135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:05]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Því fer fjarri að ég tali niður til þeirra aðgerða sem hafa þó verið gerðar. Ég tel þær bara allt of litlar. Þær ná allt of skammt og þær gleyma allt of mörgu og mörgum. Þær gleyma sjómönnum, þær gleyma fiskverkafólki og gleyma allt of mörgum. Það er ekki hægt að segja annað en að þær séu litlar ef maður tekur einfaldan samanburð. Ef maður tekur einfaldan samanburð á tekjuskerðingunni í Vestmannaeyjum og þeim sjávarplássum sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson þekkir til þá eru þær sáralitlar. Þær eru sáralitlar á yfirstandandi fiskveiðiári, 2007. Og þó maður fái lítið að borða þá er betra að fá mjög lítið að borða en ekki neitt en ég bendi á veiðileyfagjaldið sem fer til fjármálaráðherra. Ég er ekki að leggja til auknar fjárveitingar. Ég er bara að tala um að ráðstafa þessu fé til þeirra byggða sem leggja til fjármunina, 101 millj. kr. í Vestmannaeyjum. Ég legg það til hér. Ég legg til að hv. fjárlaganefnd skoði það fyrir 3. umr. og ræði við hæstv. fjármálaráðherra um að ráðstafa veiðileyfagjaldinu til byggðarlaganna sem það kemur frá, einfalt mál vegna þess að 85% gjaldsins kemur frá landsbyggðinni og þetta er með réttu kallaður landsbyggðarskattur. Menn rökstyðja að það er ekki lagt á bankana og fiskvinnslufyrirtækin eru í samkeppni við fjármálastofnanir og önnur orkufyrirtæki með starfsfólk, með yfirfólkið. Það fækkar í þessari stétt.