135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:01]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að heyra þetta frá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni enda lauk ég ræðu minni þannig að ég bæri fullt traust til nefndarinnar að taka snöfurmannlega á þessu máli. Auðvitað er aðalatriðið að öll gögn komi á borðið til að hreinsa andrúmsloftið. Ógagnsæi þýðir gróusögur og í versta falli samsæriskenningar. Þetta þýðir vonandi að tortryggni mín og efasemdir séu rangar. Maður verður að ganga þannig inn í lífið og um lífið, um lífsins dyr að fara ekki með svona ásakanir fyrr en maður hefur það á hreinu. En ég hef spurt um gögn og ég hef túlkað þann lagaramma sem er utan um þetta, bæði lögin um opinber innkaup og ég hef túlkað þjónustusamninginn og ég hef túlkað önnur gögn sem ég hef fengið og ég hef auðvitað tekið mark á upplýsingum sem ég hef fengið frá Suðurnesjum, frá ýmsum mönnum sem ég tek mark á sem þekkja vel til ástæðna. En umfram allt dæmi ég ekki á þeim grundvelli. Það er okkar alþingismanna að hafa eftirlit með fjárreiðum ríkisins og eignum ríkisins. Þær skyldur er ég að reyna að uppfylla.

Að því er varðar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar, þá ná þær of stutt, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, því miður, þær ná of skammt og þær hrökkva ekki til að bæta þessa verulegu skerðingu. Við skulum hafa það í huga, hv. þingmaður, að skerðingin kemur á með fullum þunga þetta fiskveiðiár sem við erum í núna, 2007/2008. En mótvægisaðgerðirnar eiga að ná lengra. Við þurfum að gera miklu betur og þar nefndi ég veiðileyfagjald og ég hef áhuga á að heyra sjónarmið hv. þingmanns á því atriði.