetta stundum menningu með stórum og litlum staf, það var þá tvenns konar menning hin svokallaða hámenning sem einhver ákveðinn hópur virtist viðurkenna og svo eitthvað sem aðrir kölluðu lágmenningu sem Jónas heitinn taldi nú vera mestu hámenninguna. Það var það sem var iðkað úti í mannlífinu í hinum dreifðu byggðum og í grasrótinni.

Varðandi athugun á einstökum erindum þá lágu náttúrlega fyrir umsóknir frá öllum aðilum og það er alltaf sama krafan gerð, þ.e. að menn upplýsi hvernig féð hafi nýst o.s.frv. Það skal alveg fúslega viðurkennt að það er gert með mjög mismunandi hætti enda er í sumum tilfellum verið að úthluta mjög litlum fjármunum og erfitt að gera kröfu um endurskoðað bókhald frá slíkum aðilum.

Við höfum farið á staðina og heimsótt viðkomandi aðila í kjördæmunum því það skiptir máli að menn sjái um hvað er verið að ræða og hvað er verið að gera. Það mun engin ein úthlutunarnefnd ráða betur við það en þingmenn úr öllum landshlutum sem hafa komið og skoðað málin. Með líkum hætti veit ég að hv. þingmaður hefur skoðað stofnanir á Reykjavíkursvæðinu og kannski víðar úti á landsbyggðinni og (Forseti hringir.) þekkir þá vel til og fylgir málum kannski öðruvísi eftir þess vegna. En þetta má auðvitað bæta og það verður vonandi gert í framhaldinu.