135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:40]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla fyrst að víkja að því sem hér kom síðast fram um bætt vinnubrögð þingsins. Það olli mér töluvert miklum vonbrigðum að frumvarp til þingskapa skyldi vera afgreitt án þess að samkomulagi væri náð eins og ævinlega hefur tíðkast hér á þingi og að ræðutími þingmanna væri talið helsta vandamál þingstarfanna og að það skuli hafa verið farið í bútasaum út af því í þingskapafrumvarpinu. Það hefur sannast hér, frú forseti, í umræðum um fjárlagafrumvarpið, þessari 2. umr. sem hefur verið þörf, ágæt og að mestu málefnaleg. Ég held að menn geti tekið undir það. Þar hefur sannast fullkomlega að ræðutímareglur þingskapafrumvarpsins henta engan veginn slíkri umræðu, henta því engan veginn og það dugir engan veginn þingmönnum. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson, til að mynda, flutti hér 45 mínútna ræðu sem var málefnaleg og þörf. Átti að skera hana niður í 15 mínútur? Hv. þm. Bjarni Harðarson, fulltrúi í fjárlaganefnd flutti hér 40 mínútna ræðu. Ég sagði við hv. þingmann að það mætti ekki eitt orð missast úr ræðunni og hún var gagnorð og skilvirk. Ætla menn svo með þingskapalögum nýjum að skera niður ræðutíma?

Ég nefni það líka sérstaklega út frá því að við stöndum oft frammi fyrir frumvörpum sem ekki eru vönduð. Þar vil ég fyrst nefna til dæmis tilfærslurnar í Stjórnarráðinu sem kemur að ofan. Það er lítið rætt, lítið pælt, lítið spekúlerað. Þetta er þörf áminning fyrir okkur í þeirri umræðu sem fram fer á næstu vikum um frumvarp til þingskapa. Það þarf að horfa til þess að fjöldi frumvarpa og fjöldi mála þarf miklu meiri umræðu.

Af því að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson er í salnum vil ég nefna eitt dæmi fyrir hann. Það er frumvarp sem liggur fyrir þinginu um sakamál. Það kallar á verulega umræðu, við 1. umr., 2. umr. og lokaumræðu, sérstaklega við 2. umr. Ætli maður sér að klára 235–236 blaðsíðna frumvarp með málefnalegum hætti en gagnorðum þá dugir ekki til þess minna en klukkutími, einn og hálfur fyrir þá sem eru talsmenn sinna flokka.

Þetta var formáli að gefnu tilefni vegna orða hv. formanns fjárlaganefndar og ég er alveg reiðubúinn að lýsa því yfir hér að ég er tilbúinn að taka þátt þeirri vinnu sem hann hefur í hyggju að fara í vegna fjárlagagerðar. Hún er um margt barn síns tíma svo ég vitni nú í orð ónefnds manns sem ekki er hér.

Fjárlögin á hverju ári eru órækur vitnisburður um stefnu ríkisstjórna á hverjum tíma. Fjárlög fyrir árið 2008 endurspegla þannig stefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn eins og kunnugt er síðastliðin fjögur kjörtímabil og þar af lengst af við stjórnvölinn. Það er skoðun Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, VG, að þessi 16 ár hafi verið feit ár auðmanna og hátekjufólks en að sama skapi mögur ár lágtekju- og meðaltekjufólks, aldraðra, öryrkja og fleiri hópa og þessu var Samfylkingin sammála til skamms tíma.

Það blasir við að þjóðfélagsgerð okkar hefur breyst til verri vegar, mjög til verri vegar á sumum sviðum, á síðustu 16 árum. Misskipting, fátækt og hvers kyns mismunun hefur aukist verulega. Aðgangur að heilbrigðisþjónustu hefur verið takmarkaður með gjaldtöku. Til mín hefur leitað fólk sem hefur ekki efni á að fara í myndgreiningu sem kostar 16–18 þús. kr.

Landsbyggðarfólk situr sannanlega ekki við sama borð og íbúar höfuðborgarsvæðisins um háhraðatengingar, menntun, samgöngur og margt fleira, og getur ekki notið gæða lífsins — konur geta ekki sótt fjarnám vegna skorts á háhraðatengingum, konur sem þyrstir í fjarnám á landsbyggðinni eins og dæmin sanna í fjarnámsskólum sem þar eru.

Sveitarfélög á landsbyggðinni, það hefur komið fram, búa við fjársvelti. Hér ríkir fákeppni og allt að því einokun á stærstu sviðum viðskipta- og atvinnulífs og heilbrigð samkeppni og einstaklingsframtak, gleymum því ekki, framtak einstaklingsins, eiga mjög undir högg að sækja. Hér er viðvarandi kynbundið ofbeldi í gangi og viðvarandi kynbundinn launamunur sem hvort tveggja er stjórnarskrárbrot. Skattar á lág- og meðaltekjufólk hafa verið hlutfallslega hækkaðir með skertum persónuafslætti sem blasir við og enginn getur neitað, með skertum barnabótum, með skertum vaxtabótum og með stórauknum sjúklinga- og lyfjasköttum. Á sama tíma hafa skattar verið lækkaðir eða felldir niður á auð- og hátekjumönnum. Þetta þekkja allir. Kjör öryrkja og aldraðra hafa hlutfallslega versnað á þessum 16 árum. Brýnum umhverfismálum hefur ekki verið sinnt. Stórfelld og óafturkræf spjöll hafa verið unnin á náttúru Íslands í nafni, sem ég kalla, blindrar stóriðjustefnu.

Ungu fólki hefur verið gert illmögulegt að kaupa sína fyrstu íbúð og vaxtaokur er almenn staðreynd. Frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun hefur verið drepin í dróma og einsleit álbræðsluhyggja hefur verið allsráðandi með tilheyrandi ruðningsáhrifum. Frumkvöðlar og nýsköpunarmenn, karlar og konur, fá ekki fjármagn til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd nema á okurvöxtum. Það er fullt af hugmyndum um allar sveitir landsins en það hefur enginn efni á að framkvæma hugmyndina á yfir 20% raunvöxtum.

Eitt vil ég nefna í viðbót: Lífsnauðsynlegum hafrannsóknum og sjálfbærum veiðum er ekki gefinn sá gaumur sem skyldi. Hernaðarhyggja hefur farið vaxandi og Ísland hefur verið gert að þátttakanda í Íraksstríðinu. Borgaraleg réttindi hafa verið skert samfara því sem ég kalla miðstýrða ráðstjórn ríkislögreglustjóra með greiningardeildum, sérsveitum o.fl. Á sama tíma og þetta er að gerast dregur verulega úr löggæslu á landsbyggðinni. Hv. þm. Guðni Ágústsson, hlutverk lögreglu er ekki bara að eltast við innbrotsþjófa og glæpamenn heldur líka að þjónusta borgarana. Lögreglan í Árnessýslu getur ekki þjónustað borgara sína. (Gripið fram í: Það kemur þessu máli ekki við.) Það kemur þessu máli við. Félagshyggja og almannahagsmunir eru á undanhaldi fyrir sérhagsmunagróða og markaðshyggju og auðlindir þjóðarinnar sæta ásælni alþjóðlegra stórfyrirtækja og ofurauðmanna og þannig mætti lengi telja. Þetta sanna dæmin.

Það er staðföst skoðun mín að í öllum meginatriðum feli frumvarp til fjárlaga 2008 í sér óbreytta ríkisstjórnarstefnu Sjálfstæðisflokksins síðustu fjögur kjörtímabil. Stefna Samfylkingarinnar, svo að ekki sé talað um kosningaloforð hennar, er því miður — ég segi því miður — lítt merkjanleg í fjárlögum fyrir árið 2008 eins og hér hefur verið reifað og rökstutt ítarlega, m.a. af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni.

Skyldi það sem ég er að tala hér um vera svartagalls- eða svartsýnisraus vinstri grænna? Skyldum við nú sitja úti í horni einir með það gall í svartsýni okkar, eins og rökstuddri gagnrýni okkar á fjárlagafrumvarpið er svarað? Nei, það eru fleiri þessarar skoðunar. Ég sé ástæðu til að lesa forustugrein Morgunblaðsins frá 19. nóvember 2007 sem heitir Tími til aðgerða, með leyfi frú forseta:

„Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur nú setið að völdum í tæpa sex mánuði. Því verður tæpast haldið fram að á þessum sex mánuðum hafi orðið mikil umskipti í samfélaginu. Nærtækt er hins vegar að halda því fram að ríkisstjórn þessara tveggja stóru flokka hafi haldið áfram meira og minna á sömu braut og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Í stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna hinn 23. maí sl. sagði m.a.:

„Markmið hagstjórnarinnar er að tryggja lága verðbólgu, lágt vaxtastig, betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum, jafnan og öflugan hagvöxt og áframhaldandi trausta stöðu ríkissjóðs.“

Hvað hefur ríkisstjórnin gert til þess að tryggja litla verðbólgu og lágt vaxtastig? Það er ljóst að Seðlabankinn hefur látið til sín taka á þessu sviði en ákvarðanir hans hafa verið umdeildar og ekki notið sérstakrar velþóknunar ríkisstjórnarinnar. En hvað hefur ríkisstjórnin sjálf gert?

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir einnig:

„Hún mun vinna að víðtækri sátt í samfélaginu um aðgerðir á sviði efnahags- og félagsmála, um náttúruvernd og auðlindanýtingu ...“

Það er kannski ósanngjarnt að fara fram á of mikið á svo skömmum tíma en tíminn líður hratt. Er unnið að einhverri sérstakri sáttagerð á sviði efnahagsmála? Er unnið að sérstakri sáttagerð um auðlindanýtingu? Er ekki staðreyndin sú að það er allt í uppnámi vegna nýtingar orkuauðlindanna?

Í stefnuyfirlýsingunni segir enn fremur:

„Mikilvægt er að heilbrigð samkeppni og eðlileg verðmyndun þrífist á öllum sviðum atvinnulífsins og að neytendur njóti góðs af þeirri samkeppni. Efla skal samkeppniseftirlit í því skyni.“

Síðustu daga hefur komist verulegur skriður á þessi mál og fyllsta ástæða til að ætla að þeim verði fylgt fast eftir enda víðtæk samstaða um það.

Aðalatriðið er þó það að hin „frjálslynda umbótastjórn“, eins og ríkisstjórnin kallaði sig þegar stefnuyfirlýsing hennar var birt hefur haft hægt um sig það sem af er. Þegar nýr flokkur kemur að ríkisstjórn, sem hefur lengi verið utan stjórnar, má búast við líflegu löggjafarstarfi í upphafi þings á nýju kjörtímabili. Það sem af er hefur verið ákaflega dauft yfir þingstörfum og lítið um að vera.

Það er þörf á umbótum á mörgum sviðum þjóðlífsins en tillögur af hálfu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum láta á sér standa.

Allt kann þetta að færast til betri vegar á næstu vikum og mánuðum. Það er hins vegar staðreynd að sá tónn sem sleginn er í upphafi nýs stjórnarsamstarfs skiptir miklu máli.

Það verður ekki annað sagt en að upphafið hafi einkennst af hógværð.“

Ég vil reyndar taka það fram í þessu samhengi að efling Samkeppnisstofnunar hefur alls ekki verið í þeim stíl sem lofað hefur verið og að því kem ég síðar.

Þegar við skoðum þá liði fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði allsherjarnefndar staðfesta þeir það sem ég hef sagt, við búum við óbreytta ríkisstjórnarstefnu. Alvarlegustu annmarkar frumvarpsins hvað málaflokka á sviði allsherjarnefndar varðar lúta að fjárveitingum til löggæslu og fangelsismála. Embætti ríkislögreglustjóra hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár og útgjöld að sama skapi. Sífellt fleiri verkefni eru færð til miðstýrðrar ráðstjórnar embættisins auk nýrra verkefna. Þar ber mest á verkefnum sem lúta að meintri en alls óskilgreindri hryðjuverkaógn hér á landi í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september 2001.

Það fjölgar enn, hv. þm. Jón Magnússon, í sérsveit lögreglunnar, það fjölgar enn. Árið 2003 voru 18 manns í sérsveitinni. Nú starfar þar á sjötta tug lögreglumanna sem gætu mannað marga bíla hjá embætti sýslumannsins í Árnessýslu en eru þar ekki nema eitthvað mjög svo refsivert sé í gangi, þeir eru ekki að þjónusta fólk. Það hefur engin fagleg þarfagreining farið fram á störfum sérsveitarinnar.

Miðstýrð leyniþjónustustarfsemi fer hraðvaxandi og á sama tíma eru fjárveitingar til lögreglu á landsbyggðinni skornar niður. Það er svo komið að grenndargæsla og grenndarþjónusta í stórum byggðarlögum á landsbyggðinni, í heilu sýslunum, er að verða í skötulíki. Það þekkja allir landsbyggðarþingmenn og fleiri.

Ég get nefnt Grindavík úr mínu kjördæmi þar sem lögreglan hefur sáralitla viðveru, keyrir þar inn og kemur þar við og fer svo út aftur eftir skamma stund. Í Árnessýslu, eins og hér hefur verið nefnt, tekst aðeins að manna einn bíl. Umkvartanir íbúa á landsbyggðinni hafa verið virtar að vettugi. Fangaverðir á Litla-Hrauni hafa sent frá sér ályktun þar sem þeir taka undir að stórefla verði löggæsluþjónustu í Árnessýslu. Sveitarfélagið Árborg hefur sent frá sér yfirlýsingu, sem samþykkt var 14. nóvember, þar sem sveitarstjórnin lýsir yfir þungum áhyggjum af þróun löggæslumála og bendir á að fjárveitingar til embættisins hafi ekki aukist á undanförnum árum þrátt fyrir mikla íbúafjölgun, stöðuga fjölgun sumarhúsa og stækkun frístundabyggða og segja það alls óviðunandi fyrir íbúa Árnessýslu að lögregluembættinu skuli ekki sköpuð skilyrði til að halda úti viðunandi löggæslu. Það er illt til þess að vita, frú forseti, að þetta sé staðan, ekki síst í ljósi þess að 1. þingmaður kjördæmisins er hæstv. fjármálaráðherra Árni Mathiesen.

Það hefur líka gerst að Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur ályktað í þessa veru á aðalfundi 10. nóvember sl. Þar kvartar aðalfundurinn enn og aftur yfir því að bygging húsnæðis fyrir aðalstöðvar lögreglunnar á Suðurnesjum hafi dregist úr hófi fram og þar segir einnig að verkefni hafi stóraukist vegna fjölgunar íbúa á Suðurnesjum og það sé algjört skilyrði að rekstrargrundvöllurinn sé þannig að lögreglan hafi a.m.k. sama fjölda lögreglumanna og var fyrir sameiningu lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli og lögreglu í Keflavík en í dag vantar mikið upp á að svo sé, segir í ályktuninni.

Það er tímabært, frú forseti, að fram fari allsherjarúttekt á embætti ríkislögreglustjóra, sérsveit, greiningardeild og öðrum sérdeildum embættisins og einnig á löggæsluþjónustuþörf á landsbyggðinni. Ég vil líka taka fram að fjárframlög til lögreglunnar í Reykjavík eru skorin niður þrátt fyrir stóraukin verkefni sem allir flokkar eru sammála um að séu unnin. Þar á ég til að mynda við miðborgargæslu um helgar og þar fyrir utan hefur höfuðborgarlögreglan á höndum verkefni fyrir allt landið, m.a. kynferðisbrotadeild. Við höfum lagt fram tillögu um breytingu á þessu og fjártilflutningum frá lögreglustjóraembættinu til sýslumanna og ég minni á hana.

Við gagnrýnum líka harðlega forgangsröðun löggæsluverkefna samkvæmt frumvarpinu og þó sér í lagi að ekki skuli varið verulegum fjármunum í baráttuna gegn viðvarandi og vaxandi kynbundnu ofbeldi. Það má tala um hryðjuverk gagnvart konum í því sambandi. Konur búa við raunverulegt og viðvarandi ofbeldi og ógn. Þessar konur eru mæður okkar, eiginkonur okkar, dætur okkar, frænkur, vinkonur og aðrar konur sem búa við viðvarandi ógn og sumar því miður svo óheppnar að verða fyrir barðinu á ofbeldinu. Talið er að allt að fjórðungur kvenna upplifi á ævi sinni kynbundið ofbeldi í ýmsum útgáfum, allt frá minni háttar áreiti og upp í nauðganir og líkamsmeiðingar í tengslum við þær og andlegt ofbeldi sem því fylgir. Það eru 10% kvenna sem upplifa þá reynslu er hald einstaklinga. Við búum við þetta hér ár eftir ár meðan komið er á fót 70 manna sérsveitum til að berjast við hryðjuverkaógn sem ég geri að vísu ekkert lítið úr en auðvitað þarf að þarfagreina hana á Íslandi. Sem betur fer þekkjum við ekki dæmi þess á því eylandi sem Ísland er.

Það gildir hið sama um fíkniefnamál og forvarnamál. Þar skiptir oft mestu, tel ég, að horfa á uppsprettu þess, horfa á orsakir þess að börn eða ungmenni lenda í fíkniefnaneyslu. Að greina það nákvæmlega hvaða börn eiga í hlut, af hverju sumum börnum er hættara við þessu en öðrum. Þó að fíkniefnabölið hlífi engri fjölskyldu er það staðreynd að sum börn eru vegna aðstæðna sinna eða umhverfis síns eða foreldra í mikilli hættu vegna fíkniefna. Þar vil ég fyrst og síðast tala um börn með geðraskanir og alvarlegar persónuleikatruflanir.

Það er talið, frú forseti, að 2–5% barna í hverjum árgangi, þ.e. frá 115 og upp í 220–230 börn í hverjum árgangi, eigi við geðraskanir að stríða. Þær eru svo erfiðar að bestu fjölskyldur, bestu foreldrar ráða ekki við það aðstoðarlaust og það veit ég að frú forseti, sem uppalandi og kennari, þekkir mætavel og deilir skoðunum mínum.

Hér á landi þurfa þessi börn úrræði, öryggisnet og úrræði. Mörg þeirra þurfa vistun annars staðar en heima hjá sér vegna þess að heimili þeirra eru brotin. Við erum að tala um börn á aldrinum 14–20 ára. Við erum að tala um 1.500–2.000 börn og það eru þessi börn sem er langlíklegast að lendi í fíkniefnum, í klóm fíkniefnasala og þeirra glæpamanna sem standa að fíkniefnainnflutningi, sölu og dreifingu. Væri nú ekki rétt að fjölga plássunum sem aðeins eru 14 í dag, ef ég man töluna rétt. Ég segi þessar tölur með fyrirvara og ég kem aftur að því síðar.

Í áliti meiri hluta allsherjarnefndar er auknum fjárveitingum til löggæslu og öryggismála fagnað. Ég vil taka það fram að hér er að langmestu leyti um að ræða hækkun framlaga í Landhelgissjóð vegna kaupa á varðskipi og flugvél. Að öðru leyti skýrist hækkunin að mestu leyti af auknum fjárveitingum til embættis ríkislögreglustjóra og Útlendingastofu vegna aukins umfangs verkefna stofunnar. Aðrar fjárveitingar standa almennt í stað eða eru lækkaðar og boða óbreytta ríkisstjórnarstefnu fyrri mála í löggæslu, fíkniefnamálum og öðru.

Ég get ekki skilið við þennan löggæsluþátt án þess að minnast á að sífellt fleiri lögreglumenn kjósa að leita á önnur mið vegna bágra kjara og álags. Eru embætti landsins víða vanmönnuð og það er ekki tekið á þessum vanda í fjárlagafrumvarpinu.

Skoðum svo aftur börnin með geðraskanir í tengslum við gæluverkefni ríkisstjórnarinnar, fjárveitingar til svonefndra öryggismála. Það verður ekki komist hjá því að setja fjárveitingar til svokallaðra öryggismála í samhengi við fjárveitingar til hernaðar og hernaðartengdra mála. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að kostnaður vegna varnarmála — nú veit ég ekki hvort ég er með breyttar tölur frá breytingum, ég miða við frumvarpið eins og það var í upphafi og hv. þingmenn í fjárlaganefnd leiðrétta mig þá, en tölurnar sem ég er með um kostnað vegna varnarmála, svo sem þotugildra, heræfinga o.fl., eru 533,8 millj., Ratsjárstofnun 822 millj., aðild að NATO 65,2 millj., fastanefnd NATO 99,9 millj. Og í fjáraukalagafrumvarpinu og fleiru voru 280 millj. settar í Ratsjárstofnun, hernaðaraðgerðin Norður-Víkingur fékk 45 millj., öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli 152 millj., loftflutningar fyrir NATO 200 millj., ársþing þingmannafundar NATO 155 millj. Samtals 2,3 milljarðar. Ég kann ekki einu sinni að lesa svona stórar tölur, frú forseti.

Hvað gætum við bjargað mörgum geðröskuðum börnum fyrir þessa fjárhæð og komið þeim úr klóm fíkniefna? Þó ekki væri ekki nema einn þriðji af henni eða einn fjórði. Hvað gæti maður gert? Það er hver maður fullsæmdur af því að bjarga einu barni frá því að lenda í ógæfu. Eitt barn sem lendir í ógæfu fíkniefna 14 ára gamalt og er eyðilagt á sál og líkama tvítugt og lifir til sjötugs á umönnunarstofnunum, á örorkulífeyri og öðru slíku, kann að kosta þjóðfélag okkar um 300 millj. Það er ekki ríflega áætlað. Bara lífeyrir gæti verið um 150–200 millj. og svo kemur stofnanakostnaðurinn og það eru ekki bara heilbrigðisstofnanir, það eru fangelsin. Þau kosta 9 þús. kr. dagurinn, skilst mér, með öllum pakkanum, eða á milli 8–9 þús. kr. á dag. Ég verð þunglyndur þegar ég sé svona tölur og þegar ég veit af þeim vanda sem börn eiga við að stríða.

Fangelsismálin sitja enn á hakanum þrátt fyrir úrbætur á Kvíabryggju og Akureyri. Fjárveiting til fangelsismála nemur aðeins 8 millj. þrátt fyrir að gæsluvarðhaldsmál séu enn í miklum ólestri, uppbygging á Litla-Hrauni þoli enga bið, aðstaða kvenkynsfanga sé óviðunandi og þar fram eftir götunum. Fjárframlög til Fangelsismálastofnunar halda nokkurn veginn í við verðlagsbreytingar en ekki er gert ráð fyrir aukafjármagni til að auka meðferðarúrræði fanga, meta þörf þeirra fyrir meðferð, til málefna fanga sem eiga við geðræn vandamál að stríða og til fleiri brýnna fyrirliggjandi verkefna sem kalla þegar á úrlausn og fjármagn. Og ég vísa í þessu samhengi til áskorunar frá sveitarfélaginu Árborg þar sem vísað er í bréf starfsmanna á Litla-Hrauni sem hafa sent frá sér áskorun í sömu veru um að stórauka framlög til uppbyggingar að Litla-Hrauni. Ég vil þó halda því til haga að það hafa orðið margar ánægjulegar breytingar innan Fangelsisstofnunar og innan ramma fjárlaga og þar ræður e.t.v. mestu að fangelsismálastjóri og hans nánustu aðstoðarmenn og starfsfólk hans hafa unnið vel úr þeim peningum sem þeim hafa verið skikkaðir.

Ég hef lagt fram tillögu um að fjárveiting til Mannréttindastofu verði tekin aftur upp sem fastur liður á fjárlögum og sjálfstæði skrifstofunnar tryggt, enda sýnir reynslan að það er full þörf á starfsemi skrifstofunnar þó svo að fagleg álit hennar hafi í gegnum tíðina pirrað stjórnvöld. Nú skilst mér að kominn sé inn liður um þetta en ég held mig við tillögu okkar að þessu leyti því að það veitir ekkert af að bæta í þennan lið og að þetta verði fastur liður.

Ég lagði enn fremur til í minnihlutaáliti allsherjarnefndar að fjárveitingar til gjafsóknar og bætur til brotaþola yrðu stórauknar, málefnalegar rökstuddar tillögur sem fjárlaganefnd fékk inn á sitt borð fyrir líklega um það bil hálfum mánuði síðan og hefur haft nægan tíma til að skoða. Það er með öllu óviðunandi, eins og ég veit að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson tekur undir með mér, að gjafsókn sé ekki veitt vegna fordæmismála og mála sem skipta verulegu máli fyrir lífsafkomu einstaklinga og fleiri. Ég harma, eins og Lögmannafélag Íslands harmaði á aðalfundi sínum, þá lagabreytingu sem gerð varð árið 2004 þar sem réttur til gjafsóknar í málum sem hafa almenna þýðingu var skertur, enda er hér um mannréttindi að ræða. Aðgengi að dómstólum fyrir einstaklinga eru mannréttindi.

Annað sem er afar gagnrýnivert í fjárlagafrumvarpinu, og á það benti ég enn fremur í umsögn minni hluta allsherjarnefndar, er að hámarksfjárhæðir bóta til þolenda afbrota hafa engum breytingum tekið frá því að lögin voru sett á árinu 1995 — mig minnir að það hafi verið 1995 — sem þýðir einfaldlega að ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins hafa skert þessar bætur samfellt í 12 ár. Við erum öll sammála um að þegar að einstaklingur verður fyrir óþyrmilegri og hrottalegri árás og brotamaðurinn er ekki gjaldfær, að taki samfélagið sig saman og borgi þær bætur. Við það höfum við lifað frá því að land byggðist, samhjálpina. Það er illt til þess að vita að framhald verði á þessum skerðingum á árinu 2008. Þar fyrir utan hafa fjárveitingar til gjafsókna og bóta brotaþolanna verið vanmetnar mörg undanfarin ár og einu viðbrögð dómsmálayfirvalda eru að skerða þessi réttindi.

Það er líka skoðun minni hluta allsherjarnefndar að auka verði fjárframlög til umboðsmanns Alþingis til þess að embættinu sé m.a. gert kleift að taka upp frumkvæðismál. Það er afar merkileg starfsemi sem umboðsmaður vinnur að þessu leyti. Hann tók upp sjö frumkvæðismál á árinu 2006. Hann hefur tekið upp 15 mál það sem af er þessu ári og það er vegna þess að bætt var við starfsmanni á því ári sem er að líða, að ég held.

Í því samhengi kemur m.a. til skoðunar, sem allir voru sammála um, að taka upp allsherjarskoðun á réttarstöðu öryrkja og aldraðra. (KÓ: Það er verið að bæta í.) Það var bætt í það út af þessu, það er hárrétt hjá hv. þm. Kjartani Ólafssyni. Það þarf að skilja orð mín þannig að það eigi að gera mun betur. Það var hugsað til þessa eina máls og við vorum sammála um það, nefndarmenn.

Ég ætla til frekari rökstuðnings fyrir þeim sjónarmiðum sem ég setti fram í umsögn frá allsherjarnefnd að leyfa mér að vísa í umsögn hv. þáverandi þingmanna og núverandi að hluta til, Ágústs Ólafs Ágústssonar, Guðrúnar Ögmundsdóttur, Björgvins G. Sigurðssonar og Sigurjóns Þórðarsonar. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, sem var áheyrnarfulltrúi í allsherjarnefnd þá, var samþykkt álitinu. Sá minni hluti allsherjarnefndar sem sendi frá sér þetta álit vegna fjárlagagerðar fyrir árið 2006 setti fram nákvæmlega sömu gagnrýni og nákvæmlega sömu sjónarmið og ég hef hér reifað um ríkislögreglustjóra versus lögregluembættin úti á landi og höfuðborgarlögregluna, umfangi þess máls, um gjafsókn, um mannréttindamál og um umboðsmann Alþingis. Ég vænti því stuðnings við þessi málefni frá að minnsta kosti þessum þingmönnum Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd og þingmönnum Samfylkingarinnar almennt í fjárlaganefnd milli 2. og 3. umr. um að hér verði bætt verulega í.

Ef maður lítur yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði viðskiptanefndar þá blasir einnig við að ríkisstjórnarstefna Sjálfstæðisflokksins undanfarin 16 ár er í meginatriðum óbreytt. Það kemur best fram í því þegar maður ber saman starfsskilyrði Fjármálaeftirlitsins annars vegar og Samkeppniseftirlitsins hins vegar. Fjármálaeftirlitið virðist hafa verið óskabarn Sjálfstæðisflokksins og þar hefur ekkert verið til sparað og þar er myndarlega veitt. Hjá Fjármálaeftirlitinu starfar 41 starfsmaður og með sérstökum tekjustofnum eru tryggðar rúmar 935 millj. kr. til reksturs árið 2008. Fjárlagaheimildin er hækkuð um tæpar 340 millj. kr. milli ára. Hjá Samkeppniseftirlitinu starfa helmingi færri, 20 manns. Þar er gert ráð fyrir ríflega 250 millj. kr. fjárveitingu. Það hefur verið bætt í hana, að ég best veit, en þar hafa forsendur verulega breyst.

Ég er þeirrar skoðunar að báðar þessar eftirlitsstofnanir sinni mikilvægu hlutverki. Það er ekki það. En af hverju situr Samkeppniseftirlitið ekki við sama borð og Fjármálaeftirlitið? Ég hygg að Samkeppniseftirlitið gegni miklu meira hlutverki fyrir almenning, varðandi matvöruverð og margt, margt fleira og því spyr ég: Af hverju er þessi munur? Auðvitað hefur Fjármálaeftirlitið staðið sig vel í viðleitni sinni til að auka á trúverðugleika íslenskra fjármálafyrirtækja og reynst traustur bandamaður þeirra þegar þau sættu alvarlegri gagnrýni erlendis frá fyrir útrásarstarfsemi sína og grundvöll útrásarstarfseminnar. Það hafa ýmsir erlendir fjármálasérfræðingar haldið því fram að íslenskar fjármálastofnanir hafi farið offari í útrásinni.

Það ”hefur hins vegar gerst þrátt fyrir Fjármálaeftirlitið að vaxtaokrið á Íslandi hefur haldið sínu striki og íslenskir bankar og aðrar lánastofnanir, fjármálastofnanir hafa átölulítið eða átölulaust stefnt fasteignamarkaði og íbúðalánakerfi okkar í verulegt óefni. Það má öllum vera ljóst og það hafa bankarnir gert af ábyrgðarleysi með markvissum aðgerðum fram á haustið 2004. Með gylliboðum og auglýsingum hafa þeir náð undir sig nægilega stórum hluta markaðarins og gert nægilega marga neytendur og íbúðakaupendur háða sér. Hvað gerist þá? Það gerist nákvæmlega það sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og fleiri vöruðum við. Bankarnir hafa stórhækkað vexti á íbúðalánum í krafti markaðsstöðu sem verður ekki af þeim tekin nema með því að stórefla Íbúðalánasjóð eða stofna aftur ríkisbanka. Meðan bankarnir þjóna ekki landsbyggðinni gerist þess þörf til að íbúar á landsbyggðinni geti fengið þolinmótt fjármagn á heiðarlegum vöxtum, eins og ég hef orðað það.

Mikil fákeppni einkennir fjármálageirann og auður hefur safnast á örfárra manna hendur. Hvað hefur Fjármálaeftirlitið gert í því? Auðvitað ekki neitt. Ég ætla svo sem ekkert að fjargviðrast út af því. En ég ætla að fjargviðrast út af því að það er sótt að sparisjóðunum í landinu og samfélagslegum eignum þeirra af hópi ofurauðmanna á kostnað hinna dreifðu byggða landsins og almennings. Þar þarf Fjármálaeftirlitið að taka til hendinni en hefur því miður dregið lappirnar.

Samkeppniseftirlitið hefur sýnt og sannað að starfsemi þess getur skilað verulegum árangri í þágu almennings. Ég nefni þar bara olíusamráðsmálið. Það breytir ekki þeirri staðreynd að stofnunin hefur ekki getað sinnt brýnum verkefnum sem hún hefur á sinni könnu. Það á sérstaklega við um almennar rannsóknir og athuganir, sérstaklega á sviði fákeppni. Samkeppniseftirlitið hefur kallað eftir peningum til að fara í almennar rannsóknir til að skilja eðli fákeppninnar og afleiðingar og skilja markaðinn en fær ekki aura til þess. Það staðfesta nýleg dæmi um verðsamráð einokunarverslananna um matvörur. Samkeppniseftirlitið hefur sem sagt lengi haft áhuga á að skoða þetta dæmi heildstætt en ekki haft til þess fjárhagslega burði og meginorka og fjárveitingar stofnunarinnar hafa farið í sértækar athuganir og eftirlit. Það er upplýst af Samkeppniseftirlitinu að skilvirknin og málshraðinn séu ónóg og talsvert undir væntingum stofnunarinnar. Það er einnig þörf á úrbótum á samkeppnislögum.

Ég segi það enn og aftur, Samkeppniseftirlitið er jafnbrýn stofnun og Fjármálaeftirlitið og á að sitja við sama borð og Fjármálaeftirlitið en gerir það alls ekki. Fjárveiting hefur verið aukin milli áranna 2007 og 2008 en hún hrekkur engan veginn til til að mæta skylduverkefnum stofnunarinnar og auk þess hafa forsendur breyst verulega í rekstri stofnunarinnar og enn fremur hefur komið til aukinn kostnaður vegna flutninga. Verkefnum hefur auk þess fjölgað verulega. Ég vek athygli hv. þingmanna í fjárlaganefnd á því sem er mjög sérstök staðreynd en athyglisverð, að hlutfall fjárveitinga til Samkeppniseftirlits annars vegar og Fjármálaeftirlits hins vegar er einn á móti 3,7 ef ég reikna þetta rétt, miðað við fjárlagafrumvarpið. Í fyrra var þetta hlutfall ef ég man rétt 1:3,9 miðað við fjárlagafrumvarpið fyrir árið í ár.

Þetta er langtum hærra en gerist á Norðurlöndum. Þar er samkeppniseftirliti gert nokkurn veginn jafnhátt undir höfði. Hæsta hlutfall á Norðurlöndum annars staðar held ég að sé 1:2,5 en algengast er að þetta sé 1:1,7 eða 1,8 þannig að það er verulegt verk að vinna þar. Við setjum mikla peninga í það að Fjármálaeftirlitið geti stutt og styrkt útrásina og varið hana, tæpan milljarð, en almenningi á Íslandi blæðir vegna matvælaverðs sem er óeðlilega hátt. Svo eru menn að kenna bændum um það og rugla með öðrum hætti.

Ég vil bæta því við, hv. þingmenn í fjárlaganefnd, að innheimtar sektir Samkeppniseftirlitsins vegna samkeppniseftirlits nema hærri fjárhæðum en fjárveitingar til stofnunarinnar. Það er ekki bara að stofnunin sé sjálfbær, að hún vinni fyrir sér, heldur skilar hún afgangi í ríkissjóð ár eftir ár eftir ár. Hún fær ekki einu sinni þá peninga sem hún innheimtir í kjölfar árangursríks starfs síns. Það á auðvitað að gera Samkeppniseftirlitinu jafnhátt undir höfði og Fjármálaeftirlitinu. Það er ekki stætt á öðru ef það er pólitískur vilji ríkisstjórnarinnar að styrkja stöðu almennings í landinu.

Það eru fleiri stofnanir á málefnasviði viðskiptanefndar sem ég er að fjalla um sem búa við viðvarandi fjársvelti. Það eru stofnanir sem þjóna almenningi en ekki auðmönnum, það er staðreyndin. Og hvaða stofnanir eru þetta? Það er Neytendastofa og talsmaður neytenda. Fjárveitingar til þessara mikilvægu stofnana virðast mér beinlínis lækkaðar eða þær standa í stað milli ára þrátt fyrir mjög vel rökstuddar beiðnir um annað. Það staðfestir að mínu mati einbeitta og óbreytta ríkisstjórnarstefnu Sjálfstæðisflokksins sem Samfylkingin hefur tekið upp á sína arma því miður.

Að mínu mati og að mati okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fær landsbyggðarfólk sérstakar kaldar kveðjur hjá fjárlaganefnd að því er varðar flutningssjóð olíuvara. Þó svo nefndin hafi séð að sér og hætt við að skerða sjóðinn og leggja hann af þá heldur þessi sjóður áfram til 1. september næsta haust ef ég skil fjárlagafrumvarpið rétt. Það sýnir líka afstöðuna til þessa.

Ég kem þá að þeirri síðustu nefnd sem ég hef setið í og sent umsagnir um til hv. fjárlaganefndar fyrir hálfum mánuði sem ég þykist vita að hv. þingmenn fjárlaganefndar hafi gaumgæft og skoðað af því að hv. formaður nefndarinnar var að kvarta yfir því að tillögur bærust ekki en það var aldeilis ekki. Þær voru þarna. Auðvitað voru þær ekki eyrnamerktar fjárhæð því að ég hafði ekki heildarmyndina en ég lagði upp þessa stefnu, þessi sjónarmið, þennan samanburð.

Þegar kemur að málefnasviði sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þá blasir sama óbreytta ríkisstjórnarstefnumyndin við. Alvarlegustu annmarkarnir þar að mínu mati lúta að fjárveitingum til alhliða hafrannsókna, grundvallaratvinnuvegar okkar. Sérstaklega voru þar brýnar fjárveitingar í ljósi niðurskurðar þorskstofnsins í 130 þúsund tonn. Þetta var sérstaklega brýnt vegna þess að það er mat okkar að fiskveiðistjórnarkerfið hafði brugðist. Markmið þeirra hafa verið frá upphafi nákvæmlega hin sömu, að vernda fiskstofna, að stuðla að hagkvæmri nýtingu, að treysta atvinnu og efla byggð í landinu. Hefur ekki einhver heyrt þetta áður? Þessi markmið hafa aldrei náðst og reyndar höfum við fjarlægst þau ár frá ári allt frá því að fiskveiðistjórnarkerfinu var komið á.

Þvert á markmið laganna standa helstu nytjastofnar sjávar höllum fæti og lögin hafa í reynd stuðlað að óhagkvæmri nýtingu sjávarauðlinda með tilheyrandi skuldasöfnun, verulegri og hættulegri skuldasöfnun í erlendri mynt mest. Fari krónan fallandi um 5 eða 10%, hvað gerist þá? Það verða erfiðleikar í fiskveiðum og fiskvinnslu því þvert á markmið laganna þá hefur störfum í sjávarútvegi fækkað og starfsöryggi þeirra sem byggja afkomu sína á greininni hefur sjaldan verið verra. Þvert á markmið laganna hefur stöðugt dregið úr mætti sjávarbyggða um land allt með tilheyrandi byggðaröskun og fólksflótta. Við þessum stórfellda vanda er hvorki brugðist í fjárlögum né mörkuð heildarstefna til framtíðar. Það er sárgrætilegt að horfa til þess, hv. þingmenn í fjárlaganefnd, að Hafrannsóknastofnun getur ekki gert út hafrannsóknaskip sín nema annað í 200 daga og hitt í 170 daga. Er það nú hægt?

Vegna fjárskorts getur stofnunin ekki sinnt rannsóknum á seiðagöngu. Þær hafa verið aflagðar. Stofnunin getur heldur ekki sinnt rannsóknum tengdum breyttu hitastigi, rannsóknum tengdum lífmassa og fæðukerfi sjávar, rannsóknum tengdum loðnugöngum og áhrifum loðnuveiða á vöxt og viðgang þorskstofnsins, rannsóknum á hafsbotni og fleiri aðkallandi rannsóknarverkefnum. Það verður ekki undan því vikist að stórauka fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunar og ég vil bæta því við, hv. þingmenn og hv. formaður Framsóknarflokksins og hv. þingmaður og hæstv. fyrrverandi ráðherra, Guðni Ágústsson. Ég vænti liðsinnis þíns í þessu máli. Það kallar á það að bæta fé í rannsóknir á vegum sjómanna, á vegum útgerða og á vegum fiskvinnslustöðva og á vegum fiskverkafólks. Að færa rannsóknir líka til háskóla og annarra fræða- og þekkingarsetra á landsbyggðinni til vísindalegrar úrvinnslu á rannsóknargögnum. Ég veit að vinna Hafrannsóknastofnunar er að 60–70% leyti vöktunarstarfsemi en úr gögnum sem fást úr vöktunarstarfseminni geta fjölmargir aðilar unnið og það er ákaflega mikilvægt á þessu sviði að fá faglegan samanburð og faglega samkeppni og ég nefni í því samhengi Vestmannaeyjarannsóknir þar, ég nefni Háskólann á Akureyri og ég nefni stöðvar vítt og breitt um landið sem sinna rannsóknum við lítil fjárframlög, því miður.

Það væri ein besta mótvægisaðgerðin fyrir landsbyggðina sem hugsanleg er fyrir utan að fella niður veiðileyfagjaldið tímabundið. Ég er þeirrar skoðunar að sé auðlindagjald lagt á, eigi að leggja það á allar auðlindir eða enga. Ekki á að leggja auðlindagjald á fiskvinnsluna eina þegar hún stendur jafnilla og hún gerir og þegar sú staðreynd blasir við að 85% af þessu gjaldi kemur frá landsbyggðinni og er ekki sérmerkt hafrannsóknum né eyrnamerkt rannsóknum í þágu sjávarútvegsins. Frá Vestmannaeyjum fara yfir 100 milljónir á hverju ári, frá bæjarfélagi sem stendur að mörgu leyti illa og býr við viðvarandi fólksfækkun. Það munaði nú aldeilis um ef veiðileyfagjaldið rynni til bæjarfélagsins, hafnarinnar eða þar fram eftir götum.

Ef við förum ekki að vinna að þessum rannsóknum af krafti blasir við að undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar er mikil hætta búin. Ég leyfi mér í þessu samhengi að vísa til frumvarps Björns Vals Gíslasonar og fleiri. Það er frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, þskj. 157, og var lagt fram á þessu ári. Þar kom fram gagnmerk tillaga sem heitir Sjómenn græða hafið, þar sem sjómenn verða virkjaðir til rannsóknarstarfa í samstarfi við vísindamenn og aðra. Við getum ekki byggt upp fiskstofna í sjónum nema í samstarfi við sjómenn, rétt eins og bændur græða landið. Það verður að fara að huga að þeim staðreyndum.

Að mati okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er afar brýnt að stórauka matvælarannsóknir og fjárveitingar til þeirra í ljósi fyrirhugaðra breytinga á matvælaeftirliti og matvælalöggjöf sem fyrir dyrum stendur. Opna á fyrir innflutningi erlendra matvæla, hv. þingmenn. Hvað þýðir það? Það þýðir að við verðum að hafa öfluga stofnun sem getur sannfært okkur um að vörurnar séu réttilega upprunamerktar og geti sannfært okkur um að matvörurnar sem eru fluttar inn erlendis frá séu heilsusamlegar fyrir okkur og börnin okkar. Við erum ekki í stakk búin, miðað við fjárveitingar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, að takast á við óheftan innflutning matvæla og það sem gengur og gerist úti í hinum stóra heimi í þeim efnum. Matvörur eru framleiddar við vondar aðstæður, fluttar inn í eitthvert evrópskt efnahagssvæðisland, merktar þar upp á nýtt og fluttar svo til Íslands. Þar vantar mikla peninga. Stofna á nýtt matvælaeftirlit eða matvælastofnun, henni er naumt skammtaður heimanmundur, að því kem ég síðar.

Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðsins og frumvarp þar að lútandi kalla einnig á sérstakar fjárveitingar. Þar hefur fjárlaganefnd barið hausnum við steininn. Mér skilst þó að bæta eigi úr á milli umræðna.

Við í VG viljum líka og leggjum til að horfið verði frá hlutafélagavæðingu Matíss. Það kostaði þjóðfélagið 150 milljónir á þessu ári.

Sömu sjónarmið og ég hef rakið hér gilda um fjárlagaliði sem snúa að landbúnaðarráðuneytinu eða landbúnaðarþætti þess ráðuneytis. Landbúnaðarskólarnir, Skógrækt ríkisins, Landgræðsla ríkisins og fleiri stofnanir eru í uppnámi, mörg hver vegna tilfærslna verkefna. Í fjárlagafrumvarpinu virðist lagt til að fjárveitingar til Veiðimálastofnunar verði lækkaðar verulega og umtalsvert og einnig til Landbúnaðarháskóla Íslands, Hólaskóla, Landgræðslu ríkisins, Skógræktar ríkisins og til fleiri stofnana. Öll rök hníga samt að því að efla stofnanirnar og stórauka fjárveitingar eins og þær hafa farið fram á með rökstuddum hætti. Ég verð að segja að mér finnst algjörlega ótækt að ekki skuli vera myndarleg fjárveiting til Landbúnaðarháskólans til endurreisnar Garðyrkjuskólans á Reykjum, flaggskips garðyrkjunnar á Íslandi, sem hefur verið að drabbast niður í mörg ár.

Einnig er ámælisvert að ekki skuli vera veitt myndarleg fjárframlög til rannsókna og eflingar á lífrænni framleiðslu landbúnaðarvara. Ísland á nefnilega verulega framtíð fyrir sér sem landbúnaðarland. Úti í heimi eru sífellt fleiri flæmi tekin undir kornrækt til að búa til eldsneyti, það fækkar þeim sem framleiða matvæli. Þeir sem framleiða matvæli með lífrænum hætti búa til eftirsóknarverða vöru. Í Bandaríkjunum og Evrópu er sala á lífrænum landbúnaðarvörum vaxtarbroddur hvarvetna.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í skiptingu safnliða í sjávarútvegsnefnd né gagnrýna einstaka safnliði, ég get það ekki. Allir voru einhvern veginn jafnbrýnir. Ég beini því til fjárlaganefndar í endurskoðunarvinnu sinni að móta gegnsæjar og markvissar reglur með fyrir fram gefnum forsendum um umsóknir, úthlutanir og eftirlit með ráðstöfun fjárins, ég held að þess þurfi. Ég mælist ekki til þess að safnliðirnir verði lagðir niður því að oft sjá augu þingmanna í nefndum betur en augu þingmanna í fjárlaganefnd. Það er þó mikilvægt að mótaðar séu reglur til að rökstyðja liðina þannig að manni líði ekki eins illa út af jafnræðisreglunni og öðru. Ég gagnrýni ekki fjárlaganefnd að þessu leyti, fremur Alþingi.

Einhver fagnaðarefni eru í frumvarpinu. Maður fer gjarnan meira í gagnrýnina og það er hlutverk okkar í stjórnarandstöðunni að liggja á þeirri síðunni. Ég ætla ekki að eyða jafnlöngum tíma í að hrósa frumvarpinu eða liðum sem þar eru, þar er ýmislegt gott. Einu vil ég fagna sérstaklega og það er fjárveiting til sjúkrahússins á Selfossi. Með því sæta verður þó líka að koma eitthvað súrt. Það er góð lenska þegar fjárlaganefnd eða Alþingi leggur fé til verkefna að sjá fyrir endann á þeim. Fjárveiting fékkst og sjúkrahúsið var reist og stóð fokhelt í mörg ár. Það var 500 millj. kr. fjárveiting, ef ég man rétt, sem lá þar dauð, eins og menn vildu kalla það. Ekki er góð lenska að byggja hús fokhelt og klára það ekki, láta peningana standa án þess að nýta þá eða ávaxta, á það vil ég einnig benda.

Ég ætla að fjalla stuttlega um fjárlagafrumvarpið í tengslum við breytingar á Stjórnarráðinu og tilfærslur þar. Ég gagnrýni málsmeðferð allsherjarnefndar og það hef ég þegar gert. Málið var tekið úr nefnd á miðvikudaginn með áliti, 18 breytingum, án þess að okkur gæfist tækifæri til að skila áliti minni hluta samtímis þannig að það lægi fyrir við fjárlagaumræðuna, ég gagnrýni það. Ég gagnrýni líka frumvarpið að því leyti að framtíðarsýn eða fagleg greining liggja þar ekki fyrir. Settust menn niður í upphafi og spurðu sig: Skilar það skilvirkni fyrir þjóðfélagið? Er það betra eða er verra? Náum við einhverju fram eða ekki? Hvaða framtíðarsýn höfum við? Ég hef sagt að það var ekki ákveðið með þeim hætti en það sem er gagnrýnisverðast og snýr að þessari umræðu er kostnaðargreiningin á þeim þáttum, sem ég vil gera að umtalsefni örstutt.

Í umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er fullyrt að verkefnið muni ekki kosta neitt, það sé tilflutningur á verkefnum, peningar fari með og það kosti ekki neitt.

Síðan segir orðrétt, með leyfi frú forseta:

„Í einhverjum tilvikum kann þó að koma til breytinga á kostnaði, svo sem vegna breytinga á starfsmannafjölda eða húsnæði, en komi til slíkra óvæntra [— óvæntra — ] útgjalda eða biðlauna verður að fjalla um það sérstaklega.“

Þessi útgjöld voru nú ekki óvæntari en svo, hv. þingmenn, að þegar liggur fyrir aukinn húsnæðiskostnaður sem nemur 300 milljónum sem ekki hefur verið skoðað í fjárlaganefnd en mér skilst að verði tekið og skoðað milli 2. og 3. umr. (Gripið fram í.) Eru þessar 300 milljónir komnar inn? Já. Ég er bendi aðeins á þetta. Gagnrýnin lýtur ekki að fjárlaganefndinni heldur umsögn fjárlagaskrifstofunnar að það kosti ekki neitt nema til komi óvænt útgjöld. Húsnæðisútgjöldin voru gjörsamlega fyrirséð.

Önnur útgjöld bið ég hv. fjárlaganefnd að hafa í huga, flytja á matvælaeftirlitið á Selfoss. Koma mun til biðlauna en auðvitað geta menn ekki skoðað það vegna þess að ekki var haft samráð við breytingarnar. Hvorki var talað við forstöðumenn stofnananna né starfsmenn þegar það var samþykkt.

Það verður verulegur kostnaður við að koma á fót Matvælaeftirlitinu. Ég minni bara á Matís sem er miklu minni stofnun. Við punguðum út 150 milljónum á þessu ári. Það var fyrirséð og starfsmaður fjármálaráðuneytisins sem kom á fund allsherjarnefndar sagði mér að Matísskostnaðurinn hefði verið fyrirséður við fjárlagagerð fyrir árið 2007. Nú er fyrirséð að flutningur á Matvælaeftirlitinu mun kosta mikla peninga.

Landbúnaðarstofnun þarf að koma sér upp stoðþjónustu. Tugir starfsmanna fara og þeir þurfa að koma sér upp stoðþjónustu. Þá á ég við lögfræðinga, tölvufræðinga og ýmsa aðra sérfræðinga sem jafnstór stofnun og Landbúnaðarstofnun verður að hafa við höndina við afgreiðslu þeirra mála sem hún hefur til úrlausnar. Einnig kemur aksturskostnaður til og ýmislegt í þeim dúr.

Ef ég man rétt á að flytja Vatnamælingar inn á Veðurstofu og sameina henni. Þar blasir við húsnæðisvandamál og húsnæðiskostnaður og ýmiss kostnaður. Ég áætla að viðbótarkostnaður við tilfærsluna geti numið allt að tveimur milljörðum kr. og óvarlegt er að leggja fram til endanlegrar samþykktar fjárlagafrumvarp sem ekki reynir að nálgast kostnaðinn með þeirri nákvæmni sem unnt er að gera með samtölum við viðkomandi stofnanir, forstöðumenn þeirra og starfsfólk. Það er óvarlegt og ég mun gagnrýna það við 3. umr. ef ekki verður tekið á því.

Þáttur sem ég vil fjalla um að lokum varðar skyldur Alþingis, skyldur fjárlaganefndar og skyldur mínar sem þingmanns, þ.e. eftirlit með fjármunum og eignum ríkisins. Þá á ég við sölu eigna á Keflavíkurflugvelli sem ég vil gera að umtalsefni. Það er ekki orð um það í fjárlagafrumvarpinu enn þá að mér skilst en mér skilst líka að það standi til bóta fyrir 3. umr. þannig að ég vona að búið verði að koma því á koppinn. Ég áskil mér rétt til að ræða málið þá við 3. umr. en ég hefði kosið að sjá það hér.

Ég vil gera það að umtalsefni sem skiptir fjárlaganefnd og alþingismenn máli út af þeirri eftirlitsskyldu sem við höfum. Lögð hefur verið fram greinargerð, skýrsla Magnúsar Gunnarssonar og Kjartans Þórs Eiríkssonar, vegna fundar efnahags- og skattanefndar frá 26. nóvember 2007. Henni hefur ekki verið dreift en þar er gerð skýrsla um sölur eigna. Þar kemur fram að eignir hafi verið seldar fyrir 15,7 milljarða og nefnd eru nokkur fyrirtæki, Base, þar sem helstu aðalmenn eru bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Reykjanesi, Háskólavellir, þar sem sama gildir, Keilir. Þar er nú ekkert flóknara en það að stjórnarformaður Keilis er bæjarstjórinn í Reykjanesbæ og stjórnarmaðurinn í Þróunarfélaginu sem selur Keili er sami maður, báðum megin við borðið. Hann kaupir tvær fasteignar til einkahlutafélags. Þetta eru einkahlutafélög, ekki samfélagslegar stofnanir eða sveitarfélagsstofnanir.

Háskólavellir keyptu 1.700 íbúðir, takk fyrir. Markaðsverð þessara eigna er talið 29,5 milljarðar miðað við fermetraverð í Reykjanesbæ. Söluverðið var 14 milljarðar, meira en helmingi lægra en markaðsverð. Ef til vill má skýra það með því að kvaðir hafi fylgt, en að lækka verðið um 15,5 milljarða vegna kvaða um að mega ekki selja í fjögur ár, þessar íbúðir sem standa mjög vel, er órökstutt.

Base, Háskólavellir og Keilir eru einkafyrirtæki og þeim hafa verið framseldar eignir sem eru í opinberri eigu. Þegar maður skoðar fyrirtækjahópinn, kaupendahópinn, þá er það kóngulóarvefur. Ég hef sagt það í fréttum, það er kóngulóarvefur fyrirtækja. Þegar maður fer að skoða nöfnin bak við hlutafélögin sem eiga Háskólavelli, eiga Keili og einkahlutafélögin sem eiga einkahlutafélögin sem eiga Háskólavelli og Keili koma þar upp nöfn sem tengjast mjög áhrifaöflum Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ og þá sér í lagi bæjarstjóranum og bæjarfulltrúum. Ég hef nefnt að varðandi viðskipti í Keili hefur bæjarstjórinn setið báðum megin við borðið og hann situr þar og gerir viðskipti sem stjórnarmaður í Þróunarfélaginu við bæjarstjórnarmenn sem eiga einkahlutafélög sem eiga Háskólavelli og sem eiga Base.

Einhver nefndi við mig að þetta væru innherjaviðskipti. Það má alveg nefna það því nafni þó að það sé kannski ekki fræðilega réttur skilningur. En skyldi það standast að menn sitji báðum megin við borðið og skyldi það standast að sölumeðferðin fari fram án útboðs? Skyldi það standast að ekki sé gætt jafnræðis og gegnsæis og skyldi það standast að í þessum viðskiptum sé ekki gætt frjálsrar samkeppni sem er lykilorð í stefnu Sjálfstæðisflokksins? Rík þörf þegar höndlað er með ríkiseignir að hafa allt uppi á borðinu, hafa allt gegnsætt, skyldi þetta standast? Hvað skyldi samningur fjármálaráðuneytisins við Þróunarfélagið segja?

Þegar ég fjallaði um þetta mál í síðustu viku hafði ég þann samning ekki undir höndum. Ég hef reyndar beðið um öll gögn málsins en ekki fengið, þrátt fyrir loforð frá Þróunarfélaginu hef ég engin gögn fengið. Fjármálaráðuneytið hefur hins vegar brugðist snöfurmannlega við og sent mér þau gögn sem ég hef beðið um þar og ég er þakklátur fjármálaráðuneytinu fyrir það.

Ég sagði áðan að Þróunarfélagið hefði lagt skýrslu um málið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd. Það er því miður svo að í þeirri skýrslu er ótrúlega margt sem ekki er sagt. Það sem er sagt er eflaust rétt og satt en það er svo margt ósagt í skýrslunni sem fyrirtækið kynnir efnahags- og viðskiptanefnd. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í það.

Það kemur fram í þessum þjónustusamningi að gæta eigi málefnalegra sjónarmiða við alla umsýslu og ráðstöfun eigna með heildarhagsmuni eigenda og samfélagsins að leiðarljósi. Eru það ekki heildarhagsmunir samfélagsins að tryggja sem hæst verð og reyna að ná markaðsverði á íbúðunum, reyna að ná sem lengst upp í 29,5 í staðinn fyrir að hætta í 14 milljörðum?

Í V. kafla um ráðstöfun eigna stendur, með leyfi frú forseta:

„Verksali sér um og ber ábyrgð á að auglýsa fyrirhugaða ráðstöfun eigna með opinberum hætti, sýningu eigna, mat á innkomnum tilboðum og allri skjalagerð í tengslum við söluna, þar á meðal gerð eignaskiptayfirlýsinga og annarra gagna sem nauðsynleg kunna að verða.“

Í grein 2.7 segir líka að verksali skuli árlega leggja fyrir verkkaupa til samþykktar lista yfir þær fasteignir sem ætlunin er að rífa, leigja, selja á árinu — mér er spurn hvort það hafi verið gert. Verksali skal líka við sölu, leigu eða aðra ráðstöfun á eignum ríkisins gæta þess að mismuna ekki aðilum og skal í því skyni tryggja að umræddar eignir verði auglýstar opinberlega til sölu. Og val á viðsemjendum byggist ekki á öðrum sjónarmiðum en mati á hagstæðasta tilboði.

Síðan segir orðrétt, frú forseti, í grein 8.1:

„Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. er að fullu í eigu ríkissjóðs og telst því vera opinber aðili í skilningi tiltekinna lagaákvæða. Verksali skal gæta þess að skyldur sem leiða af slíkum lagaákvæðum, eins og t.d. útboðsskylda laga nr. 94/2001, um opinber innkaup, séu ávallt uppfylltar í starfi félagsins.“

Það kemur líka fram að verksalinn eigi að gæta jafnræðis, gegnsæis og sanngirni. Það er deginum ljósara að samkvæmt lögum um opinber útboð er lýst nákvæmlega hvernig útboð á að fara fram, nákvæmlega lið fyrir lið. Eftir því sem eignasalan er stærri og heildin er meiri þess vandaðri á meðferðin að vera. Það kemur líka skýrt fram í lögunum í 85. gr. þeirra að Ríkiskaup eiga að ráðstafa þeim eignum og selja sem ríkið vill losa sig við.

Í þjónustusamningnum, sem gerður hefur verið milli fjármálaráðuneytisins og Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, eru engin undanþáguákvæði frá þessu. Þau þurfa að vera skýr, ef það á að undanþiggja fólk, félög og fyrirtæki lagaskyldu. Það gilda allar skyldur laganna um innkaup og sölu og ég vek athygli á því að þegar ríkið er að selja bíla auglýsir það útboð á bílunum. Hafi Ríkiskaup ekki átt að selja þessar eignir, gefum okkur það, þá átti Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar að fara eftir þessum reglum um útboð.

Ég vil líka nefna það, frú forseti, að skýrt er tekið fram í samningnum að Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar eigi að fara að stjórnsýslulögum um hæfi. Þar er vísað í 3. og 4. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Hvað stendur þar, hvað skyldi standa þar? Jú:

„Starfsmaður eða nefndarmaður er vanhæfur til meðferðar máls ef hann er aðili máls, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila.“

Ég endurtek: Fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila. Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ er stjórnarformaður Keilis sem kaupir af Þróunarfélaginu þar sem sami maður situr í stjórn. Vanhæfið blasir við.

Í almennri vanhæfisreglu segir líka:

„Ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.“

Hvað þýðir þetta? Það þýðir m.a. það að ef menn eru í vafa um hæfi sitt þá eiga þeir að vekja athygli á því. Getur bæjarstjóri Reykjanesbæjar litið hlutdrægnislaust á málin sitjandi báðum megin við borðið? Getur hann sem stjórnarmaður í Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar litið hlutdrægnislaust á málið þegar hann er að semja við fulltrúa í bæjarstjórn sem hann stýrir, samherja sína í pólitík? Getur hann litið hlutdrægnislaust á málin? Ég svara því skýlaust og hiklaust neitandi.

Þarna var samningurinn brotinn alvarlega og ég spyr: Af hverju fæ ég ekki gögnin á borðið, sem þingmaður og eftirlitsmaður með opinberu fé? Af hverju sendir Þróunarfélagið mér ekki gögn um kaupsamninga og annað? Ég skal vera fyrstur maður til að draga til baka allar ásakanir, en það er leyndin, það er ógagnsæið, það er ójafnræðið sem kallar alltaf upp tortryggni. Það er aðferðin við þessa sölu og aðilarnir, persónur og leikendur, sem valda þessari tortryggni.

Virðulega og hæstv. fjárlaganefnd, þetta mál snýst um milljarða. Ég vildi óska þess að ég gæti fengið þessa milljarða, hvort þeir eru 5, 8 eða 10, til að sinna málefnum barna með geðraskanir, ég vildi óska þess. Eða berjast gegn fíkniefnavandanum.

Hver ættu viðbrögðin að vera þegar brotið er jafnharkalega gegn samningsskyldum félagsins? Viðbrögðin, heiðarlegu viðbrögðin eru fyrir mér þá að viðurkenna mistök og snúa ofan af hlutunum, rifta þessum samningi sem heimild er til og láta þessi kaup ganga til baka með nákvæmlega sama hætti og okkur tókst að snúa af þeirri óheillabraut sem Orkuveita Reykjavíkur var komin inn á, og það tókst með atbeina Vinstri grænna og Samfylkingarinnar og fleira góðs fólks. (Gripið fram í.) Og fleira góðs fólks, það var það sem Framsóknarflokkurinn var.

Nei, málið snýst um allt of mikið fé til að hægt sé að loka augunum fyrir því. Kannski kann þetta mál að þurfa að halda í einhverjar aðrar rásir áfram. Því er í það minnsta ekki lokið. Ég hef líka fengið upplýsingar um málið, fjölmargir einstaklingar hafa haft samband við mig eftir að það kom upp, ótrúlega margir einstaklingar. Og það verður bara að skoða það hægt og bítandi og sinna þeim eftirlitsskyldum. Það hafa líka verið gerðir ýmsir aðrir samningar en kaup eða sala eigna, þjónustusamningar o.fl. án nokkurs útboðs eða annars. En ég vænti þess, hv. formaður fjárlaganefndar, varaformaður og aðrir fulltrúar, ég vænti þess og ég treysti ykkur fyrir því að taka á þessu máli milli 2. og 3. umr. og leggja spilin á borðið, leggja allt upp, hreinsa þetta mál, taka af öll tvímæli.