135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:51]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Sjálf hef ég starfað í úthlutunarnefnd fyrir Bandalag áhugaleikfélaga þar sem ég starfaði sem framkvæmdastjóri í fimm ár. Ég hef líka starfað í úthlutunarnefnd fyrir atvinnuleikhópana og þekki vinnubrögðin sem hafa verið innleidd á báðum þessum stöðum og fullyrði að þarna eru módel sem hafa fengið áratuga reynslu. Þau eru þess eðlis að það hefur verið um þau mikil sátt og mikil ánægja. Það er fyrst núna á seinni árum, síðustu tveimur, þremur árum, sem er farið að bera á því að leikhóparnir hafi áttað sig á því að það er hjáveita fjár til fjárlaganefndar. Þannig að nú er farið að sækja um í þessa hjáveitu líka.

Ég legg áherslu á það að við erum að búa til ákveðnar hættur með því að fara svona fram í þessum efnum. En ég er svo sammála hv. þingmanni í því að við eigum að taka þetta til verulegrar skoðunar, fara djúpt í saumana á þessari framkvæmd og ég treysti því og vona sannarlega að við náum árangri í þeim efnum og þetta verði með öðrum hætti hér að ári.