135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:36]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt til getið að ræða hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar var að mestu uppbyggileg og málefnaleg gagnrýni. Það var svona rétt í lokin að það voru einhverjar gamlar erjur milli hv. þingmanns og hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur sem ég tel að þau verði nú bara að leysa. Ef þau geta ekki leyst það hér í þingsal þá einhvers staðar annars staðar.

Það er alveg ljóst í mínum huga og ég hef talað fyrir því hér í þeim ræðum sem ég hef flutt að við þurfum að breyta ýmsu í þessu vinnulagi. Það má þó alls ekki segja sem svo að við höfum ekki viðhaft fagleg vinnubrögð í fjárlaganefndinni eða öðrum fagnefndum sem hafa verið með hin og þessi mál til umfjöllunar. Hins vegar þarf verklagið að breytast og ég er búinn að ná fram ásamt varaformanni nefndarinnar ýmiss konar breytingum og ég vil vinna áfram að því og ég heyri ekki betur en að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar séu sammála því.

Það sem er að gerast núna — og það má vel vera að einhverjir kippist við — er það að inn á þingið kom á vormánuðum mikill fjöldi sveitarstjórnarmanna sem hefur tekið þátt í gríðarlega miklum breytingum í sveitarstjórnum á umliðnum árum og það eru þessir hv. þingmenn sem vilja sérstaklega beita sér fyrir því að breyta hér vinnulagi. Ég fann fyrir því á haustmánuðum að við erum að vekja hv. þingmenn sem hafa verið hér í mörg ár og vilja fara í þá vegferð með okkur. Við viljum fyrst og fremst tryggja það að hér séu áfram viðhöfð fagleg vinnubrögð en um leið tryggja að vinnulagið sé í samræmi við nútímann. Ég hvet hv. þingmenn Vinstri grænna til þess að vera með í þeirri vegferð og heyri ekki betur en þeir muni allir fylkja sér á bak við það.