135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:38]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. formanni fjárlaganefndar Gunnari Svavarssyni aftur og ég ítreka það sem ég sagði í upphafi minnar ræðu og vona að það hafi ekki farið fram hjá þingmanninum að ég hældi fjárlaganefnd fyrir vinnu hennar við að mörgu leyti erfiðar aðstæður. Ég tel að fjárlaganefndarmenn allir, bæði í meiri og minni hluta, hafi unnið vel sín störf og ég öfunda þá ekki af þeirri miklu vinnu sem þeir hafa lagt í þetta. Þetta er áreiðanlega ... (KÞJ: Þú átt að öfunda þá.) Já, ég á að öfunda þá, segir hv. þm. Kristján Þór Júlíusson ... (GÁ: Það á ekki að öfunda neinn mann.) og þá er það bara svoleiðis. Ég tel að þetta hafi verið faglega unnið.

En að sjálfsögðu geta menn haft mjög skiptar skoðanir á einstökum þáttum og að sjálfsögðu eru fjárlögin pólitískt plagg þannig að að sjálfsögðu geta í fjárlögunum birst mismunandi pólitískar áherslur og eiga að gera og um það er auðvitað tekist. En vissulega er það jákvætt ef menn geta orðið sammála um marga hluti og sammála um tillögur sem fram koma og ég tala nú ekki um verklag og vinnulag og ég fagna því og treysti því að svo verði. Ég hef átt það gott samstarf við þá sveitarstjórnarmenn sem hv. þm. Gunnar Svavarsson gat um og ég treysti þeim og veit að við getum beitt okkur í sameiningu fyrir bættum vinnubrögðum hvað fjárlagagerðina snertir. Ég lýsi sérstaklega eftir því að einstakar fagnefndir komi fyrr að málum og fái ríkara hlutverk í undirvinnu, ef svo má segja, sem síðan skilar sér inn í fjárlaganefnd.