135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:59]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Atla Gíslasyni gríðarlega yfirgripsmikla yfirferð um fjárlagafrumvarpið og ekki er því að neita að sumt af því sem kom fram í máli hv. þingmanns úr ræðustóli hefur maður heyrt fyrr í umræðunni sem hefur staðið alllangan tíma og er óhjákvæmilegt að þingmenn fari þá að endurtaka sig smátt og smátt í ýmsum atriðum. Ég vil þó staldra við nokkur atriði sem komu fram í máli hv. þingmanns. Fyrst vil ég nefna það mál sem hann lauk umfjöllun sinni á varðandi þróunarfélagið og skoraði á okkur oddvita hv. fjárlaganefndar að hafa allt uppi á borðum. Það er unnið með þeim hætti og það hyggjumst við gera. Það er verið að skoða öll þessi mál í fjármálaráðuneytinu, hjá Ríkisendurskoðun, í efnahags- og skattanefnd og í fjárlaganefndinni í þeim tilgangi að reyna að draga umræðuna upp úr því fari sem hún hefur verið í, þ.e. að hafa allt uppi á borðum í stað þess að umræðan byggi meira á sögusögnum, eins og verið hefur.

Hv. þingmaður vék máli sínu að hafrannsóknum og byggðamálum og litlum framlögum í þau, og talandi um að efla hafrannsóknir þá bendi ég á þau atriði sem komu fram í mótvægisaðgerðum ásamt tillögum Vestfjarðanefndar. Þar eru ótal atriði inni sem styrkja háskólastarfsemi á þeim svæðum landsins sem hingað til hafa ekki haft tækifæri til þess að takast á við rannsóknir á hafsvæðum landsins. Það er mjög gott. Ég nefni líka Drekasvæðið þar sem töluverðum fjárhæðum mun verða varið til Hafrannsóknastofnunar, 50 millj. kr. til að styrkja rannsóknasvið þeirrar.